Danmörk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Konungsríkið Danmörk
Kongeriget Danmark
Fáni Danmerkur Skjaldarmerki Danmerkur
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Forbundne, forpligtet, for Kongeriget Danmark (kjörorð konungsins)
Þjóðsöngur:
Der er et yndigt land
Staðsetning Danmerkur
Höfuðborg Kaupmannahöfn
Opinbert tungumál Danska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Friðrik 10.
Forsætisráðherra Mette Frederiksen
Stofnun forsöguleg
 • Sameining 10. öld 
 • Stjórnarskrá 5. júní 1849 
 • Konungsríkið Danmörk 24. mars 1948 
Evrópusambandsaðild 1. janúar 1973
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
134. sæti
42.915,7 km²
1,6
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
114. sæti
5.935.619
131/km²
VLF (KMJ) áætl. 2022
 • Samtals 416,568 millj. dala (53. sæti)
 • Á mann 70.924 dalir (11. sæti)
VÞL (2021) 0.948 (6. sæti)
Gjaldmiðill Dönsk króna (kr) (DKK)
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Ekið er hægri megin
Þjóðarlén .dk
Landsnúmer +45

Danmörk (danska: Danmark; framburður) er land í Evrópu sem ásamt Grænlandi og Færeyjum myndar Konungsríkið Danmörk.

Danmörk samanstendur af Jótlandsskaga og 443 eyjum en af þeim eru 72 (2007) byggðar. Landið liggur að sjó að vestan, norðan og austan. Að vestan er Norðursjór, Skagerrak og Kattegat að norðvestan og norðaustan og Eystrasalt að austan, en að sunnan á Danmörk landamæri að Þýskalandi við suðurenda Jótlands. Jótland er skagi sem gengur til norðurs út úr Evrópuskaganum. Það er stærsti hluti Danmerkur. Auk Jótlandsskagans er mikill fjöldi byggðra eyja sem eru í Eystrasalti. Stærstar eru Sjáland og Fjón. Helstu borgir eru Kaupmannahöfn á Sjálandi; Óðinsvé á Fjóni; Árósar, Álaborg, Esbjerg, Randers, Kolding, Horsens og Vejle á Jótlandi.

Danmörk var áður mun víðáttumeira ríki en það er í dag. Bæði átti það miklar lendur austan Eyrarsunds, Skán, Halland og Blekinge og einnig bæði héruðin Slésvík og Holtsetaland og náðu landamærin suður fyrir Hamborg þegar veldið var sem mest. Danska konungsættin er elsta ríkjandi konungsætt í heimi. Á nítjándu öld gekk Noregur úr konungssambandi við Danmörku og var þá um tíma undir sænska konunginum. Á 20. öld fékk svo Ísland sjálfstæði frá Dönum, en Færeyjar og Grænland eru enn í konungssambandi við Danmörku þó að bæði löndin hafi fengið heimastjórn.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Jalangurssteinarnir

Mikið er deilt um orðsifjar „Danmerkur“, sambandið milli Dana og Danmerkur og sameiningu Danmerkur í eina þjóð. Deilurnar snúast um forskeytið „Dan“ og hvort það eigi við ættflokkinn Danir eða konunginn Dan, og merkingu viðskeytisins „-mörk“. Oftast er forskeytið talið eiga rætur að rekja til orðs sem þýðir „flatt land“, tengt þýska orðinu Tenne „þreskigólf“, enska den „ hellir“ og sanskrít dhánuṣ- (धनुस्; „ eyðimörk“). Viðskeytið „-mörk“ er talið eiga við skóga í Suður-Slésvík, kannski svipað nöfnunum Finnmörk, Heiðmörk, Þelamörk og Þéttmerski. Í fornnorrænu var nafnið stafað Danmǫrk.

Fyrsta þekkta notkun orðins „Danmörk“ í Danmörku sjálfri er á Jalangurssteininum, sem eru rúnasteinar taldir hafa verið settir upp af Gormi gamla (um árið 955) og Haraldi blátönn (um árið 965). Orðið „Danmörk“ er notað á báðum steinunum, í þolfalli „tanmaurk“ ([danmɒrk]) á stóra steininum og í eignarfalli „tanmarkar“ ([danmarkaɽ]) á litla steininum. Íbúar Danmerkur eru kallaðir „tani“ ([danɪ]) eða „Danir“ á steinunum.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fornsaga[breyta | breyta frumkóða]

Búið hefur verið í Danmörku síðan um það bil 12.500 f.Kr. og eru sannindamerki um landbúnað frá 3600 f.Kr. Bronsöldin í Danmörku var frá 1800–600 f.Kr. og þá voru margir haugar orpnir. Í þeim hafa fundist lúðrar og Sólvagninn. Fyrstu Danir komu til landsins á rómversku járnöld (1–400 e.Kr.). Þá var verslun milli Rómaveldisins og ættflokka í Danmörku og rómverskir peningar hafa fundist þar. Ennfremur finnast sannindamerki um áhrif frá Keltum, meðal annars Gundestrup-potturinn.

Víkingaöld[breyta | breyta frumkóða]

Frá 8. öld til 11. aldar voru Danir meðal þeirra sem þekktir voru sem Víkingar. Víkingar námu Ísland á 9. öld með viðkomu í Færeyjum. Frá Íslandi sigldu þeir til Grænlands og þaðan til Vínlands (líklega Nýfundnalands) og settust þar að. Víkingar voru snillingar í skipasmíðum og gerðu árásir á Bretlandi og Frakklandi. Þeir voru líka mjög lagnir í verslun og viðskiptum og sigldu siglingaleiðir frá Grænlandi til Konstantínusarborgar um rússneskar ár. Danskir víkingar voru mjög virkir á Bretlandi, Írlandi og í Frakklandi og settust að í sumum hlutum Englands og náðu þar völdum (þ.e. Danalög).

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Danmörk á aðeins landamæri að Þýskalandi og er lengd landamæranna 140 km. Strandlengjan er 7 314 km. Hæsti punktur er Møllehøj, á mið-austur Jótlandi, 171 (170,86) metra hár. Flatarmál Danmerkur er 42 434 km2. Danmörk á ekki verulegt hafsvæði og bætist innan við þúsund ferkílómetrar við heildaryfirráðasvæði Danmerkur sé það tekið með í 43 094 km2. Stöðuvötn þekja 660 km2.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Friðrik 10. hefur verið Danakonungur frá 2024

Í Danmörku er formlega þingbundin konungsstjórn. Konungur Danmerkur, Friðrik 10., er þjóðhöfðingi sem fer formlega með framkvæmdavald og er forseti ríkisráðs Danmerkur. Eftir upptöku þingræðis í Danmörku er hlutverk þjóðhöfðingjans aðallega táknrænt eins og formleg skipun og uppsögn forsætisráðherra Danmerkur og annarra ráðherra í ríkisstjórn Danmerkur. Konungurinn ber ekki sjálfur ábyrgð á stjórnarathöfnum og persóna hans er friðhelg.

Danmörk er í fimmta sæti í lýðræðisvísitölu Economist og í fyrsta sæti spillingarvísitölu Transparency International.

Stjórnvöld[breyta | breyta frumkóða]

Fundarsalur danska þingsins í Kristjánsborgarhöll sem hýsir auk þess hæstarétt og skrifstofu forsætisráðherra

Stjórnskipan í Danmörku byggist á stjórnarskrá Danmerkur sem var samin árið 1849. Til að breyta stjórnarskránni þarf hreinan meirihluta á tveimur þingum og síðan einfaldan meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu með minnst 40% þátttöku. Henni hefur verið breytt fjórum sinnum, síðast árið 1953.

Þjóðþing Danmerkur (Folketinget) fer með löggjafarvald og situr í einni deild. Það er æðsti löggjafi landsins, getur sett lög um alla hluti og er óbundið af fyrri þingum. Til að lög öðlist gildi þarf að leggja þau fyrir ríkisráðið og þjóðhöfðingjann sem staðfestir þau með undirskrift sinni innan 30 daga.

Í Danmörku er þingbundin konungsstjórn og fulltrúalýðræði með almennum kosningarétti. Þingkosningar eru hlutfallskosningar milli stjórnmálaflokka þar sem flokkar þurfa minnst 2% atkvæða til að koma að manni. Á þinginu eru 175 þingmenn auk fjögurra frá Grænlandi og Færeyjum. Þingkosningar eru haldnar á fjögurra ára fresti hið minnsta en forsætisráðherra getur óskað eftir því að þjóðhöfðingi boði til kosninga áður en kjörtímabili lýkur. Þingið getur neytt forsætisráðherra til að segja af sér með því að samþykkja vantraust á hann.

Framkvæmdavaldið er formlega í höndum konungs, en forsætisráðherra og aðrir ráðherrar fara með það fyrir hennar hönd. Forsætisráðherra er skipaður sá sem getur aflað meirihluta í þinginu og er venjulega formaður stærsta stjórnmálaflokksins eða leiðtogi stærsta flokkabandalagsins. Oftast er ríkisstjórn Danmerkur samsteypustjórn og oft líka minnihlutastjórn sem reiðir sig á stuðning minni flokka utan ríkisstjórnar til að ná meirihluta í einstökum málum.

Frá þingkosningum 2019 hefur Mette Frederiksen verið forsætisráðherra í eins flokks minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins með stuðningi annarra vinstri- og miðjuflokka.

Dómsvald[breyta | breyta frumkóða]

Í Danmörku gildir rómverskur réttur sem skiptist milli dómstóla á sviði einkaréttar og stjórnsýsluréttar. Dómskerfi landanna sem mynda konungsríkið er aðskilið en hægt er að skjóta málum frá Færeyjum og Grænlandi til hæstaréttar Danmerkur sem er æðsta dómsvald í Danmörku.

Greinar 62 og 64 í stjórnarskránni kveða á um sjálfstæði dómstóla frá ríkisstjórn og þingi.

Alþjóðatengsl og her[breyta | breyta frumkóða]

Danskir hermenn í þjálfun í Þýskalandi

Alþjóðatengsl Danmerkur mótast að miklu leyti af aðild landsins að Evrópusambandinu sem Danmörk gekk í árið 1973. Danmörk hefur sjö sinnum farið með formennsku í Evrópuráðinu, síðast árið 2012. Danmörk batt enda á hlutleysi landsins sem hafði verið hornsteinn utanríkisstefnunnar í tvær aldir eftir Síðari heimsstyrjöld þegar landið var hernumið af Þjóðverjum. Danmörk varð þannig stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu 1949. Danmörk rekur virka utanríkisstefnu með áherslu á mannréttindi og lýðræði. Á síðari árum hafa Grænland og Færeyjar í auknum mæli tekið sjálfstæðar ákvarðanir í utanríkismálum, meðal annars í tengslum við fiskveiðar, hvalveiðar og Evrópumál. Færeyjar og Grænland eru hvorki aðilar að Evrópusambandinu né Schengen-svæðinu.

Her Danmerkur (Forsvaret) hefur á að skipa um 33.000 manna liði á friðartímum sem skiptast milli landhers, flota og flughers. Konungurinn er yfirmaður heraflans.

Danska neyðarþjónustan hefur á að skipa um 2.000 manns og um 4.000 starfa í sérhæfðum deildum eins og dönsku landvarnasveitinni, rannsóknarþjónustunni og leyniþjónustunni. Að auki eru um 55.000 sjálfboðaliðar í danska heimavarnaliðinu. Danmörk hefur verið virkur þátttakandi í alþjóðlegum friðargæslusveitum, þar á meðal í Kosóvó, Líbanon og Afganistan. Um 450 danskir hermenn voru í Írak frá 2003 til 2007. Danmörk hefur haft umsjón með aðstoð Atlantshafsbandalagsins við Eystrasaltslöndin.

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Danmörk skiptist í fimm héruð. Héruðin skiptast enn fremur í tíu landshluta (kjördæmi) í þingkosningum. Norður-Jótland er eina héraðið sem er óskipt. Tölfræðistofnun Danmerkur skiptir landinu í ellefu landshluta. Höfuðborgarsvæðið, Hovedstaden, skiptist í fjóra landshluta og þar af er eyjan Borgundarhólmur einn en hinir þrír á Stór-Kaupmannahafnarsvæðinu.

Í Danmörku eru 98 sveitarfélög. Austasta land Danmerkur, eyjan Ertholmene, tilheyrir hvorki héraði né sveitarfélagi og heyrir undir danska varnarmálaráðuneytið.

Héruðin voru stofnuð við sveitarstjórnarumbæturnar árið 2007 og tóku við af sextán ömtum. Á sama tíma var sveitarfélögum fækkað úr 270. Nú er íbúafjöldi sveitarfélaga að jafnaði meiri en 20.000 með nokkrum undantekningum. Sveitarstjórnir og héraðsráð eru kosin í beinum kosningum á fjögurra ára fresti. Síðustu sveitarstjórnarkosningar í Danmörku voru haldnar árið 2013. Sveitarfélögin eru grunnstjórnsýslueining í héraði og jafngilda löggæsluumdæmum, héraðsdómsumdæmum og kjördæmum í sveitarstjórnarkosningum.

Í héraðsráðum sitja 41 fulltrúi kjörnir til fjögurra ára í senn. Yfir héraðsráðinu er héraðsráðsformaður sem ráðið kýs sér. Héraðsráðin fara með heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og atvinnuþróun, en ólíkt ömtunum innheimta þau ekki skatta. Heilsugæslan er að mestu fjármögnuð með sérstöku 8% heilbrigðisframlagi og fjármunum frá ríkinu og sveitarfélögum. Önnur mál sem ömtin báru ábyrgð á voru flutt til hinna stækkuðu sveitarfélaga.

Héruðin eru mjög misfjölmenn. Höfuðborgarsvæðið er þannig meira en þrisvar sinnum fjölmennara en Norður-Jótland. Meðan ömtin voru við lýði höfðu sum sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, eins og Kaupmannahöfn og Frederiksberg, fengið sömu stöðu og ömtin.

Danskt heiti Íslenskt heiti Stjórnarsetur Fjölmennasta borg Íbúar
(janúar 2015)
Flatarmál
(km²)
Hovedstaden Höfuðborgarsvæði Danmerkur Hillerød Kaupmannahöfn 1.768.125 2.568,29
Midtjylland Mið-Jótland Viborg Árósar 1.282.750 13.095,80
Nordjylland Norður-Jótland Álaborg Álaborg 582.632 7.907,09
Sjælland Sjáland Sórey Hróarskelda 820.480 7.268,75
Syddanmark Suður-Danmörk Vejle Óðinsvé 1.205.728 12.132,21
Heimild: Lykiltölur

Grænland og Færeyjar[breyta | breyta frumkóða]

Konungsríkið Danmörk er eitt óskipt ríki sem nær yfir Færeyjar og Grænland, auk Danmerkur. Þetta eru tvö lönd í Norður-Atlantshafi með heimastjórn í eigin málum þótt danska ríkið fari að mestu leyti með utanríkis- og varnarmál. Þau hafa því eigin þing og ríkisstjórn, en auk þess tvo fulltrúa hvort á danska þinginu. Ríkisumboðsmenn eru fulltrúar danska ríkisins á lögþingi Færeyja og grænlenska þinginu. Grænlendingar eru auk þess skilgreindir sem sérstök frumbyggjaþjóð með aukinn sjálfsákvörðunarrétt.

Land Íbúafjöldi (2013) Flatarmál (km²) Höfuðborg Þing Forsætisráðherra
Fáni Grænlands Grænland (Kalaallit Nunaat) 56.370 2.166.086 Nuuk Inatsisartut Múte Bourup Egede
Fáni Færeyja Færeyjar (Føroyar) 49.709 1.399 Tórshavn Løgting Aksel V. Johannesen

Efnahagslíf[breyta | breyta frumkóða]

Lego-kubbar eru framleiddir af The Lego Group með höfuðstöðvar í Billund.

Danmörk býr við þróað blandað hagkerfi og telst vera hátekjuland samkvæmt Heimsbankanum.[1] Árið 2017 var Danmörk í 16. sæti á lista yfir lönd eftir þjóðartekjum á mann kaupmáttarjafnað og í 10. sæti að nafnvirði.[2] Danmörk er með hæstu löndum á vísitölu um viðskiptafrelsi.[3][4] Hagkerfi Danmerkur er það 10. samkeppnishæfasta í heimi og það 6. samkeppnishæfasta í Evrópu, samkvæmt World Economic Forum árið 2018.[5]

Danmörk er með fjórða hæsta hlutfall háskólamenntaðra í heimi.[6] Landið situr í efsta sæti hvað varðar réttindi verkafólks.[7] Landsframleiðsla á vinnustund var sú 13. hæsta í heimi árið 2009. Tekjuójöfnuður í Danmörku er nálægt meðaltali OECD-ríkja,[8][9] en eftir skatta og opinbera styrki er hann umtalsvert lægri. Samkvæmt Eurostat er Gini-stuðull Danmerkur sá 7. lægsti í Evrópu árið 2017.[10] Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru lágmarkslaun í Danmörku þau hæstu í heimi.[11] Í Danmörku eru engin lög um lágmarkslaun, þannig að þetta stafar af öflugum verkalýðsfélögum. Sem dæmi má nefna að vegna samninga verkalýðsfélagsins Fagligt Fælles Forbund og atvinnurekendasamtakanna Horesta, hefur starfsfólk hjá McDonald's og öðrum skyndibitakeðjum í Danmörku 20 dollara á tímann, yfir helmingi meira en starfsfélagar þeirra fá í Bandaríkjunum, auk þess að fá greidd sumarfrí, foreldraorlof og lífeyri.[12] Aðild að verkalýðsfélögum í Danmörku var 68% árið 2015.[13]

Danmörk á hlutfallslega mikið ræktanlegt land og efnahagur landsins byggðist áður fyrr aðallega á landbúnaði. Frá 1945 hafa iðnaður og þjónusta vaxið hratt. Árið 2017 stóð þjónustugeirinn undir 75% af vergri landsframleiðslu, framleiðsluiðnaður var um 15% og landbúnaður innan við 2%.[14] Helstu iðngreinar eru framleiðsla á vindhverflum, lyfjaframleiðsla, framleiðsla á lækningatækjum, vélar og flutningstæki, matvælavinnsla og byggingariðnaður.[15] Um 60% af útflutningsverðmæti er vegna útflutningsvara, en 40% er vegna þjónustuútflutnings, aðallega skipaflutninga. Helstu útflutningsvörur Danmerkur eru vindhverflar, lyf, vélar og tæki, kjöt og kjötvörur, mjólkurvörur, fiskur, húsgögn og aðrar hönnunarvörur.[15] Danmörk flytur meira út en inn af mat og orku og hefur í mörg ár búið við jákvæðan greiðslujöfnuð þannig að landið á meira útistandandi en það skuldar. Þann 1. júlí 2018 jafngilti staða erlendra eigna 64,6% af vergri landsframleiðslu.[16]

Danmörk er stór framleiðandi og útflytjandi svínakjöts.

Danmörk er hluti af innri markaði Evrópusambandsins með 508 milljón neytendur. Viðskiptalöggjöfin er að hluta bundin samningum milli aðila sambandsins og löggjöf þess. Danskur almenningur styður almennt frjáls viðskipti; í könnun frá 2016 sögðust 57% svarenda telja að hnattvæðing væri tækifæri, meðan 18% litu á hana sem ógnun.[17] 70% af viðskiptum landsins eru innan Evrópusambandsins. Stærstu viðskiptalönd Danmerkur árið 2017 voru Þýskaland, Svíþjóð, Bretland og Bandaríkin.[18]

Dönsk króna (DKK) er gjaldmiðill í Danmörku. Hún er fest við evru á genginu 7,46 krónur á evru, í gegnum gengissamstarf Evrópu. Þrátt fyrir að Danir hafi hafnað upptöku evrunnar í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2000[19] fylgir Danmörk stefnu Efnahags- og myntbandalags Evrópu og uppfyllir kröfur fyrir upptöku evrunnar. Í maí 2018 sögðust 29% svarenda í Danmörku í könnun frá Eurobarometer vera hlynnt myntbandalaginu og evrunni, meðan 65% voru á móti því.[20]

Stærstu fyrirtæki Danmerkur miðað við veltu eru: A.P. Møller-Mærsk (skipaflutningar), Novo Nordisk (lyfjaframleiðandi), ISS A/S (eignaumsýsla), Vestas (vindmyllur), Arla Foods (mjólkurvörur), DSV (flutningar), Carlsberg Group (bjór), Salling Group (smásala), Ørsted A/S (orkufyrirtæki), Danske Bank (fjármálafyrirtæki).[21]

Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Trúarbrögð[breyta | breyta frumkóða]

Dómkirkjan í Hróarskeldu hefur verið grafkirkja dönsku konungsfjölskyldunnar frá því á 15. öld.

Yfir 72% íbúa Danmerkur eru skráðir í dönsku þjóðkirkjuna sem er lútersk-evangelísk þjóðkirkja. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda eru aðeins um 3% sem mæta reglulega í messur. Í stjórnarskrá Danmerkur er kveðið á um trúfrelsi en einn meðlimur dönsku konungsfjölskyldunnar verður að vera meðlimur þjóðkirkjunnar.

Árið 1682 fengu þrjú trúfélög leyfi til að starfa utan þjóðkirkjunnar: kaþólska kirkjan, danska fríkirkjan og gyðingar. Upphaflega var samt ólöglegt að snúast til þessara trúarbragða. Fram á 8. áratug 20. aldar fengu trúfélög opinbera viðurkenningu en síðan þá er engin þörf á slíku og hægt er að fá leyfi til að framkvæma giftingar og aðrar athafnir án formlegrar viðurkenningar.

Múslimar eru rétt um 3% íbúa Danmerkur og eru fjölmennasti minnihlutatrúarhópur landsins. Árið 2009 voru nítján trúfélög múslima skráð í Danmörku. Samkvæmt tölum danska utanríkisráðuneytisins eru íbúar sem hafa önnur trúarbrögð um 2% íbúa landsins.

Menning[breyta | breyta frumkóða]

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Niels Kristian Iversen keppir í speedway

Danir hafa náð langt á alþjóðavísu í fjölda íþróttagreina. Knattspyrna er langvinsælasta íþróttin í Danmörku og er danska úrvalsdeildin efsta deildin.[22] Þekktustu knattspyrnumenn Danmerkur eru Allan Simonsen, Peter Schmeichel og Michael Laudrup. Handbolti hefur vaxið að vinsældum síðustu áratugi og danska karlalandsliðið í handknattleik hefur unnið flest verðlaun allra liða í Evrópumóti karla í handbolta. Danska kvennalandsliðið í handknattleik hefur sigrað Evrópumót kvenna í handbolta þrisvar og unnið alls til fimm verðlauna.

Vatnaíþróttir eins og kappsiglingar, kappróður, kanó- og kajakróður, sund og stangveiði eru vinsælar íþróttagreinar í Danmörku. Paul Elvstrøm vann gullverðlaun í siglingum á fjórum Ólympíuleikum í röð. Danmörk er mikið hjólreiðaland og danski hjólreiðamaðurinn Bjarne Riis sigraði Tour de France árið 1996. Golf, tennis, badminton og íshokkí eru líka vinsælar greinar. Lene Køppen og Camilla Martin urðu heimsmeistarar í badminton 1977 og 1999. Danir hafa náð langt í speedway-mótorhjólakappakstri og unnið Speedway-heimsbikarinn nokkrum sinnum.

Á ólympíuleikunum í London 2012 unnu Danir til gullverðlauna í kappróðri og hjólreiðum karla og silfurverðlaun í siglingum, skotfimi karla, kappróðri kvenna og badminton karla.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Country and Lending Groups. Geymt 2 júlí 2014 í Wayback Machine Heimsbankinn. Skoðað 14. mars 2016.
  2. „Gross national income per capita 2017, Atlas method and PPP. World Development Indicators database, World Bank, 21 September 2018. Retrieved 6 December 2018“ (PDF). Afrit (PDF) af uppruna á 12. september 2014. Sótt 6. desember 2018.
  3. "Country Ratings" Geymt 16 september 2017 í Wayback Machine, 2012 Index of Economic Freedom. Sótt 12. janúar 2012.
  4. „Economic Freedom of the World: 2011 Annual Report Complete Publication (2.7 MB)“ (PDF). freetheworld.com. Fraser Institute. 2011. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 26. september 2011. Sótt 20. september 2011.
  5. „Global Competitiveness Report 2018“. World Economic Forum. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. desember 2018. Sótt 6. desember 2018.
  6. UNESCO 2009 Global Education Digest Geymt 28 nóvember 2011 í Wayback Machine, deilir 4. sæti með Finnlandi með hlutfallið 30,3%. Graf á s 28, tafla á s 194.
  7. Kevin Short (28 May 2014). The Worst Places On The Planet To Be A Worker Geymt 28 maí 2014 í Wayback Machine. The Huffington Post. Sótt 28. maí 2014.
  8. Joumard, Isabelle; Pisu, Mauro; Bloch, Debbie (2012). „Tackling income inequality. The role of taxes and transfers“ (PDF). OECD. Afrit (PDF) af uppruna á 28. desember 2014. Sótt 10. febrúar 2015.
  9. Neamtu, Ioana; Westergaard-Nielsen, Niels (mars 2013). „Sources and impact of rising inequality in Denmark“ (PDF). Afrit (PDF) af uppruna á 11. febrúar 2015. Sótt 10. febrúar 2015.
  10. „Gini coefficient of equivalised disposable income – EU-SILC survey. Eurostat, last data update 20 November 2018, retrieved 6 December 2018“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. október 2014. Sótt 6. desember 2018.
  11. „World Economic Outlook Database, October 2010 Edition“. IMF. 6. október 2010. Afrit af uppruna á 22. febrúar 2011. Sótt 5. júlí 2012.
  12. Liz Alderman and Steven Greenhouse (27 October 2014). Living Wages, Rarity for U.S. Fast-Food Workers, Served Up in Denmark Geymt 28 október 2014 í Wayback Machine. The New York Times. Retrieved 28 October 2014.
  13. Sjá Anders Kjellberg og Christian Lyhne Ibsen "Attacks on union organizing: Reversible and irreversible changes to the Ghent-systems in Sweden and Denmark" Geymt 9 mars 2017 í Wayback Machine in Trine Pernille Larsen and Anna Ilsøe (eds.)(2016) Den Danske Model set udefra (The Danish Model Inside Out) – komparative perspektiver på dansk arbejdsmarkedsregulering, Copenhagen: Jurist- og Økonomforbundets Forlag (pp.292)
  14. „StatBank Denmark, Table NABP10: 1-2.1.1 Production and generation of income (10a3-grouping) by transaction, industry and price unit. Retrieved on December 6, 2018“. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. nóvember 2018. Sótt 6. desember 2018.
  15. 15,0 15,1 „Denmark“. The World Factbook. CIA. 3. desember 2018. Sótt 18. desember 2018.
  16. „Eurostat: Net international investment position – quarterly data, % of GDP. Last update 24 October 2018, retrieved December 6 2018“. Afrit af uppruna á 26. nóvember 2018. Sótt 6. desember 2018.
  17. Danskerne og LO elsker globalisering. Newspaper article 17 November 2016 on finans.dk. Retrieved 6 December 2018. Geymt 6 desember 2018 í Wayback Machine
  18. „Denmark“. The World Factbook. CIA. 19. janúar 2012. Sótt 4. febrúar 2012.
  19. „Denmark and the euro“. Danmarks Nationalbank. 17. nóvember 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. nóvember 2006. Sótt 3. febrúar 2007.
  20. „Standard Eurobarometer 89, Spring 2018. The key indicators. Publication date June 2018. Retrieved 18 December 2018“. Afrit af uppruna á 26. desember 2018. Sótt 18. desember 2018.
  21. „The largest companies by turnover in Denmark“. largestcompanies.com. Nordic Netproducts AB. Afrit af uppruna á 6. nóvember 2018. Sótt 18. desember 2018.
  22. Body, culture and sport Geymt 16 nóvember 2011 í Wayback Machine (2003) Utanríkisráðuneyti Danmerkur

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]