Íslenska þjóðkirkjan
Íslenska þjóðkirkjan eða Þjóðkirkjan er kristin kirkja sem tilheyrir evangelísk-lúthersku kirkjudeildinni. Hún er opinbert trúfélag á Íslandi og tilheyra 56 % landsmanna henni. [1] Biskup Íslands er æðsti maður Þjóðkirkjunnar.
Saga Þjóðkirkjunnar
[breyta | breyta frumkóða]Kristnitaka og fyrstu aldir kristni í landinu
[breyta | breyta frumkóða]Saga kristni á Íslandi er jafn gömul byggð í landinu. Íslendingar tóku kristni (rómversk-kaþólska trú) á Alþingi árið 999 eða 1000. Biskupsstóll var stofnaður í Skálholti árið 1056 og á Hólum í Hjaltadal árið 1106. Árið 1096 var tekin upp tíundargreiðsla, sem er fyrsta form opinberrar skattheimtu á Íslandi. Næstu aldir óx vegur kaþólsku kirkjunnar jafnt og þétt, klaustur voru stofnuð víða um land og klaustrin, biskupsstólarnir og kirkjustaðirnir söfnuðu miklum eignum.
Siðaskiptin
[breyta | breyta frumkóða]Sumum guðfræðingum og öðrum þótti nóg um spillingu, íburð og veraldleg umsvif kaþólsku kirkjunnar. Árið 1517 negldi þýski guðfræðingurinn Marteinn Lúther gagnrýni á aflátssölu kirkjunnar, í 95 greinum, á kirkjudyrnar í Wittenberg. Sá atburður markaði upphaf siðaskiptanna: Margir evrópskir, einkum þýskir og norrænir, konungar brutu kaþólsku kirkjuna á bak aftur í ríkjum sínum, stofnuðu „þjóðkirkjur“ og eignuðu ríkinu það sem kirkjan átti áður.
Siðaskiptin urðu um miðja 16. öld á Íslandi. Nýja testamentið kom út á íslensku árið 1540 í þýðingu Odds Gottskálkssonar. Síðastur kaþólskra biskupa í Skálholti var Ögmundur Pálsson, sem lét af embætti árið 1541, en á Hólum í Hjaltadal sat Jón Arason sem biskup þangað til hann var tekinn höndum og hálshöggvinn árið 1550. Lúthersk kirkjuskipun tók við á Íslandi. Guðbrandur biskup Þorláksson gaf alla Biblíuna út á íslensku árið 1589.
Trúfrelsi
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1874 setti Kristján konungur IX Íslendingum stjórnarskrá. Meðal nýmæla sem þar komu fram var trúfrelsi. [2] Það þýddi að leyfilegt varð að stofna önnur trúfélög. Reyndi á þetta fyrst, þegar Fríkirkjan í Reyðarfirði varð til úr kirkjuklofningi eystra og starfaði 1883 - 1930. Fyrsti prestur hennar var Lárus Halldórsson [3], sem seinna þjónaði fríkirkjunni í Reykjavík. Fleiri trúfélög og fríkirkjur fylgdu í kjölfarið, svo sem rómversk-kaþólska kirkjan, mormónar og aðrir. Ríkisvaldið og kirkjan þurftu á þeim árum að taka á rétti manna að velja sér sóknarprest, segja sig úr þjóðkirkjunni, til að stofna til trúfélaga og til að gjalda sóknargjöld til síns trúfélags frekar en til þjóðkirkjunnar.
Frjálslynda guðfræðin
[breyta | breyta frumkóða]Fram yfir aldamótin 1900 aðhylltust íslenskir guðfræðingar bókstafstrúaða guðfræðistefnu. Í byrjun tuttugustu aldar fóru íslenskir menntamenn, sem komu heim frá námi erlendis, að bera með sér hugmyndir sem einkenndust af frjálslyndi, vísindahyggju og efasemdum um æðri máttarvöld. Bókstafstrúin reyndist illa undir það búin að bregðast við þessum gagnrýnu röddum, þar til frjálslynda guðfræðin kom kirkjunni til bjargar. Þar ber helst að minnast Jóns Helgasonar (1866-1942), Haraldar Níelssonar (1868-1926), Friðriks Friðrikssonar (1868-1961) og Sigurðar Sívertsen (1868-1938) sem forgöngumanna hennar. Saga kirkjunnar á tuttugustu öld einkennist meðal annars af þeim áherslumuni sem er milli frjálslyndra og íhaldssamra guðfræðinga. [4]. Fáeinir kvenkyns guðfræðingar innan sk. kvennakirkju kenna og boða kvennaguðfræði, sem nýtur lítillar hylli innan þjóðkirkjunnar enn sem komið er.
Lagaleg staða
[breyta | breyta frumkóða]Stjórnarskráin
[breyta | breyta frumkóða]Í 6. hluta stjórnarskrárinnar kemur fram að kirkjan sé þjóðkirkja, og skuli studd af ríkisvaldinu: „62. gr. Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.“
Frá árinu 1995 hefur 63. grein stjórnarskrárinnar verið á þá leið að „Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.“[5]
Sóknargjöld og aðrar tekjur
[breyta | breyta frumkóða]Þessa grein þarf að uppfæra. Ástæða gefin: úreltar tölur. |
Þjóðkirkjan fær sóknargjöld fyrir hvern skráðan safnaðarmeðlim skv. lögum nr. 91/1987 og vísað er til í lögum um skráð trúfélög nr. 108/1999. Fjársýslu ríkisins var falið að reikna á hverju ári samkvæmt verðlagsþróun frá fyrra ári hvert sóknargjaldið skyldi vera hverju sinni. Fyrsta sóknargjaldið samkvæmt lögunum var því framreiknað sóknargjald það sem þjóðkirkjan hafði sjálf innheimt meðal safnaðarmeðlima sinna í hverri sókn fyrir sig árið á undan. Þau nema nú um 8500 krónum árlega fyrir hvern einstakling sem orðinn er 16 ára og miðast við skráningu þann 1. desember. Auk þess fær kirkjan framlag úr Jöfnunarsjóði sókna og Kirkjumálasjóði[6], svo að tekjur hennar af hverjum einstaklingi nema um 11.300 krónum árlega[7]. Fyrir utan þessi framlög greiðir ríkissjóður prestum, biskupi og starfsfólki biskupsstofu laun[8], samkvæmt samningi frá 1997 um formleg kaup ríkisins á jarðnæði í eigu þjóðkirkjunnar. Kirkjur eru undanþegnar fasteignagjöldum.
Eignir
[breyta | breyta frumkóða]Eignir þjóðkirkjunnar eru miklar, og ber þar helst að geta fjölda kirkna um allt land, ásamt tilheyrandi kirkjumunum, safnaðarheimilum og stundum prestssetrum. Eignir kirkjunnar voru þó mun meiri áður fyrr. Við siðaskiptin yfirtók krúnan miklar eignir sem kaþólska kirkjan hafði átt, en lútherska kirkjan tók samt líka mikið í arf. Árið 1907 tók ríkissjóður mest af þáverandi eignum kirkjunnar á leigu samkvæmt samningi, ríflega 16% af öllu jarðnæði á Íslandi. Sá leigusamningur tók breytingum með ígildi kaupsamnings í það skiptið með lögum árið 1997. Ríkissjóður yfirtók þannig eignir kirkjunnar að miklu leyti, en undirgekkst það á móti, að greiða laun presta[8] sem kaupsamningsgreiðslur. Prestur hefur öll lögmæt og eðlileg afnot prestsseturs, meðan hann gegnir prestsembætti. Prestur hefur umsjón með og nýtur arðs af prestssetri samkvæmt samkomulagi við Prestssetrasjóð[9][10]
Innra skipulag
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1997 var lögum um stöðu kirkjunnar breytt, og varð hún mun sjálfstæðari í sínum eigin málum en áður var. Fer hún síðan sjálf með vald um sín innri málefni, meira og minna[8].
Kirkjuþing
[breyta | breyta frumkóða]Kirkjuþing er æðsta vald í innri stjórn kirkjunnar. Það er haldið árlega og sitja það 29 kjörnir fulltrúar. Af þeim eru 12 prestar og 17 leikmenn, sem oftast eru guðfræðingar. Biskup, vígslubiskupar og fulltrúi guðfræðideildar Háskóla Íslands eiga auk þess sæti á þinginu[8].
Sóknir
[breyta | breyta frumkóða]Starfsemi kirkjunnar á landinu er skipt eftir sóknum, sem eru tæplega 250 talsins. Í hverri sókn er ein kirkja, og vanalega einn prestur. Sumum sóknum, einkum þeim stærri, þjóna fleiri prestar, og fámennari sóknum er stundum þjónað tveim eða fleiri saman af sama prestinum. Sóknum landsins er skipt eftir 15 prófastsdæmum og í hverju situr einn prófastur. Í Skálholti og á Hólum í Hjaltadal sitja vígslubiskupar og æðstur trónir biskup Íslands[8].
Biskupsstofa
[breyta | breyta frumkóða]Æðsti embættismaður þjóðkirkjunnar er biskup Íslands. Agnes M. Sigurðardóttir hefur gegnt því embætti frá 2012. Biskup er embættismaður ríkisins eins og prestar þjóðkirkjunnar. Hann hefur embættisbústað í eigu þjóðkirkjunnar.
Fjöldi meðlima
[breyta | breyta frumkóða]Ár | Meðlimafjöldi | Hlutfall af mannfjölda, % |
---|---|---|
1998 | 244.893 | 89,91 |
1999 | 246.263 | 89,32 |
2000 | 247.420 | 88,67 |
2001 | 248.614 | 87,74 |
2002 | 249.386 | 87,02 |
2003 | 249.645 | 86,54 |
2004 | 250.176 | 86,10 |
2005 | 250.759 | 85,42 |
2006 | 251.909 | 84,00 |
2007 | 252.411 | 82,04 |
2008 | 252.708 | 80,11 |
2009 | 253.069 | 79,24 |
2010 | 251.487 | 79,18 |
2011 | 247.245 | 77,64 |
2012 | 245.456 | 76,81 |
2013 | 245.184 | 76,20 |
2014 | 244.440 | 75,06 |
2015 | 242.743 | 73,80 |
2016 | 237.938 | 71,55 |
2017 | 236.481 | 69,87 |
2018 | 234.215 | 67,19 |
2019 | 232.646 | 65,15 |
2020 | 231.112 | 63,47 |
2021 | 229.669 | 62,28 |
2022 | 229.146 | 60,90 |
2023 | 227.266 | 58,6 |
2024 | 225.854 | 56,6 |
Um 225.428 meðlimir voru í Þjóðkirkjunni 1. júlí 2024 eða 55,9 % landsmanna. [12]
Frá því trúfrelsi komst á, hefur mikill meirihluti Íslendinga verið skráður í Þjóðkirkjuna. Á undanförnum áratugum hefur þeim samt fækkað allnokkuð. Árið 1991 voru 92,2% landsmanna í Þjóðkirkjunni.
Að nokkru leyti skrifast þessi hlutfallslega fækkun á fjölgun innflytjenda frá öðrum heimshlutum en Norður-Evrópu, en einnig hafa beinar úrskráningar úr Þjóðkirkjunni færst í vöxt. Þegar hneykslismál hafa komið upp, tengd Þjóðkirkjunni, þá hefur úrskráningum að jafnaði fjölgað. Einnig skrást börn ekki sjálfkrafa í trúfélag nú eins og áður.
Nýfædd börn voru, samkvæmt íslenskum lögum, sjálfkrafa skráð í trúfélag móður sinnar[13]. Þar sem flestir Íslendingar eru skráðir í Þjóðkirkjuna var skráningu meirihlutans þannig haldið við með lögum.
Frá og með 13. febrúar 2013 tóku við nýjar reglur um fyrstu skráningu barna í trúfélag, lífskoðunarfélag eða utan trúfélags. Foreldrar í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu barns: •Ef foreldrar tilheyra sama trúfélagi, lífskoðunarfélagi eða eru bæði utan trúfélaga verður barn þeirra skráð sama hátt og foreldrar þess. •Ef foreldrar tilheyra ekki sama trúfélagi, lífskoðunarfélagi eða eru bæði utan trúfélaga verður barn þeirra ekki skráð í trúfélag, lífskoðunarfélag eða utan trúfélaga heldur verður staða þess skráð ótilgreind. [14]
Boðskapur þjóðkirkjunnar
[breyta | breyta frumkóða]Þar sem Þjóðkirkjan er kristið trúfélag, þá byggir hún boðskap sinn, eðli málsins samkvæmt, á kristnum grunni. Ber þar helst að nefna Biblíuna, einkum Nýja testamentið, fimm játningar og ýmis rit kristinnar hefðar.
Biblían
[breyta | breyta frumkóða]Biblían er safn 66 rita og skiptist í Gamla testamentið og Nýja testamentið. Hún er grundvallarrit kristinna manna og er ein útbreiddasta bók veraldar. Nýja testamentið er heimild um Jesú, sem kristnir menn trúa að sé sonur guðs og frelsari mannanna, og það sem hann á að hafa sagt og gert. Píslardauði Jesú á krossi og upprisa hans í kjölfarið eru meginstef kristinnar kenningar, þar sem álitið er að með dauða sínum hafi Jesús frelsað þá sem trúa á hann undan syndum sínum.
Hið íslenska biblíufélag (stofnað 1815) er sjálfstætt félag en starfar í nánum tengslum við Þjóðkirkjuna og er m.a. með skrifstofu í Hallgrímskirkju. Það sér um að gefa Biblíuna út á íslensku. Hún kom út í nýrri þýðingu í október 2007. Þrátt fyrir margra ára starf þýðingarnefndar við að breyta bókinni í samræmi við ný viðhorf, vakti þýðingin miklar deilur í fjölmiðlum og á netinu, og meðal annars sögðust nokkrir af prestum Þjóðkirkjunnar ekki mundu styðjast við hana í starfi sínu, heldur gömlu þýðinguna. [heimild vantar]
Lúther
[breyta | breyta frumkóða]Dr. Marteinn Lúther var þýskur guðfræðingur sem leiddi lúthersku siðaskiptahreyfinguna á 16. öld, eftir að hann gagnrýndi kaþólsku kirkjuna með greinunum 95 sem hann negldi á kirkjuhurðina í Wittenberg árið 1518. Í lútherskri hefð á kirkjan að vera þjóðkirkja, sem þýðir að þjóðhöfðinginn er höfuð kirkjunnar. Lúther hafnaði kaþólskri dýrkun á dýrlingum og að menn gætu orðið sáluhólpnir fyrir rétta breytni. Að hans dómi gat trúin ein veitt mönnum lausn frá syndum sínum og vist í himnaríki, en rétt breytni væri afleiðing réttrar trúar. Eftir hann liggja mörg og viðamikil rit, sem þykja eiga misjafnlega við nútímann.
Játningar þjóðkirkjunnar
[breyta | breyta frumkóða]Kennilega séð byggir Þjóðkirkjan á fimm játningum: Postullegu trúarjátningunni, Níkeujátningunni, Aþanasíusarjátningunni, Ágsborgarjátningu lúthersku kirkjunnar og Fræðum Lúthers minni. Játningarnar eru umgjörð og útfærsla kristindóms og gegna þannig því hlutverki að skýra hvað felst í því að vera kristinn, í skilningi kirkjunnar, og eru þannig fræðilegar forsendur trúarinnar; þær tvær síðastnefndu aðgreina lútherstrú frá öðrum kvíslum kristninnar[15].
Postullega trúarjátningin
[breyta | breyta frumkóða]Postullega trúarjátningin („symbolum apostolicum“ á latínu) er byggð á skírnarjátningu kirkjunnar frá árdögum hennar í Róm. Sögu hennar má rekja allt aftur til annarrar aldar. Nafn sitt dregur hún af því þegar postularnir stofnuðu kristna kirkju á hvítasunnu eftir krossfestingu Jesú, svo sem um er getið í Nýja testamentinu. Pétur postuli á að hafa byrjað á henni og postularnir síðan hver og einn bætt við setningu þangað til hún var tilbúin í heild sinni.
Sá sem fer með játninguna játar trú á að guð sé til, að hann sé almáttugur og skapari himins og jarðar, að Jesús sé kristur („smurður“, þ.e. frelsari), einkasonur guðs og sjálfur guð, að heilagur andi hafi getið hann, María mey fætt hann, hann hafi verið „píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn“ og síðan farið til heljar, risið upp og stigið til himna. Þar sitji hann í öndvegi með föður sínum og muni á efsta degi koma þaðan „að dæma lifendur og dauða.“ Þá er játuð trú á „heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf.“[16]
Níkeujátningin
[breyta | breyta frumkóða]Níkeujátningin („symbolum nicaenum“ á latínu) dregur nafn sitt af Kirkjuþinginu í Níkeu árið 325. Tilefnið var einkum að útkljá deilur um samband Jesú og guðs föðurins, þar sem prest að nafni Aríus, og fylgismenn hans, greindi á við aðra kristna menn. Kenningar hans þóttu stangast á við Nýja testamentið og almenna kenningu kirkjunnar, og niðurstaða Níkeuþingsins var Níkeujátningin, sem gengur í aðalatriðum út á að eðli Jesú og guðs föðurins væri hið sama. Játningin, í því formi sem hún er nú, var endanlega frágengin í Konstantínópel árið 381[17].
Aþanasíusarjátningin
[breyta | breyta frumkóða]Aþanasíusarjátningin („symbolum athanasii“ á latínu) var, rétt eins og Níkeujátningin, samin gegn Aríusarsinnum. Hún er kennd við Aþanasíus biskup í Alexandríu (295-373), þótt hún geti ekki verið eldri en frá fimmtu eða sjöttu öld.
Í Aþanasíusarjátningunni er játað að menn verði hólpnir fyrir „almenna trú“ og að sá sem ekki varðveiti hana „hreina og ómengaða“ muni „glatast að eilífu.“ Síðan er útlistað hvað felst í „almennri trú“: Heilög þrenning, sem er „ósköpuð“, „ómælanleg“, „eilíf“ og „almáttug“ og faðir, sonur og heilagur andi eru þrír en samt einn. Þá er „og nauðsynlegt til eilífs hjálpræðis að trúa í einlægni holdgun“ Jesú[18].
Ágsborgarjátningin
[breyta | breyta frumkóða]Ágsborgarjátningin er frá árinu 1530 og er höfuðjátning lútherstrúarmanna. Hún er margfalt viðameiri en Postullega trúarjátningin, Níkeujátningin eða Aþanasíusarjátningin, og er kaflaskipt. Fyrri hluti hennar er um „Höfuðtrúargreinarnar“: Um guð, upprunasyndina, guðs son, réttlætinguna, embætti kirkjunnar, hina nýju hlýðni, kirkjuna, hvað kirkjan sé, skírnina, máltíð drottins, skriftirnar, yfirbótina, neyslu sakramentanna, hina kirkjulegu stétt, kirkjusiði, borgaraleg málefni, endurkomu Krists til dóms, frjálsræðið, orsök syndarinnar, trúna og góðu verkin og um dýrlingadýrkun. Síðari hluti er um „Greinar sem telja upp ósiði sem hefur verið breytt“: Um báðar tegundir, hjónaband presta, messuna, skriftirnar, greinarmun fæðu, klausturheit og kirkjuvaldið[19].
Fræði Lúthers minni
[breyta | breyta frumkóða]Fræði Lúthers minni skiptast í níu hluta. Það eru: Boðorðin tíu, trúin, faðir vor, sakramenti heilagrar skírnar, hvernig kenna ber fáfróðu fólki að skrifta, altarissakramentið, morgun- og kvöldbæn, bænir á undan og eftir máltíð og hússpjaldið[20].
Kirkjuathafnir
[breyta | breyta frumkóða]Prestar Þjóðkirkjunnar annast ýmsar helgiathafnir. Venja er að messa á sunnudögum. Nýir safnaðarmeðlimir, yfirleitt kornabörn, eru skírðir. Börn eru fermd, vanalega á 14. aldursári. Flest fólk gengur í hjónaband með kirkjulegri hjónavígslu, og loks fara jarðarfarir einatt fram í kirkjum. Stundum eru prestar fengnir til að blessa byggingar. Greiða þarf sérstaklega fyrir sumar þessara athafna, þótt fólk sé skráð í kirkjuna.
Um þriðjungur para giftir sig hjá Þjóðkirkjunni (2018) [21] og 60% barna eru skírð hjá kirkjunni (2014) en hefur þeim farið fækkandi. [22] Fermingum hefur einnig fækkað þó meirihluti láti ferma sig hjá kirkjunni [23].
Kirkjan og stjórnmál
[breyta | breyta frumkóða]Tengsl Þjóðkirkjunnar við ríkið koma fram með ýmsum hætti. Þegar Alþingi er sett, þá hefst athöfnin á guðsþjónustu biskups Íslands í Dómkirkjunni, áður en gengið er til Alþingishússins. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið fer með málefni kirkjunnar af hálfu ríkisvaldsins.
Kirkjan fer yfirleitt varlega þegar pólitísk deilumál eru annars vegar. Undanfarin ár hefur hún tekið afstöðu gegn slysum og náttúruhamförum, og gegn siðleysi og trúleysi. Einstakir prestar hafa tjáð skoðanir sínar á ýmsum málum opinberlega, en þær jafngilda ekki afstöðu kirkjunnar sem slíkrar. Biskup hefur tjáð andúð sína á dauðarefsingum og stríðsrekstri[24]. Stöðu sinnar vegna hefur kirkjan síður en svo farið varhluta af deilumálum.
Í innbyrðis málum kirkjunnar hefur borið á tveim óformlegum fylkingum sem margir prestar skipast í eftir skoðunum. Önnur þeirra er frjálslynd, m.a. þegar kemur að málefnum samkynhneigðra. Meðal presta sem taldir eru til hennar eru Bjarni Karlsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju og Toshiki Toma, prestur innflytjenda. Hin fylkingin er íhaldssöm og er í daglegu tali kölluð „svartstakkar“ og til hennar teljast m.a. Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti.
Samband eða aðskilnaður ríkis og kirkju
[breyta | breyta frumkóða]Í seinni tíð hafa æ háværari raddir verið uppi um að aðskilja beri ríki og kirkju að fullu. Meginröksemdir fyrir því hafa verið að samband ríkis og kirkju og stjórnarskrárbundin forréttindi hennar séu ósamrýmanleg trúfrelsi og að ríkisvaldið eigi ekki að láta sig lífsskoðanir fólks varða. Meginröksemdirnar gegn aðskilnaði hafa verið þær, að þar sem langstærstur hluti þjóðarinnar sé skráður í Þjóðkirkjuna, og að menning þjóðarinnar byggi að verulegu leyti á kristinni arfleifð, þá sé eðlilegt að ríkisvaldið hlúi að Þjóðkirkjunni og hún njóti nokkurra forréttinda.
Þjóðkirkjan og málefni samkynhneigðra
[breyta | breyta frumkóða]Eftir því sem samkynhneigð hefur orðið viðurkenndari í samfélaginu, hefur þrýstingurinn vaxið á Þjóðkirkjuna, að hún taki undir almenna viðurkenningu á samkynhneigðum, meðal annars með því að gefa samkynhneigða saman í fullgilt kristilegt hjónaband eins og annað fólk. Í aldanna rás hefur kirkjan, eins og flestar aðrar stofnanir samfélagsins, haft ímugust á samkynhneigð, og er meðal annars farið hörðum orðum um hana í Biblíunni. Þjóðkirkjan hefur reynt að verða við gagnrýninni sem hún hefur orðið fyrir af þessum sökum, en vera samt trú ritningunni. Í nýárspredikun[25] í ársbyrjun 2006 komst Karl Sigurbjörnsson biskup svo að orði að í þessu máli yrði að „að fara hér með gát, og leyfa hjónabandinu að njóta vafans.“
Á haustdögum 2006 var fjallað mikið um málið á kirkjuþingi, ekki síst um það hvers eðlis spurningin væri. Var rökrætt hvort málefnið væri guðfræðilegs eða siðfræðilegs eðlis — ef það væri guðfræðilegs eðlis, þá væri vafasamt fyrir kirkjuna að breyta um stefnu, en ef það væri siðferðislegs eðlis, þá gæti hún það. Þann 27. júní árið 2010 voru gildandi hjúskaparlög samræmd lögum um staðfesta samvist sem gilt höfðu frá árinu 1996 og náðu til samkynhneigðra para, og sett voru ein hjúskaparlög sem heimila hjónabönd samkynja para. [heimild vantar]
Árið 2015 fór fram umræða um svokallað samviskufrelsi presta, þ.e. hvort þeir gætu neitað að gefa saman samkynja pör vegna skoðunar þeirra á hjónabandinu. [heimild vantar]
Þjóðkirkjan og önnur trúarbrögð
[breyta | breyta frumkóða]Þjóðkirkjan er vön að sýna umburðarlyndi gagnvart öðrum trúarbrögðum og hjátrú ýmiss konar svo sem andatrú og álfatrú. Hún forðast jafnan trúarbragðadeilur enda ríkir trúfrelsi í landinu. Sumir talsmenn hennar, meðal annars biskupar, hafa þó látið hafa eftir sér andúð á trúleysi. Þjóðkirkjan vill halda áfram að njóta sérstöðu meðal trúfélaga meðal annars vegna sögulegra forsendna og lúthersk-kristinnar menningararfleifðar þjóðarinnar.
Boðun og hjálparstarf
[breyta | breyta frumkóða]Slagorð þjóðkirkjunnar er „biðjandi, boðandi, þjónandi“. Boðun hefur verið snar þáttur í starfi hennar áratugum saman, bæði innanlands og utan, en eiginlegt kristniboð hefur einkum verið erlendis. Samband íslenskra kristniboðsfélaga (SÍK) var stofnað árið 1929, og hefur boðað kristni í Kína, í Eþíópíu frá 1953, í Kenýa frá 1978 og Japan frá 2010. Sambandið starfar sem frjáls félagasamtök, en þó innan vébanda kirkjunnar. Auk boðunarstarfs sinnir SÍK þróunaraðstoð. Hjálparstarf kirkjunnar starfar m.a. í Mósambík, Úganda og á Indlandi.
Innlent kristniboð Þjóðkirkjunnar hefur verið takmarkað, í eiginlegum skilningi orðsins, en mikið í víðri merkingu þess. Messur eru fluttar í útvarpi, kirkjustarf hefur tengst starfi skóla og leikskóla, og kirkjan hefur hjálpað bágstöddu fólki og fólki í hjónabandserfiðleikum, tekið þátt í áfallahjálp og fleiri líknandi störfum, í þeim anda að sýna beri trú sína með verkum sínum. Þá ber að nefna fermingarfræðslu, sem flest íslensk börn hljóta áður en þau fermast, sem yfirleitt gerist á fjórtánda ári.
Ýmis starfsemi
[breyta | breyta frumkóða]Þjóðkirkjan stendur í margvíslegri starfsemi annarri en eiginlegu helgihaldi. Safnaðarheimilin hýsa til dæmis oft sk. „mömmumorgna“, þar sem mæður geta komið, hist og rætt saman um barnauppeldi eða annað sem þær langar. Einnig fá AA-samtökin inni í mörgum safnaðarheimilum til þess að halda fundi.
Útgáfumál
[breyta | breyta frumkóða]Þjóðkirkjan hefur frá upphafi staðið fyrir umfangsmikilli útgáfustarfsemi. Strax á sextándu öld kom Biblían út í íslenskri þýðingu, en auk hennar hefur kirkjan gefið út sálmabækur, saltara, postillur, ýmsar textabækur, nótnabækur, guðfræðirit og margt annað sem kemur starfi hennar við. Skálholtsútgáfan Geymt 12 febrúar 2007 í Wayback Machine er helsti vettvangur þessa útgáfustarfs, en hún er útgáfufélag Þjóðkirkjunnar. Hið íslenskra biblíufélag annast útgáfu Biblíunnar[26].
Tónlist
[breyta | breyta frumkóða]Við helgihald Þjóðkirkjunnar er tónlist áberandi. Í flestum kirkjum eru orgel, og stundum önnur hljóðfæri, sem leikið er á við guðsþjónustur. Kirkjukórar starfa með mjög mörgum kirkjum og syngja í messum. Hægt er að lesa sálmana og heyra lag þeirra á Kirkjunetinu [1] Geymt 27 júní 2006 í Wayback Machine Fyrir utan helgihald, þá eru oft haldnir tónleikar ýmiss konar í kirkjum, bæði kristilegir og ótengdir kristni, enda henta kirkjubyggingar yfirleitt vel undir tónlistarflutning. Þá má geta þess að hluti af lútherskri messu er tónaður, en tónið er söngles sem er mitt á milli talaðs máls og söngs. Það á uppruna að rekja til þess tíma að mannsröddin þurfti að berast án mögnunar.
Hneykslismál
[breyta | breyta frumkóða]Hneykslismál og deilur hafa stundum tengst Þjóðkirkjunni, og hafa færst í vöxt hin síðari ár. Á tíunda áratugnum komu fram ásakanir á hendur Ólafi biskupi Skúlasyni (f. 29. desember 1929), þess efnis að hann hefði áreitt konur kynferðislega í tíð sinni sem prestur í Bústaðarkirkju. [heimild vantar]
Haustið 2006 hófust deilur um verkefnið Vinaleið, sálgæsluverkefni sem Þjóðkirkjan hefur staðið fyrir í skólum í Mosfellsbæ, Garðabæ og á Álftanesi. [heimild vantar]
Neðanmálsgreinar
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ [https://www.skra.is/um-okkur/frettir/frett/2024/03/07/Skraning-i-tru-og-lifsskodunarfelog-fram-til-1.-mars-2024/ Skráning í trú og lífsskoðunarfélög] Þjóðskrá, sótt 12/3 2024
- ↑ Hvers vegna komst á þjóðkirkja á Íslandi Vísindavefurinn, sótt 21/2 2024
- ↑ „Alþingi - Æviágrip: Lárus Halldórsson“. 15. ágúst 2001. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ Pétur Pétursson (15. desember 2006). „„Frelsi landanna" – Nýja guðfræðin og þjóðfrelsisbarátta Íslendinga í upphafi 20. aldar“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ „1944 nr. 33 17. júní/ Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ „1993 nr. 138 31. desember /Lög um kirkjumálsjóð“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ „Fjármál Þjóðkirkjunnar“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ 8,0 8,1 8,2 8,3 8,4 „1997 nr. 78 26. maí/ Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ „1993 nr. 137 31. desember Lög um prestssetur“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ „Starfsreglur um Kirkjumálasjóð vegna rekstrar og umsýslu prestsbústaða og prestssetursjarða“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ „Populations by religious and life stance organizations“. Statistics Iceland.
- ↑ [https://www.skra.is/um-okkur/frettir/frett/2024/05/07/Skraning-i-tru-og-lifsskodunarfelog-fram-til-1.-juli-2024/ Skráning í trú- og lífsskoðunarfélög] Þjóðskrá, 9/7 2024
- ↑ „1999 nr. 108 28. desember /Lög um skráð trúfélög“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ http://www.skra.is/?PageId=e7e33747-ed95-43dc-ac2c-3e6a51ad444d&newsid=dded5d9b-e111-401b-aea4-20a187428377[óvirkur tengill]
- ↑ Einar Sigurbjörnsson. „Um játningar kirkjunnar“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ „Postullega trúarjátningin“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ „Níkeujátningin“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ „Aþanasíusarjátningin“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ „Ágsborgarjátningin“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ „Fræðin minni“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ Rúmur helmingur giftir sig hjá sýslumanniVísir. Skoðað 19. desember, 2018.
- ↑ Skírnum barna fækkað mjög frá árinu 2005 Vísir, skoðað 19. desember, 2018
- ↑ Fermingum hefur fækkað um rúma tíund Vísir, skoðað 19. desember, 2018.
- ↑ Karl Sigurbjörnsson (1. janúar 2007). „Nýársdagur“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ Karl Sigurbjörnsson (1. janúar 2006). „Kenn oss að telja daga vora“. Sótt 27. mars 2007.
- ↑ „Hið íslenska Biblíufélag“. Sótt 27. mars 2007.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Pétur Pétursson prófessor: „Frelsi landanna“ – Nýja guðfræðin og þjóðfrelsisbarátta Íslendinga í upphafi 20. aldar
- Fjármál kirkjunnar[óvirkur tengill]
- Vefur AA-samtakanna
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]Vefir tengdir kirkjunni
[breyta | breyta frumkóða]- Vefur þjóðkirkjunnar
- Vefur biskups
- Biskupsstofa Geymt 14 febrúar 2007 í Wayback Machine
- Trúmálavefurinn Trú.is Geymt 17 desember 2019 í Wayback Machine
- Kenning og játningar kirkjunnar
- Viðhorfsrannsóknin Trúarlíf Íslendinga Geymt 23 júlí 2012 í Wayback Machine frá febrúar-mars 2004
- Prófastsdæmi, prestaköll, sóknir og kirkjur Geymt 12 febrúar 2007 í Wayback Machine
- Hlekkir á vefi íslenskra sókna
- Samkynhneigð og kirkja Geymt 12 febrúar 2007 í Wayback Machine
- Skálholtsútgáfan Geymt 12 febrúar 2007 í Wayback Machine
- Hjálparstarf kirkjunnar
- Samband íslenskra kristniboðsfélaga
- Hið íslenskra biblíufélag
Vefir tengdir hinu opinbera
[breyta | breyta frumkóða]- Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands
- Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar
- Lög um kirkjumálasjóð
- Lög um laun sóknarpresta
- Lög um skráð trúfélög
- Tilskipun um ferminguna
- Tilskipun um vald biskupa til að veita undanþágur frá fermingartilskipunum
- Hagstofa Íslands: Mannfjöldi 1. desember 2008 eftir trúfélögum og sóknum Geymt 25 október 2012 í Wayback Machine
Annað
[breyta | breyta frumkóða]