Þjóðræðisflokkurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þjóðræðisflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur stofnaður þann 29. ágúst árið 1905. Kjarni hans var skipaður þingmönnum sem fylgdu Valtý Guðmundssyni að málum. Flokkurinn rann ásamt Landvarnarflokki inn í Sjálfstæðisflokkinn.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Við lok sumarþings árið 1905 tilkynntu ellefu þingmenn um stofnun nýs stjórnmálaflokks, Þjóðræðisflokksins. Stofnun hans var innblásin af Bændafundinum fyrr í sama mánuði, þar sem stór hópur bænda, einkum af Suðurlandi, hélt til Reykjavíkur til að mótmæla stefnu stjórnarinnar í símamálinu. Flestir í nýja flokknum tilheyrðu stuðningssveit Valtýs Guðmundssonar og höfðu áður starfað undir merkjum Framsóknarflokksins. Ætlunin var að reyna að fylkja félögum úr Landvarnarflokki og öðrum stjórnarandstæðingum í hinn nýja flokk, en það gekk lítt eftir.

Auk Valtýs Guðmundssonar voru Jóhannes Jóhannessonn og Skúli Thoroddsen helstu forystumenn flokksins á þingi en ritstjórinn Björn Jónsson var mestur áhrifamaður utan þings og beitti blaði sínu Ísafold óspart. Önnur helstu stuðningsblöð flokksins voru Þjóðviljinn og Fjallkonan.

Þingflokkur Þjóðræðisflokksins klofnaði í afstöðunni til Uppkastsins árið 1908. Skúli Thoroddsen var harður andstæðingur þess og fylgdu flestir flokksmenn honum að málum. Flokkurinn tók þátt í kosningabandalagi með Landvarnarflokki í Alþingskosningunum 1908 undir merkjum Sjálfstæðisflokks og var sá flokkur formlega myndaður á Alþingi þann 14. febrúar 1909 og upp frá því tóku gömlu flokkarnir að renna í eitt undir hinu nýja heiti.

Tilvísanir og heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Einar Laxness (1998, 2.útg.). Íslandssaga a-ö. Vaka-Helgafell. ISBN 9979-2-0295-5.