Álaborg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Álaborg
Álaborg er staðsett í Danmörk
Álaborg

57°3′N 9°55′A / 57.050°N 9.917°A / 57.050; 9.917

Land Danmörk
Íbúafjöldi 115.908 (2019)
Flatarmál 50,2 km²
Póstnúmer 9000, 9200, 9210, 9220
Vefsíða sveitarfélagsins https://www.aalborg.dk/
Álaborg úr loftinu.

Álaborg (danska: Aalborg) er fjórða stærsta borgin í Danmörku (á eftir Kaupmannahöfn, Árósum og Óðinsvéum) með rúmlega 115.908 íbúa (2019). Hún stendur við Limafjörð á Norður-Jótlandi og var mikilvæg hafnarborg á miðöldum og síðar iðnaðarborg. Elsta landnám nær aftur til ársins 700. Staðsetning borgarinnar við Limafjörðinn gerði hana afar mikilvæga hafnarborg á miðöldum og iðnaðarborg þar á eftir. Í dag er borgin í miklum umbreytingum í að fara frá iðnaðarborg yfir í þekkingarborg. Einn af aðal drifkröftum þessarra breytinga er Álaborgarháskóli, sem var stofnaður árið 1974 og hefur notið vaxandi vinsælda ár frá ári.

Saga

Álaborg á rætur sínar að rekja aftur um 1000 ár. Borgin var upprunalega nýtt sem verslunarstaður, vegna staðsetningar hennar við Limafjörðinn. Á miðöldunum blómstraði Álaborg og varð ein af stærstu borgum danmerkur. Velmegunin jókst enn fremur árið 1516, þegar Álaborg var veitt einkasala á síld. Síldarveiðarnar tengdu Álaborg við Austur strönd Englands, í gegnum Norðursjó, í menningarskiptum og samkeppni í verslun.

Álaborg hlaut bæjarréttindi árið 1342 og nær biskupsdæmið aftur til ársins 1554.

Álaborgar háskóli var stofnaður árið 1974.

Iðnaður

Í dag er Álaborg enn þá þekkt fyrir mikin iðnað og viðskipti. Álaborg er þekkt fyrir sements framleiðslu sína sem fer fram í verksmiðjum Aalborg Portland. Framleiðsla á áfenginu Álaborgar ákavíti fer fram í Álaborg en áfengi drykkurinn telur 17 mismunandi tegundir.

Karneval

Hið árlega karneval í Álaborg fer venjulega fram síðustu helgina í maí. Karnevalinu er skipt upp í þrjá hluta, barna karneval, hljómsveitar karneval og svo karnevalið sjálft.

Um það bil 100,000 manns heimsækja Álaborg meðan á karnevalinu stendur. Barna karnevalið er tileinkað börnum með skemmtunum og fleira tilheyrandi. Á föstudeginum keppast hljómsveitir á sviði um það hvaða hljómsveit mun verða aðal hljómsveit karnevalsins yfir helgina. Á laugardeginum fer karnevalið sjálft fram og á þeim degi iðar miðbærinn af mannfólki. Venjulega er ákveðið þema á hverju ári og mæta gestir á karnevalið í búningum samkvæmt völdu þema. Árið 2007 voru grímubúningar þema hátíðarinnar en árið áður var erótískt þema. Karnevalinu lýkur á laugardagskvöldi með tilheyrandi flugeldasýningu.

Tivoli Karolinelund

Tivoli Karolinelund í Álaborg.

Karolinelund er skemmtigarður nálægt miðbæ Álaborgar. Skemmtigarðurinn er staðsettur á svæði sem áður var æfingarsvæði hermanna.

Frá 1946 hefur Karolinelund verið í eigu Lind fjölskyldunnar. Fyrst bræðrunum Volmer og Carl Lind, sem stofnuðu skemmtigarðinn og síðar Franck Bo Lind, sem seldi skemmtigarðinn til Torben Pedersen, en hann á fleiri skemmtigarði norðan við kaupmannahöfn.

Garðurinn var seldur fljótlega til bæjarfélag Álaborgar og í dag er skemmtigarðurinn auglýstur sem tómstundagarður fyrir borgara og ferðamenn, ásamt að bjóða upp á matsölustaði, afþreyingu og skemmtitæki.

Í árabil bar skemmtigarðurinn nafnið Tivoliland og var markaðssett sem yndislegasta svæði í danmörku. Þó hefur nafnið Karolinelund fest sig við svæðið og þegar Torben Pedersen keypti garðinn árið 2005, breytti hann nafninu í Tivoli Karolinelund. Í dag heitir svæðið þó einungis Karolinelund.

Upphaflega stafaðist Karolinelund með C. Carolinelund er nefnt eftir prinsessu Caroline (1793 - 1881), dóttir Friðriks 6. og Marie frá Hessen. Caroline prinsessa giftist Ferdinand krónprins árið 1829. Hún var mjög vinsæl og mikil virðing var borin fyrir henni innan dönsku herdeildarinnar. Árið 1824 færði bæjarstjórn Álaborgar yfirmönnum hersins svæðið að gjöf, sem útivistarsvæði fyrir þá og fjölskyldur þeirra. Með árunum þróaðist þó útivistarsvæðið í vinsælan áfangastað fyrir alla bæjarbúa og frá árinu 1946 hefur garðurinn verið skemmtigarður.

Jomfru Ane Gade

Jomfru Ane Gade.

Jomfru Ane Gade, einnig oft kölluð Gaden, er ein þekktasta og vinsælasta gata Álaborgar. Gatan er 150 metra löng og er í miðbæ Álaborgar. Við hana standa skemmti- og veitingastaðir sem liggja hlið við hlið út alla götuna. Um helgar iðar gatan af lífi og er vinsæll áfangastaður fólks sem er úti á lífinu.

Skemmtistaðirnir í götunni eru þekktir fyrir að spila mismunandi tónlist innandyra, allt frá tónlist sjötta áratugarins til nútíma danstónlist.

Mikil gæsla er við götuna og hefur verið aukið verulega við eftirlit eftir að 21 árs gamall maður var stunginn til bana í klíku-uppgjöri milli innflytjenda um páskana 2007. Sama kvöld hlutu 5 aðrir stungusár

Á daginn er Jomfru Ane Gade veitingastaða- og kaffihúsagata, en á kvöldin opna klúbbar og barir sem draga til sín mikið af fólki.

Gatan hefur verið kölluð Jomfru Ane Gade frá öndverðri 15. öld og er talið að gatan heiti eftir Jomfru Ane, sem var búsett í Skavegade árið 1568.

Dýragarðurinn í Álaborg

Inngangurinn í dýragarðinn í Álaborg.

Dýragarðurinn í Álaborg (danska: Aalborg Zoo) var vígður í apríl 1935 og er í dag einn af mest sóttu ferðamannastöðum í landsbyggðinni, með um 375.000 gesti árlega. Dýragarðurinn liggur nálægt miðbæ borgarinnar og hefur síðustu áratugi lagt mikla áherslu á náttúruvernd og spilar mikilvægt hlutverk í alþjóðlegum verkefnum um dýraverndun, undaneldi, þekkingarmiðlun, rannsóknir og leggur mikla áherslu á Fair Trade vörur.

Dýragarðurinn hefur að geyma yfir 1200 dýr og á ársgrundvelli starfa um 55 manns við dýragarðinn. Meðal dýra sem fyrirfinnast í dýragarðinum eru ísbirnir, gíraffar, pelíkanar, fílar, mörgæsir, ljón ásamt mörgum öðrum tegundum.

Dýragarðurinn tekur þátt í alþjóðlegum undaneldis samstarfi með verndun á dýrum í útrýmingarhættu. Síðustu ár hefur dýragarðurinn tekið þátt á ýmsum sviðum í náttúru og umhverfisverndar verkefnum. Sem dæmi má nefna að dýragarðurinn styður Payamino-Indjánana í þeirra baráttu að vernda 60.000 hektara regnskógarsvæði í Ekvador.

Dýragarðurinn er með opið allan ársins hring og stýrir einnig skemmtigarðinum Karolinelund í Álaborg.

Álaborgarturninn

Álaborgar Turninn

Álaborgarturninn (danska: Ålborg Tårnet) var byggður árið 1933 og er staðsettur í vesturhluta Álaborgar. Turninn er 55 metrar að hæð. Turninn er staðsettur í brekku sem er 50 metra há og þar af leiðandi er útsýni frá turninum um 105 metrar yfir Limafjörðinn. Álaborgarturninn er opinn frá apríl til september ár hvert og í toppi turnsins er veitingastaður með sæti fyrir 50 manns.

Tenglar