Fara í innihald

Landvarnarflokkurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Landvarnarflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur stofnaður árið 1903 sem vettvangur róttækustu aflanna í sjálfstæðisbaráttunni. Flokkurinn hafði lítinn þingstyrk en var þeim mun öflugri í þjóðfélagsumræðunni. Kunnustu leiðtogar hans voru Jón Jensson háyfirdómari og skáldið Einar Benediktsson.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1902 virtist ætla að myndast þverpólitísk samstaða á Alþingi um samþykkt stjórnarskrárfrumvarps um heimastjórn. Róttækir andstæðingar frumvarpsins utan þings töldu að í því fælust ákvæði sem væru með öllu óásættanleg. Þeir efndu til almenns fundar í Reykjavík í ágúst sama ár þar sem frumvarpinu var mótmælt.

Í ársbyrjun 1903 tók félagsskapur Landvarnarmanna að fá á sig formlegri mynd. Það varð félag þeirra sem lengst vildu ganga í sjálfstæðisbaráttunni og heyrðust jafnvel raddir um fullan aðskilnað Íslands og Danmerkur. Hugmyndafræðilegur leiðtogi flokksins í fyrstu var Jón Jensson háyfirdómari og fyrrum Alþingismaður. Hann bauð sig fram til þings árin 1902 og 1903 en náði kjöri í hvorugt skiptið. Bróðir hans, Sigurður Jensson, sat hins vegar á þingi fyrir Barðstrendinga og gekk til liðs við hina nýju hreyfingu og varð þannig fyrsti fulltrúi Landvarnarflokksins á þingi

Kunnasti leiðtogi Landvarnarmanna meðal almennings var vafalítið skáldið Einar Benediktsson, sem barðist gegn stjórnarskrárfrumvarpinu í ræðu og riti. Á árinu 1903 hófu flokksmenn útgáfu tveggja blaða: Ingólfs og Landvarnar. Varð fyrrnefnda blaðið aðalmálgagn flokksins, fyrst undir ritstjórn Bjarna frá Vogi en síðar Benedikts Sveinssonar.

Þótt Landvarnarmenn ættu ekki marga fulltrúa í þingsölum náði stefna þeirra eyrum margra og höfðaði einkum til ungra manna. Flokksmenn voru áberandi á Þingvallafundi 1907 sem markaði upphafið að baráttunni gegn Uppkastinu sem Alþingiskosningarnar 1908 hverfðust um. Í kjölfarið Þingvallafundar var stofnað málfundafélagið Landvörn í Reykjavík undir formennsku Þorsteins Erlingssonar skálds. Þá var skipuð formleg flokksstjórn og var Guðmundur Hannesson læknir formaður hennar.

Fyrir kosningarnar 1908 mynduðu Landvarnarflokkur og Þjóðræðisflokkur bandalag. Buðu þeir fram undir merkjum Sjálfstæðisflokksins. Vann kosningabandalag þetta góðan sigur og náði mörgum þingmönnum. Úr röðum Landvarnarmanna voru þeir Ari Jónsson Arnalds, Bjarni frá Vogi og Benedikt Sveinsson allir kjörnir. Hins vegar skildu leiðir flokksins og forsprakkans Jóns Jenssonar í þessum kosningum, þar sem hann skipaði sér í sveit með stuðningsmönnum Uppkastsins.

Árið 1912 gengu Björn Jónsson og stuðningsmenn hans til liðs við Heimastjórnarflokkinn, þeir sem eftir sátu töldust áfram til Sjálfstæðisflokksins og var eftir það hætt að gera greinarmun á Þjóðræðismönnum og Landvarnarmönnum. Telst Landvarnarflokkurinn því úr sögunni.

Tilvísanir og heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Einar Laxness (1998, 2.útg.). Íslandssaga a-ö. Vaka-Helgafell. ISBN 9979-2-0294-7.