Knútur ríki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Knútur mikli)
Knútur mikli

Knútur ríki (danska: Knud den Store; fornenska: Cnut se Micela; norræna: Knútr inn ríki; enska: Cnut the Great; um 99512. nóvember 1035) var sonur Sveins tjúguskeggs, konungur Danmerkur frá 1018 til 1035, konungur Englands frá 1016 til 1035 og konungur Noregs frá 1028 til 1035. Móðir Knúts var Gunnhildur af Póllandi, fyrri kona Sveins.

Knútur fór í herferð til Englands með föður sínum árið 1013 og þar lést Sveinn árið eftir. Her Dana valdi Knút konung Englands en eldri bróðir hans, Haraldur 2., var tekinn til konungs í Danmörku. Enska ríkisráðið, sem hafði kjörið Svein konung eftir sigra hans árið áður, sætti sig ekki við Knút og kallaði þess í stað Aðalráð ráðlausa, fyrrverandi Englandskonung, heim úr útlegð. Knútur neyddist til að flýja til Danmerkur. Árið 1015 sneri hann þó aftur með fjölmennt lið. Hann var hylltur konungur í nokkrum héröðum. Aðalráður dó vorið 1016 en sonur hans, Játmundur járnsíða, gerði kröfu til valda. Þeir Játmundur og Knútur áttu í átökum um skeið en í október 1016 sömdu þeir um að skipta landinu og fékk Knútur allt land fyrir norðan ána Thames. Játmundur lést þó mánuði síðar og í janúar 1017 var Knútur tekinn til konungs yfir öllu Englandi. Hann gekk að eiga Emmu, ekkju Aðalráðs.

Haraldur bróðir Knúts dó 1018 og hann sneri þá heim og var krýndur konungur Danmerkur. Árið 1028 lagði hann Noreg undir sig og setti barnungan son sinn, Svein, og móður hans, frilluna Alfífu, til að stýra ríkinu. Norðmenn gerðu þó uppreisn strax eftir lát Knúts, hröktu þau úr landi og fengu sjálfstæði að nýju.

Alþekkt er sagan af Knúti þegar hann á að hafa sest í flæðarmálið og bannað öldunum að skola fætur sína og er hún oft túlkuð sem dæmi um mikilmennskubrjálæði eða jafnvel geðsýki konungs en önnur túlkun er að hann hafi viljað sýna þegnum sínum að enginn væri almáttugur nema Guð og ekki einu sinni hinn voldugasti konungur hefði hið minnsta yfir náttúruöflunum að segja.

Börn Knúts og Emmu voru Hörða-Knútur og Gunnhildur, sem giftist þýska keisaranum Hinrik 3. Með Alfífu frillu sinni átti Knútur synina Svein Alfífuson og Harald hérafót.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Játmundur járnsíða
Konungur Englands
(1016 – 1035)
Eftirmaður:
Haraldur hérafótur
Fyrirrennari:
Haraldur II
Konungur Danmerkur
(1018 – 1035)
Eftirmaður:
Hörða-Knútur
Fyrirrennari:
Ólafur digri
Konungur Noregs
(1028 – 1035)
Eftirmaður:
Magnús góði