Arne Brustad

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Arne Brustad (f. 14. apríl 1912 - d. 22. ágúst 1987) var knattspyrnumaður frá Noregi. Hann var í keppnisliði Noregs sem hlaut bronsverðlaun á Berlínarólympíuleikunum 1936. Tveimur árum síðar skoraði hann fyrsta HM-mark Noregs á HM í Frakklandi.

Ævi og ferill[breyta | breyta frumkóða]

Sem unglingur æfði Brustad með Ullevål IL frá Ósló en lék allan sinn meistaraflokksferil, frá 1930-48, með Lyn í sömu borg. Hann var mikill markaskorari og hlaut viðurnefnið Ofurstinn. Lyn var á þessum árum ekki í hópi allra sterkustu liða Noregs, en varð þó tvívegis bikarmeistari, árin 1945 og 1946 og hafnaði í 2. sæti norsku deildarinnar leiktíðina 1937-38.

Afrek með landsliðinu[breyta | breyta frumkóða]

Frá 1935-46 lék Brustad 33 landsleiki og skoraði í þeim 17 mörk. Fyrri hluti þessa tímabils var mikill uppgangstími hjá landsliðinu. Asbjørn Halvorsen hafði tekið við stjórn þess, eftir að hafa numið knattspyrnuþjálfun í Þýskalandi. Fáir bjuggust við miklu af norska liðinu á ÓL í Berlín 1936. Tyrkir voru lagðir að velli í fyrsta leik, 4:0, þar sem Brustad skoraði eitt markanna. Í næstu umferð biðu gestgjafarnir sjálfir þar sem Norðmenn skoruðu snemma, pökkuðu því næst í vörn og gerðu loks út um leikinn undir lokin, 2:0. Adolf Hitler var meðal áhorfenda og er viðureignin talin hafa gert hann fráhverfan knattspyrnu.

Í undanúrslitum mættu Norðmenn heimsmeisturum Ítala (sem tefldu þó ekki fram aðalliði sínu heldur liði skipuðu stúdentum og áhugamönnum). Ítalir náðu forystunni en Brustad jafnaði metinn um miðjan seinni hálfleikinn. Ítalir höfðu þó betur, 2:1, í framlengingu. Við tók leikur um bronsverðlaunin gegn Pólverjum. Staðan var orðin 2:2 eftir aðeins 25 mínútur, þar sem Brustad hafði skorað bæði mörk sinna manna. Hann fullkomnaði svo þrennuna undir lokin og Norðmenn unnu 3:2 og tryggðu sér 3. sætið. Það er mögulega til marks um vinsældir norska liðsins í keppninni að leikirnir gegn Ítalíu og Póllandi voru þær tvær viðureignir í keppninni sem drógu til sín flesta áhorfendur, fleiri en sjálfur úrslitaleikurinn.

Á HM tveimur árum síðar drógust Norðmenn á móti ítölsku heimsmeisturunum í fyrsta leik og veittu þeim harða keppni. Ítalir tóku forystuna í blábyrjun en Brustad jafnaði þegar skammt var til leiksloka. Skömmu síðar setti Brusted knöttinn aftur í ítalska markið en það var dæmt af vegna umdeildrar rangstöðu. Ítalir náðu aftur forystunni í framlengingunni og þar við sat. Þetta var í fyrsta sinn sem Norðmenn kepptu í úrslitakeppni HM og áttu þeir ekki eftir að endurtaka leikinn fyrr en í Bandaríkjunum 1994.

Í viðurkenningarskyni fyrir frammistöðu sína var Arne Brustad valinn í Evrópuúrvalið sem mætti Englendingum á Highbury sama ár.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]