Hansasambandið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Koparstunga frá 15. öld sem sýnir Hansakugg.

Hansasambandið var bandalag verslunarborga, aðallega í Norður-Þýskalandi, sem tókst að koma á einokun á verslun á Eystrasalti og um alla Norður-Evrópu. Það hlaut nafn sitt af þýska orðinu Hanse sem merkir hópur eða félag. Hansasambandið varð til á 13. öld í kringum hina öflugu verslunarborg Lýbiku (Lübeck) sem hagnaðist á verslun með salt og silfur. Lýbika var auk þess útskipunarhöfn fyrir Hamborg. Milli borganna var árið 1398 grafinn elsti skipaskurður í Evrópu; Stecknitzskurðurinn milli ánna Trave og Saxelfar.

Hansasambandið var bandalag kaupmanna í verslunargildum borganna og þeir héldu árlega fundi, Hansadaga, oftast í Lýbiku, en sambandið rak líka stóra vörulagera og skrifstofur í London, Brügge, Björgvin og Hólmgarði. Á fundum voru teknar ákvarðanir út frá sameiginlegum hagsmunum félagsmanna. Með því að beita borgir viðskiptaþvingunum tókst sambandinu að ná fram vilja sínum gagnvart yfirvöldum á hverjum stað, en flota sambandsins var líka hægt að breyta í öflugan herflota ef á þurfti að halda. Hansakaupmenn versluðu einnig við Íslendinga á tímabili, sem kallað hefur verið Þýska öldin.

Skipin sem Hansakaupmenn notuðu til vöruflutningar á Eystrasalti og í Norðursjó voru svokallaðir Hansakuggar, sem voru afkomendur knarrarins sem norrænir menn notuðu við landkönnun og verslun. Hansakuggurinn hafði mikið lestarrými og var vel búinn til að verjast sjóræningjum.

Kort sem sýnir verslunarleiðina sem Hansasambandið réði yfir.

Hansakaupmenn náðu undir sig allri verslun með vörur frá Eystrasalti, þar með töldu verðmætu rafi og skinnum. Það varð því forgangsmál fyrir ung konungsríki Norðurlanda að ganga milli bols og höfuðs á sambandinu. Sérstaklega reyndu Danakonungar að berjast gegn sambandinu, en höfðu lítinn árangur sem erfiði fyrr en leið á 16. öld.

Um 1400 hófu hollenskir og enskir kaupmenn að sigla norður fyrir Jótland um Eyrarsund inn á Eystrasalt. Við þetta missti Hansasambandið einokunarstöðu sína. Með aðgerðum eins og Eyrarsundstollinum 1429 og verslunareinokun 1602, tókst Danakonungum smám saman að veikja stöðu sambandsins. Síðasti Hansadagurinn var haldinn 1669 af þeim borgum sem eftir voru í sambandinu; Lýbiku, Hamborg, Brimum, Danzig (Gdansk), Rostock, Brúnsvík, Hildesheim, Osnabrück og Köln. Eftir það var sambandið ekki til í reynd.

Hansestadt[breyta | breyta frumkóða]

Nokkrar þýskar borgir notast ennþá við einkunnina „Hansestadt“ eða „Freie Hansestadt“ í nafni sínu með tilvísun til þessarar fortíðar. Þetta eru borgirnar Brimar, Greifswald, Lýbika, Rostock, Stralsund og Wismar.

Meðlimir í Hansasambandinu[breyta | breyta frumkóða]

Vindland og Pommern[breyta | breyta frumkóða]

Saxland, Thüringen, Brandenburg[breyta | breyta frumkóða]

Pólland, Prússland, Lífland, Svíþjóð[breyta | breyta frumkóða]

Rín, Vestfalía, Niðurlönd[breyta | breyta frumkóða]

Hansakontórar[breyta | breyta frumkóða]

Höfuðkontórar[breyta | breyta frumkóða]

Aukakontórar[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]