Jean-de-Dieu Soult
Jean-de-Dieu Soult | |
---|---|
Forsætisráðherra Frakklands | |
Í embætti 11. október 1832 – 18. júlí 1834 | |
Þjóðhöfðingi | Loðvík Filippus |
Forveri | Casimir Pierre Périer |
Eftirmaður | Étienne Maurice Gérard |
Í embætti 12. maí 1839 – 1. mars 1840 | |
Þjóðhöfðingi | Loðvík Filippus |
Forveri | Louis-Mathieu Molé |
Eftirmaður | Adolphe Thiers |
Í embætti 29. október 1840 – 19. september 1847 | |
Þjóðhöfðingi | Loðvík Filippus |
Forveri | Adolphe Thiers |
Eftirmaður | François Guizot |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 29. mars 1769 Saint-Amans-la-Bastide, Frakklandi |
Látinn | 26. nóvember 1851 (82 ára) Saint-Amans-la-Bastide, Tarn, Frakklandi |
Stjórnmálaflokkur | Óflokksbundinn |
Maki | Jeanne-Louise-Elisabeth Berg (g. 1796; d. 1851) |
Börn | 2 |
Starf | Herforingi, stjórnmálamaður |
Jean-de-Dieu Soult,[1] fyrsti hertoginn af Dalmatíu (29. mars 1769 – 26. nóvember 1851) var franskur hershöfðingi og stjórnmálamaður. Hann var útnefndur marskálkur franska keisaraveldisins árið 1804 og er því oftast kallaður Soult marskálkur. Soult var einn af sex hermönnum í sögu Frakklands sem voru sæmdir titlinum hershöfðingjamarskálkur (maréchal géneral). Soult var einnig þrisvar sinnum forseti ráðherraráðsins, eða forsætisráðherra Frakklands, á tíma júlíríkisins.
Soult hlaut gælunafnið „Nikulás konungur“ á meðan hann stóð fyrir hernámi Napóleons í Portúgal. Í embætti sínu sem herstjóri Napóleons í Andalúsíu stal Soult andvirði um 1,5 milljarða franka af listaverkum og flutti þau til Frakklands.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Jean-de-Dieu Soult fæddist inn í sæmilega efnaða fjölskyldu embættismanna og hugði á laganám sem ungur maður. Þann 16. apríl 1785, þegar hann var sextán ára, gekk hann þess í stað í franska herinn til að sjá fyrir móður sinni eftir að faðir hans dó. Soult var gerður liðþjálfi eftir sex ára herþjónustu.
Soult komst til metorða sem herforingi í frönsku byltingarstríðunum. Hann var sæmdur tign fylkishershöfðingja þann 29. október 1794 og varði næstu fimm árunum í hernaði Frakka í Þýskalandi. Eftir að Napóleon Bónaparte komst til valda sem fyrsti konsúll franska lýðveldisins sendi hann Soult til að berjast með her Frakka á Ítalíu. Soult sneri aftur til Parísar stuttu áður en Frakkar undirrituðu Amiens-friðarsáttmálann við Breta. Þar útnefndi Napóleon hann einn af fjórum hershöfðingjum sem fóru fyrir lífvarðasveit konsúlanna. Á þessum tíma hlaut Soult viðurnefnið „járnkrumlan“ (bras de fer) vegna hörku sinnar í garð hermanna í Saint-Omer-herbúðunum. Eftir að Napóleon var krýndur keisari árið 1804 var Soult einn af þeim fyrstu sem hlutu titilinn marskálkur keisaraveldisins.
Napóleonsstyrjaldirnar
[breyta | breyta frumkóða]Í þriðja bandalagsstríði Napóleonsstyrjaldanna fór Soult marskálkur fyrir fjórðu herdeild franska hersins í Þýskalandi. Í orrustunni við Austerlitz var það Soult sem leiddi árás fjórðu herdeildarinnar á miðvæng bandamannahersins og batt þannig snaran enda bæði á orrustuna og á stríðið á meginlandinu. Eftir orrustuna kallaði Napóleon Soult „besta skipuleggjanda Evrópu“.
Í fjórða bandalagsstríðinu barðist Soult í Þýskalandi gegn Prússum og átti mikinn þátt í sigri Frakka í þessum hluta Napóleonsstyrjaldanna. Hann sigraði meðal annars prússneska hershöfðingjann Blücher, hertók Lübeck og fór með her sinn alla leið til Königsberg. Hann sneri aftur til Frakklands eftir uppgjöf Prússa árið 1807. Í júní árið 1808 hlaut Soult aðalsnafnbótina hertogi af Dalmatíu.
Napóleon sendi Soult næst til Íberíuskaga. Soult hertók þar spænsku borgirnar Burgos, Santander, A Coruña og Ferrol í lok ársins 1808 og rak breska herinn frá skaganum. Soult réðst inn í Portúgal samkvæmt skipun keisarans þann 4. mars árið 1809 og vann 29. mars blóðuga orrustu um Porto. Eftir orrustuna óhlýðnaðist Soult skipun keisarans um að ráðast á Lissabon þar sem her hans var illa settur og einangraður frá öðrum herafla Frakklands.[2] Portúgölum tókst að endingu að reka Soult frá Porto með hjálp bresks liðsauka undir stjórn Wellingtons lávarðar. Soult flúði með her sinn til Galisíu og hertók Sevilla í janúar árið 1810. Gæfan fór smám saman að snúast gegn Frökkum á Íberíuskaga og Soult neyddist til að hörfa frá skaganum að skipan Josephs Bonaparte Spánarkonungs eftir að hafa tapað orrustu við Salamanca þann 12. júlí 1812.
Napóleon sagði af sér sem keisari árið 1814 og var sendur í útlegð til Elbu. Soult var fljótur að ganga til liðs við stjórn nýja konungsins, Loðvíks 18., af gömlu Búrbónaættinni. Hann vann sem stríðsmálaráðherra Loðvíks frá 3. desember 1815 til 11. mars 1815. Þegar Napóleon flúði frá Elbu og sneri heim til Frakklands reyndi Soult í fyrstu að stöðva framgang hans en gekk að endingu aftur til liðs við keisarann þegar Napóleon var kominn til Parísar. Soult tók þátt í orrustunni við Waterloo þann 18. júlí 1815 þar sem Napóleon var sigraður fyrir fullt og allt. Soult var í kjölfarið sviptur embætti fyrir að svíkja konunginn og var sendur í útlegð til Þýskalands. Honum var leyft að snúa aftur til Frakklands árið 1820.
Stjórnmálaferill
[breyta | breyta frumkóða]Í júlíbyltingunni árið 1830 studdi Soult að Loðvík Filippus af Orléans-ætt tæki við konungstign í stað hins afturhaldssama Karls 10 af Búrbónaætt. Eftir byltinguna gerðist Soult hermálaráðherra í stjórn Loðvíks Filippusar frá 1830 til 1834. Soult varð einnig forsætisráðherra frá 1832 til 1834. Á fyrstu forsætisráðherratíð sinni sendi Soult franska hermenn til að hjálpa Belgum, sem höfðu nýlega klofið sig frá konungsríkinu Hollandi í belgísku byltingunni. Árið 1837 var Soult viðstaddur krýningu Viktoríu Bretadrottningar í London sem fulltrúi Loðvíks Filippusar. Sagt er að Wellington lávarður hafi þá gripið í öxlina á Soult og hrópað: „Þarna náði ég þér loksins!“
Soult varð aftur forsætisráðherra frá 1838 til 1840. Stuttu eftir að annarri ráðherratíð hans lauk tók hann þátt í viðhöfnum þegar líkamsleifum Napóleons var skilað til Frakklands í desember 1840.[3] Sagt er að Soult hafi kropið með tár í augunum fyrir framan kistu gamla herforingjans síns.[4]
Soult varð forsætisráðherra í þriðja og síðasta sinn í október næsta ár. Soult var forsætisráðherra í sjö ár en á þessum tíma leyfði hann utanríkisráðherra sínum, François Guizot, að fara með flest völd í ríkisstjórninni. Guizot tók við af Soult sem forsætisráðherra árið 1847 þegar heilsu Soults hrakaði. Þegar bylting braust út árið 1848 studdi Soult stofnun nýs fransks lýðveldis.
Soult lést þann 26. nóvember 1851, nokkrum dögum fyrir valdarán Louis-Napoléons Bonaparte. Eftir dauða Soults var fæðingarstaður hans endurnefndur Saint-Amans-Soult í höfuðið á honum.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Í mörgum heimildum er skírnarnafn Soults tilgreint sem Nicolas, en það nafn birtist ekki á fæðingarvottorði hans: „Le prénom de Soult n'est PAS Nicolas“, úr Soult, Maréchal d'Empire et homme d'État eftir Nicole Gotteri (édition de la Manufacture). Sjá bls. 20: „Il est donc parfaitement clair que le Maréchal Soult se prénommait Jean de Dieu. L'indu ajout de "Nicolas" n'est que le résultat des calomnies déclenchées à la suite de la campagne du Portugal [...]“. Kaga- (d) 29. desember 2011.
- ↑ Nicole Gotteri, Le Maréchal Soult, Bernard Giovanangeli Éditeurs, október 2000, bls. 310.
- ↑ „Napoleon á St. Helenu“. Fálkinn. 1949. Sótt 12. september 2018.
- ↑ Hermann Lindqvist. 2011. Napóleon. Hið íslenska bókmenntafélag, bls. 598.
Fyrirrennari: Casimir Pierre Périer |
|
Eftirmaður: Étienne Maurice Gérard | |||
Fyrirrennari: Louis-Mathieu Molé |
|
Eftirmaður: Adolphe Thiers | |||
Fyrirrennari: Adolphe Thiers |
|
Eftirmaður: François Guizot |