Fara í innihald

Vígslubiskup

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vígslubiskup er það embætti innan Íslensku þjóðkirkjunnar og sambærilegra kirkna sem er næst fyrir neðan biskup og næst fyrir ofan prófast. Á Íslandi eru tveir vígslubiskupar, og situr annar á Hólum í Hjaltadal í Skagafirði og hinn í Skálholti í Biskupstungum.

Stofnað var til vígslubiskupsembættanna samkvæmt stjórnarfrumvarpi sem samþykkt var á Alþingi 1909. Danakonungur hafði ákveðið með tilskipun 1787 að biskupar á Íslandi skyldu vígja hvorn annan en þyrftu ekki lengur að sækja sér vígslu til Danmerkur eins og verið hafði um aldir (nema hvað Bauka-Jón Vigfússon hafði verið vígður af Brynjólfi Sveinssyni Skálholtsbiskupi í Skálholti árið 1674). Samkvæmt þessari tilskipun vígði Sigurður Stefánsson Hólabiskup Geir Vídalín til embættis Skálholtsbiskups á Hólum 30. júlí 1797 en hann var eini biskupinn sem hlaut vígslu samkvæmt tilskipuninni því þegar Sigurður biskup lést ári síðar var ákveðið að sameina biskupsembættin.

Þegar biskupinn var aðeins einn var ekki lengur hægt að fara að tilskipuninni og voru því eftirmenn Geirs allir vígðir í Danmörku, allt þar til Hallgrímur Sveinsson sagði af sér biskupsembætti haustið 1908 og vígði sjálfur eftirmann sinn, Þórhall Bjarnarson, í Dómkirkjunni í Reykjavík. Í framhaldi af því lagði Jón Þorkelsson fram tillögu um stofnun tveggja vígslubiskupaembætta og skyldu þeir hafa það embætti að vígja biskupa, svo og presta í forföllum biskups.

Vígslubiskupar hljóta biskupsvígslu þegar þeir eru settir í embætti og ef vígslubiskup er síðan kjörinn biskup þarf hann ekki að fá vígslu að nýju, er aðeins settur í embætti.

Upphaflega voru mörk vígslubiskupsdæmanna þau sömu og gömlu biskupsdæmanna en þeim hefur nú verið breytt til að jafna stærð biskupsdæmanna. Ennfremur var ákveðið með lögum 1990 að vígslubiskuparnir skyldu sitja á gömlu biskupssetrunum og vera sóknarprestar þar.

Vígslubiskupar í Hólabiskupsdæmi

[breyta | breyta frumkóða]

Vígslubiskupar í Skálholtsbiskupsdæmi

[breyta | breyta frumkóða]
  • „Saga Dómkirkjunnar. Af vef Dómkirkjunnar í Reykjavík“.