Fara í innihald

Scoresby-sund

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Scoresbysund (fjörður))
Þessi grein fjallar um fjörðinn. Fjallað er um samnefnt þorp á greininni Ittoqqortoormiit.
Við Scoresbysund.

Scoresby-sund (grænlenska: Kangertittivaq, danska: Scoresby Sund) er lengsti fjörður í heimi. Fjörðurinn nær lengst um 350 km inn í austurströnd Grænlands og greinist í mörg minni sund og firði, en aðalfjörðurinn er um 110 km langur. Dýpi í meginfirðinum er á milli 450 og 650 metrar, en getur náð allt að 1400 metrum í innfjörðunum.[1]

Við mynni fjarðarins að norðanverðu er þorpið Ittoqqortoormiit (sem nefnist Scoresbysund á dönsku, í einu orði til aðgreiningar frá firðinum sjálfum). Helsti flugvöllurinn í firðinum er Nerlerit Inaat-flugvöllur, en þangað er hægt að fljúga frá Íslandi. Fjörðurinn er að stærstum hluta í sveitarfélaginu Sermersooq, en lítill hluti hans er innan Þjóðgarðs Grænlands. Margar eyjar eru á firðinum og er Milne-land sú stærsta.

Fyrir utan Jameson-land er ekkert stórt láglendissvæði við Scoresby-sund. Landslag þar einkennist af háum fjöllum, klöppum, jöklum og skriðjöklum sem ganga í sjó fram innst í fjörðum og víkum. Í firðinum fljóta svo borgarísjakar sem hafa brotnað af skriðjöklum og rekís (lagnaðarís), bæði vetrarís og stórís (marglaga ís). Á veturna leggur fjörðinn nær alveg. Við fjarðarmynnið er fremur gróðursnautt berangur, en innar í firðinum er sum staðar gróðursælt á sumrin. Þar vex aðeins hánorrænn gróður. Dýralíf er hins vegar fjölbreytt: í sjónum eru náhvalir, rostungar og hringanórar, og á landi finnast sauðnaut og snæhérar. Ísbirnir halda sig víða við ströndina og á ísnum á veturna. Í klettum við fjarðarmynnið eru stórar byggðir haftyrðla.

Kortið sem William Scoresby gerði af firðinum 1822 til 1823.

Fjörðurinn heitir Kangertittivaq á austurgrænlensku, en vesturgrænlenska útgáfan er Kangerlussuaq. Nafnið þýðir „stóri fjörður“. Grænlenska heitið var fyrst skráð á kort árið 1955.[2]

Á flestum málum heims heitir fjörðurinn eftir enska hvalveiðimanninum William Scoresby sem fyrstur Evrópumanna rannsakaði austurhluta fjarðarins og gerði uppdrátt af honum 1822. Scoresby sagðist sjálfur hafa nefnt fjörðinn eftir föður sínum og alnafna, William Scoresby eldri, sem hann sagði að hefði fyrstur manna stýrt skipi þangað inn.[3] Hann gaf líka mörgum landslagsþáttum nöfn fólks og staða sem hann þekkti frá Bretlandi.

Íslenski fræðimaðurinn Jón Dúason taldi að fjörðurinn Öllumlengri sem nefndur er í nokkrum íslenskum miðaldaheimildum væri Scoresby-sund,[4] en líklegra þykir að nafnið eigi við um fjörð sem er mun sunnar, hugsanlega Ikerasassuaq við suðurodda Grænlands.[5] Í Grænlandslýsingu Ívars Bárðarsonar er Öllumlengri sagður vera á milli Berufjarðar í vestri og Finnsbúða í austri, en Finnsbúðir og Krosseyjar voru hugsanlega veiðistaðir við strönd Austur-Grænlands.[6]

Kort af bergtegundum við ströndina eftir Edvard Bay úr leiðangri Carl Ryder 1891/2.

Elsta berg í Scoresby-sundi er yfir 1600 milljón ára gamalt myndbreytt berg frá forkambríum. Það finnst aðallega innst í firðinum við enda Norðvesturfjarðar og Vesturfjarðar. Á ordóvisíum og sílúr (fyrir 400 til 500 milljón árum) hófst Kaledóníufellingin þar sem Japetushaf lokaðist, Atlantshafið varð til og jarðflekarnir Avalónía, Baltíka og Lárentía rákust saman og fjöll mynduðust á mörkunum. Frá þessum tíma eru neðstu lög stóru fjallgarðanna vestan megin í firðinum frá Gæsafirði að Stauning-ölpum. Veðrun þessara fjalla bjó til járnrík hematítlög í Rauðafirði og norðan við Jameson-land frá devontímabilinu. Frá því fyrir 250 milljón árum tóku setlög að myndast í grunnum sjó þar sem nú er Jameson-land. Setmyndun stóð nær alla miðlífsöld fram á síðkrítartímabilið fyrir um 65 milljón árum. Sams konar setlög finnast við suðausturhorn Milne-lands. Fyrir 50 til 60 milljón árum hófst svo mikil eldvirkni sunnarlega í Scoresby-sundi og basaltlögin þar tóku að myndast við eldgos. Gígarnir eru nú algerlega huldir hraunlögum. Fyrir um 30 milljón árum mynduðust Werner-fjöll norðan við Jameson-land í eldgosum.

Jökull tók fyrst að þekja þetta svæði fyrir um 5 milljón árum en hörfaði aftur fyrir 4,5 milljón árum. Hann lagðist svo aftur yfir landið fyrir 2,6 milljón árum. Síðustu 2 milljón ár hafa svo einkennst af reglubundnu hopi og framsókn jökla sem hafa sorfið landslagið. Núverandi jökulskeið hefur staðið í um 8000 ár, en fyrir þann tíma var Scoresby-sund laust við jökla í 2000 ár.

Forneskimóar

[breyta | breyta frumkóða]

Í Scoresby-sundi hafa fundist yfir 200 staðir með ummerki um mannabyggðir frá því fyrir miðja 19. öld, bæði tjaldbúðir og torfhús. Elstu minjar sem hafa verið tímasettar með kolefnisgreiningu gætu verið frá upphafi 14. aldar.[7] Ekki er vitað hvenær menn settust fyrst að á svæðinu, en talið er að menn hafi flust þangað norðan að. Eina dæmið um fund Evrópumanna og Inúíta á svæðinu er þegar breski landkönnuðurinn Douglas Charles Clavering hitti tólf Inúíta á eyjunni sem nú ber nafn hans árið 1823. Til eru munnmælasögur frá Ammassalik sem segja frá fólksflutningum norðan að um miðja 19. öld.[7] Við Scoresby-sund hafa fundist svokölluð „dauðahús“ þar sem fólk hefur dáið inni í húsinu með öllum sínum eigum.

Hvalveiðimenn

[breyta | breyta frumkóða]
Lýsingar á náhval og grænlandshákarli úr bók Scoresbys.

Eftir að Henry Hudson sigldi til Svalbarða og sagði frá miklum hvalavöðum þar og við strönd Austur-Grænlands hófust reglulegar ferðir hvalveiðiskipa á Norðurslóðir. Fljótlega tók hval að fækka við Svalbarða svo hvalveiðiskipin sóttu nær Grænlandi, en reyndu ekki að sigla inn fyrir ísinn við ströndina. Árið 1761 hrakti skip Volquart Boon inn í stóran fjörð sem er talinn hafa verið Scoresby-sund.[8]

Scoresby-feðgar könnuðu ströndina við Scoresby-sund með flota hvalveiðiskipa milli 1817 og 1823 og William Scoresby yngri gerði fyrsta nákvæma kortið af austurhluta fjarðarins. Hann fór í land á ýmsum stöðum og rannsakaði jarðfræði, gróður og dýralíf. Árið 1833 hélt Jules de Blosseville til Íslands þar sem skip hans, La Lilloise, átti að aðstoða frönsk hvalveiðiskip við Ísland og Grænland. Í ágúst hvarf skip hans með 80 mönnum einhvers staðar við strönd Grænlands að talið er.

Um miðja 19. öld tóku norskir selveiðimenn að stunda veiðar við strendur Austur-Grænlands. Eitt ár var veiði þeirra skráð 400.000 dýr. Eftir því sem selnum fækkaði leituðu þeir meira í land til að veiða rostunga og ísbirni.

Könnunarsaga

[breyta | breyta frumkóða]
Minnismerki um Charcot í Ittoqortoormiit.

Fyrsti skipulegi könnunarleiðangurinn til Scoresby-sunds var Hekluleiðangurinn til Austur-Grænlands undir stjórn danska sjóliðsforingjans Carl Ryder á norska hvalveiðiskipinu Heklu. Ryder og menn hans settust að yfir veturinn í Hekluhöfn á Danmerkurey og kortlögðu fyrstir manna innri firðina í Scoresby-sundi, í kringum Milne-land. Næsti leiðangur var sænskur könnunarleiðangur undir stjórn Alfred Gabriel Nathorst í leit að Loftbelgsleiðangri Andrées árið 1899. Nathorst kortlagði Hurry-fjörð og firðina norðan við Scoresby-sund þar sem nú er syðsti hluti þjóðgarðsins á skipinu Antarctic.

Árið eftir kom Carlsbergfonden-leiðangurinn til Austur-Grænlands undir stjórn Georg Carl Amdrup sem hafði verið tvö ár í Ammassalik. Hann sigldi með skipinu Antarctic að Dalton-höfða og fór þaðan á opnum báti suður með Blosseville-strönd með hluta leiðangursins. Annar hluti sigldi skipinu inn Scoresby-sund undir stjórn Nikolaj Hartz.

Á milli 1925 og 1936 heimsótti Jean-Baptiste Charcot Scoresby-sund oft á ferðum sínum til Austur-Grænlands með skipinu Pourquoi-Pas ?. Árið 1931 reistu Frakkar heimskautarannsóknarstöð í Ittoqortoormiit sem þeir afhentu byggðinni tveimur árum síðar. Árið 1926 hófst fyrsti leiðangur danska jarðfræðingsins Lauge Koch til Scoresby-sunds, en hann rannsakaði fjörðinn í þremur leiðöngrum næstu ár, til 1939. Hann notaði íslenska hesta til að kanna Jameson-land 1936-7. Margir af þessum síðari leiðöngrum notuðu Ittoqortoormiit sem bækistöð.

Undir lok 4. áratugarins lenti Lauge Koch í átökum við aðra jarðfræðinga í Danmörku. Þeir höfðu gagnrýnt ónákvæmni í Grænlandsbók sem hann hafði gefið út í ritsafninu Geologie der Erde árið 1935. Hann kærði þá í kjölfarið fyrir meiðyrði. Eftir þetta varð kalt stríð milli Koch og Kaupmannahafnarháskóla og Danska jarðfræðisafnsins og hann kaus að vinna aðeins með jarðfræðingum frá öðrum löndum í vettvangsrannsóknum á Grænlandi. Helsti samstarfsmaður hans var svissneski jarðfræðingurinn John Haller. Í síðasta leiðangrinum til Scoresby-sunds árið 1958 bauð hann íslenska grasafræðingnum Eyþóri Einarssyni með.[9] Eftir þennan leiðangur ákvað ráðuneytið í Danmörku að skera á fjármagn til frekari rannsókna hans á Grænlandi.[10]

Nýlendustofnun

[breyta | breyta frumkóða]
Áhöfnin á s/s Grønland sem flutti leiðangur Ejnar Mikkelsen til Scoresby-sunds sumarið 1924.
Kirkjan í Ittoqqortoormiit.

Á fundi hjá Grænlandsfélaginu í Kaupmannahöfn árið 1918 stakk danski assistentinn Harald Olrik upp á því að stofna byggð í Scoresby-sundi með selveiðimönnum frá Ammassalik. Aðalástæðan var offjölgun fólks á Ammassalik-svæðinu, að hans mati, og skortur á veiðidýrum. Í Scoresby-sundi væri aftur gnægð veiði og auk þess minjar um eldri byggðir inúíta á svæðinu. Carl Ryder tók undir þessa tillögu og árið 1924 sigldi Ejnar Mikkelsen með byggingarefni til að reisa hús þar sem Ittoqortoormiit er nú. Árið eftir fluttust 85 Grænlendingar þangað og urðu kjarninn í nýlendunni. 70 þeirra komu frá Ammassalik og 15 frá Vestur-Grænlandi. Þau stoppuðu á Ísafirði á leiðinni með skipinu Gustav Holm og vöktu mikla athygli.[11] Mikkelsen stóð fyrir stofnun fleiri nýlenda við Scoresby-sund næstu ár. Þær stærstu, fyrir utan Ittoqortoormiit, voru við Stewart-höfða, Hope-höfða og Tobin-höfða syðst á Liverpool-landi, en þær hafa verið yfirgefnar síðan. Mikkelsen vildi dreifa byggðinni til að tryggja aðgang að veiði og valdi staðina út frá minjum um eldri inúítabyggðir.[12] Aðalbyggðin var í Ittoqqortoormiit, en nokkrir tugir settust að í hinum byggðunum, enda nær veiðistöðum á vetrartíma. Hvati að þessum nýlendustofnunum var líka aukinn ásókn Norðmanna í að fá viðurkenndan rétt sinn til veiða norðan við Scoresby-sund, í kringum Myggbukta. Þeir gerðu nokkrum árum síðar formlegt tilkall til þess sem þeir kölluðu Land Eiríks rauða á þeim forsendum að landið væri óbyggt, eða terra nullius. Ólíkt flestum öðrum nágrannaþjóðum höfðu Norðmenn ekki reynst tilbúnir til að taka undir full yfirráð Dana yfir öllu Grænlandi, líkt og þeir höfðu sóst eftir frá lokum fyrri heimsstyrjaldar.

Fyrst eftir stofnun Ittoqqotoormiit kom upp inflúensufaraldur og 4 íbúanna létust. Loforð um mikla veiði reyndust þó rétt. Árið 1929 var reist vegleg kirkja í þorpinu sem stendur þar enn. Eftir síðari heimsstyrjöld tók að setjast þar að fólk frá öðrum löndum, meðal annars starfsfólk veðurstöðvarinnar á Tobin-höfða. Flestir íbúar tala austurgrænlensku sem hefur samt þróast frá mállýskunni sem notuð er í Ammassalik. Veiðar eru enn mikilvægar til viðurværis, en hafa farið minnkandi síðustu áratugi vegna takmarkana á útflutningi afurða eins og selskinns. Byggðin var lengi mjög einangruð, en minnkandi ís síðustu áratugi hefur leitt til fjölgunar skipakoma. Sala flugvallarins á Constable Point árið 1990 hefur líka leitt til aukningar ferðamanna. Árið 1998 var ferðaþjónustufyrirtækið Nanu Travel stofnað þar af íslenskum aðilum, en er nú í eigu innfæddra.[13] Íbúar urðu flestir tæp 550 árið 2006, en eru nú innan við 370. Atvinnuleysi í þorpinu er milli 20 og 30%.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Basaltfjöll á suðurströnd Gæsafjarðar.
Jakakirkjugarður í Rauðafirði.

Mynni Scoresby-sunds markast af Brewster-höfða í suðri og Tobin-höfða í norðri. Ysti hluti fjarðarins er um það bil 30 km á breidd. Suðurströndin nefnist Volquart Boon-strönd, en norðan við fjörðinn eru Jameson-land og Liverpool-land. Á milli þeirra liggur Hurry-fjörður í norðurátt.

Við Milne-land snýr meginfjörðurinn í vestur. Í norðurátt opnast stór flói sem nefnist Hall-vík. Við suðurströndina gengur Breiðijökull út í Víkingavík. Sunnan við Milne-land, við Gæsaland, greinist fjörðurinn í Gæsafjörð í vestsuðvestur og Fönfjörð í vestur. Rétt sunnan við Milne-land þar sem Fönfjörður hefst er Danmerkurey með Hekluhöfn.

Vestan við Milne-land greinist Fönfjörður í Vesturfjörð og Rauðafjörð sem liggur norður með vesturströnd Milne-lands, að Stórey. Rólegi jökull skríður út í Rauðafjörð rétt norðan við mynni Vesturfjarðar. Þaðan koma stórir ísjakar sem stranda á grynningum við Rauðey og Milne-land og mynda „jakakirkjugarð“. Í norðurenda Rauðafjarðar stingast tveir stuttir firðir, Hérafjörður og Rjúpufjörður, vestur og norður úr firðinum. Þar sem fjörðurinn heldur áfram norðan við Milne-land nefnist hann Eyfjörður, en norðan við hann er Hreinland, sem er skagi út af Hinks-landi. Við mynni Eyfjarðar, þar sem hann mætir Hall-vík, eru Bjarnareyjar.

Austan við Bjarnareyjar á norðausturströnd Scoresby-sunds eru Suðurhöfði, Norðausturvík og Schuchert-dalur þar inn af. Norðan við Bjarnareyjar liggur Norðvesturfjörður í norðvestur. Þetta er langur, mjór og djúpur fjörður, um 150 km að lengd.[1] Inn af Norðvesturfirði miðjum gengur styttri fjörður, Flugmannsfjörður, sem enginn skriðjökull gengur út í, en er samt fullur af ísjökum sem rekur þangað. Landið norðan við Norðvesturfjörð heitir Scoresby-land.

Túndrugróður og hauskúpa af sauðnauti á Suðurhöfða í lok ágúst 2007.

Við mynni Scoresby-sunds er Scoresby-vökin, stórt vistsvæði sem er oftast íslaust árið um kring og mikilvægur hluti af búsvæði spendýra og fugla í hafinu og allt í kring. Scoresby-vökin helst opin vegna Austur-Grænlandsstraumsins sem gengur að hluta inn í fjörðinn og myndar hringstraum í fjarðarmynninu.

Í Scoresby-sundi er að finna varpstaði lóms, rjúpu, helsingja, margæsa, heiðagæsa og snjógæsa. Þar finnast líka æðarfugl og hávella. Ísmáfur, rita og kría finnst þar í nokkru magni. Við mynni fjarðarins eru mikilvægar varpstöðvar haftyrðils.[14] Snæugla, hrafn og fálki sjást í firðinum. Af sjávarspendýrum eru ísbjörn, vöðuselur og hringanóri algengir í Scoresby-sundi, en auk þeirra sjást þar kampselur og rostungur. Náhvalur og mjaldur ganga inn í fjörðinn.

Sauðnaut og tófu er að finna við Scoresby-sund, en hreindýr sem áður héldu þar til og heimskautaúlfur sem lifði á þeim, eru líklega horfin þaðan vegna veiða. Grænlandslæmingi (Dicrostonyx groenlandicus) fjölgar sér mikið viss ár og er helsta fæða hreysikattar. Heimskautahéri lifir líka við Scoresby-sund.

Ein tegund af moskítóflugu, Aedes nigripes, lifir við Scoresby-sund og veldur bæði dýrum og mönnum óþægindum þegar mest er af henni í ágúst-september.[15]

Ísþorskur er helsta fæða náhvala í Scoresby-sundi. Bleikja gengur í miklu magni upp ferskvatnsár sem renna í fjörðinn.

Í Scoresby-sundi ríkir heimskautaloftslag sem er kalt og þurrt með löngum frostavetri og stuttu svölu sumri. Oftast er ríkjandi hæð yfir Scoresby-sundi, en inn á milli koma stormar með miklum vindi, skýjum og úrkomu. Vegna hitamismunar er þoka algeng við strendurnar á vorin og sumrin. Fjörðinn tekur svo að leggja í nóvember. Ísinn er tiltölulega sléttur og nær allt að 2 metra þykkt. Við mynni fjarðarins er stór vök sem helst íslaus árið um kring vegna hafstrauma. Utan við fjörðinn er ískantur þar sem eru greinileg skil milli fjarðaríssins og rekíssins utan við. Oftast losnar mun fyrr um ísinn inni í firðinum á vorin en utan við.[16]

Janúar Febrúar Mars Apríl Maí Júní Júlí Ágúst September Október Nóvember Desember
 Hæsti meðalhiti −10 −10 −10 −6 −0 5 8 7 3 −3 −7 −9
 Lægsti meðalhiti −13 −13 −13 −9 −2 3 6 5 1 −5 −9 −12
 Úrkoma 16 29 26 15 13 16 22 38 29 20 19 16
 Línurit hitastig í °C • mánuðarúrkoma í mm • Heimild: M.v. þyrlupall í Ittoqortoormiit[17]
 
 
16
 
-10
-13


 
 
29
 
-10
-13


 
 
26
 
-10
-13


 
 
15
 
-6
-9


 
 
13
 
-0
-2


 
 
16
 
5
3


 
 
22
 
8
6


 
 
38
 
7
5


 
 
29
 
3
1


 
 
20
 
-3
-5


 
 
19
 
-7
-9


 
 
16
 
-9
-12



Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 J. A. Dowdeswell, C. L. Batchelor, K. A. Hogan, and H.-W. Schenke (2016). „Nordvestfjord: a major East Greenland fjord system“. Memoirs. Geological Society, London. 46: 43–44.
  2. Higgins, A. K. (2010). „Exploration history and place names of northern East Greenland“. GEUS Bulletin. 21: 211.
  3. Bravo, M. (2006). „Geographies of exploration and improvement: William Scoresby and Arctic whaling, 1782–1822“. Journal of Historical Geography. 32 (3): 512–538.
  4. Jón Dúason (1958). „Kol, olía og kjarnorka á Grænlandi“. Morgunblaðið (77): 13.
  5. Björn Þorsteinsson (1965). „Íslands- og Grænlandssiglingar Englendinga á 15. öld og fundur Norður-Ameríku“. Saga. 1: 34.
  6. „Hvað vitum við um Gunnbjarnarsker? Hvar eru þau eða voru?“. Vísindavefurinn.
  7. 7,0 7,1 Sørensen, M., & Gulløv, H. C. (2012). „The Prehistory of Inuit in Northeast Greenland“. Arctic Anthropology. 49 (1): 98.
  8. Tony Higgins. „Exploration Story 0-1934“. Nanutravel. Sótt 8.8.2023.
  9. Eyþór Einarsson (1960). „Þáttur frá Norðaustur-Grænlandi“. Náttúrufræðingurinn. 30 (3): 103–129.
  10. Olsen, A. H. (2008). „Da drivende kontinenter blev slået fast - danske geologer, kontinentaldriften og pladetektonikken“ (PDF). Geologisk Tidsskrift: 1–43.
  11. Kristján Freyr Halldórsson (17. janúar 2019). „Báru Grænlendinga á höndum sér“. RÚV. Sótt 8.8.2023.
  12. Mikkelsen, E. (1927). „The Colonization of Eastern Greenland: Eskimo Settlement on Scoresby Sound“. Geographical Review. 17 (2): 207–225. doi:10.2307/208224.
  13. Marianna Leoni (2019). From Colonialism to Tourism: An Analysis of Cruise Ship Tourism in Ittoqqortoormiit, East Greenland (MA thesis). Háskóli Íslands. bls. 39.
  14. Kampp, Kaj & Meltofte, Hans & Mortensen, Christian (1987). „Population size of the Little Auk Alle alle in East Greenland“. Dansk Ornitologisk Forenings Tidsskrift. 81: 129–136.
  15. „Af hverju lifa ekki moskítóflugur á Íslandi, fyrst þær geta lifað báðum megin á Grænlandi?“. Vísindavefurinn.
  16. „Climate“. Nanutravel.
  17. „Climate and Average Weather Year Round at Ittoqqortoormiit Heliport Greenland“. Weatherspark.com. Sótt 2023.