Guðrún Karls Helgudóttir
Guðrún Karls Helgudóttir (fædd 27. apríl 1969) er íslenskur prestur og núverandi biskup Íslands. Hún er sóknarprestur í Grafarvogssókn og hefur starfað á Akranesi, Seltjarnarnesi og í Gautaborg.
Guðrún sigraði í seinni umferð biskupskjörs 2024 og hlaut rúm 52% atkvæði.[1][2] Hún var vígð til embættis þann 1. september.[1]
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Guðrún er fædd í Reykjavík. Hún útskrifaðist með stúdentspróf frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti árið 1992 og með B.A.-próf í guðfræði frá Háskóla Íslands haustið 1998. Hún lauk cand. theol.-prófi við sama skóla árið 2000. Hún hafði umsjón með barnastarfi við Árbæjarkirkju og var æskulýðsfulltrúi við Akraneskirkju og Grafarvogskirkju á árunum 1999 til 2000.[3]
Guðrún var í starfsnámi í Gautaborgarstifti árin 2001 til 2003. Hún var meðferðarfulltrúi í kvennaathvarfi í Gautaborg árin 2000 til 2001 og æskulýðsfulltrúi í Lunby-söfnuðinum í borginni. Hún vígðist þann 11. janúar 2004 í Dómkirkjunni í Gautaborg.[3]
Guðrún varð prestur í Grafarvogssöfnuði árið 2008 og hefur verið sóknarprestur í sama söfnuði frá árinu 2016.[3]
Einkahagir
[breyta | breyta frumkóða]Guðrún er gift Einari Erni Sveinbjörnssyni og á með honum tvær dætur og tvær dótturdætur.[3]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Andri Yrkill Valsson (7. maí 2024). „Guðrún Karls Helgudóttir kjörin biskup“. RÚV. Sótt 7. maí 2024.
- ↑ „Sr. Guðrún nýr biskup“. mbl.is. 7. maí 2024. Sótt 7. maí 2024.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 „Sr. Guðrún Karls Helgudóttir kjörin biskup Íslands“. Þjóðkirkja Íslands. 7. maí 2024. Sótt 7. maí 2024.