Ísafold

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ísafold (1874))

Ísafold var íslenskt tímarit sem var stofnað af Birni Jónssyni, sem ritstýrði því lengst af. Það kom fyrst út árið 1874 og var gefið út til ársins 1929. Það var lengi víðlesnasta blað landsins.

Björn Jónsson stofnaði blaðið þegar hann sneri heim frá námi í Kaupmannahöfn í samstarfi við útgefanda Víkverja, Jón Guðmundsson landshöfðingjaritara. Víkverji var lagður niður um leið og Ísafold hóf göngu sína. Nafnabreytingin stafaði af því að Björn vildi gefa út blað fyrir allt landið, en Víkverji var bæjarblað í Reykjavík. Fyrstu árin var blaðið prentað í Landsprentsmiðjunni en árið 1877 setti Björn upp nýja prentsmiðju, Ísafoldarprentsmiðju, sem hann hafði keypt frá Danmörku til að prenta blaðið, meðal annars vegna óánægju með ritskoðun sem Landsprentsmiðjan stundaði.

Þegar Björn varð ráðherra Íslands 1909 tók sonur hans, Ólafur Björnsson, við ritstjórninni. 1913 stofnaði hann Morgunblaðið ásamt Vilhjálmi Finsen. Útgáfufélag Morgunblaðsins (sem síðar nefndist Árvakur) keypti svo Ísafold af Ólafi 1919 og eftir það var blaðið gefið út sem mánudagsútgáfa Morgunblaðsins og sérstakt síðdegisblað.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]