Fara í innihald

Niels Ryberg Finsen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Niels Ryberg Finsen.

Niels Ryberg Finsen (15. desember 1860 í Færeyjum24. september 1904) var færeyskur læknir af íslenskum og dönskum ættum, búsettur í Danmörku frá 1882.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Faðir hans, Hannes Finsen, var lengi amtmaður í Færeyjum og ólst Niels þar upp fyrstu árin, en var sendur til Danmerkur í skóla þegar hann var fjórtán ára. Þar gekk honum ekki vel og fékk hann þann vitnisburð eftir tveggja ára nám að hann væri drengur góður en skorti bæði hæfileika og dugnað. Þá var hann sendur til ömmu sinnar og frændfólks í Reykjavík og kunni þá enga íslensku. Hann varð stúdent frá Lærða skólanum í Reykjavík árið 1882 með lélega einkunn, fór þá til náms í Kaupmannahöfn og tók embættispróf í læknisfræði frá háskólanum þar í borg 1890.

Að náminu loknu var hann um skeið aðstoðarkennari í lífeðlisfræði við háskólann og skurðlæknir við Kommunalhospitalet en helgaði sig þó fyrst og fremst ljóslækningum. Hann sagði sjálfur svo frá að fyrstu hugmyndir sínar um gagnsemi ljóss og sólar hefðu kviknað þegar hann fylgdist með ketti sem lá úti á þaki og færði sig öðru hverju til eftir því sem skuggar hreyfðust, til að njóta sólarljóssins sem best.

Helsta viðfangsefni Finsens var að rannsaka áhrif ljóss á húðina. Árið 1893 birti hann fyrstu grein sína um efnið: Om Lysets Indvirkninger paa Huden. Næsta grein birtist 1896: Om Anvendelse i Medicinen af koncentrerede kemiske Lysstraaler, þar sem hann lýsir ljósameðferð við lupus vulgaris (húðberklum). Sama ár setti hann á stofn Finsenstofnunina í Kaupmannahöfn (Finsens medicinske Lysinstitut almennt kallað Finseninstituttet). 1898 varð hann prófessor í læknisfræði.

Niels R. Finsen hlaut Nóbelsverðlaun í læknisfræði árið 1903 fyrir rannsóknir sínar á ljósameðferð og framlag til lækninga. Hann var þá orðinn alvarlega sjúkur og gat ekki verið viðstaddur athöfnina. Heilsu hans hafði farið að hraka þegar hann var á þrítugsaldri, hann var veill fyrir hjarta og með vatnssýki í kviðarholi og var í hjólastól seinustu árin. Hann lést árið eftir Nóbelsverðlaunaveitinguna eftir langvarandi veikindi, 43 ára að aldri.

Eiginkona Nielsar var Ingeborg Dorothea Balslev (gift 29. desember 1892). Hún var dóttir biskupsins í Ribe. Þau eignuðust þrjú börn sem lifðu. Hún hafði frumkvæði að því að sett var upp ljósastofa þar sem maður hennar gat stundað rannsóknir og lækningar og má ef til vill segja að það hafi verið fyrsta sólbaðsstofan.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Niels Ryberg Finsen; grein í Eimreiðinni 1905
  • „Brautryðjandi í læknavísindum en þó sönnun vanmáttar þeirra. Gagnasafn Morgunblaðsins, skoðað 26. mars 2011“.