Fara í innihald

Volquart Boon-strönd

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Volquart Boon-strönd í fjarska.
Fjöll á Volquart Boon-strönd.

Volquart Boon-strönd (líka ritað Volquaart Boon) er um 115 km löng strandlengja milli Brewster-höfða og Stevenson-höfða sunnan megin í Scoresby-sundi. Ströndin einkennist af bröttum fjöllum sem eru hluti af flæðibasalti sem nær inn eftir Kristjáns 9.-landi. Ofan við fjöllin er jökull sem gengur sum staðar í sjó fram, en hefur hopað síðustu áratugi. Eina undirlendið að ráði á þessum slóðum er austast á Savojaskaga þar sem Brewster-höfði er.

Fjöllin á Volquart Boon-strönd eru milli 1000 og 1700 metrar á hæð og dýpið við ströndina er 5-600 metrar. Áberandi tindar eru til dæmis Einhyrningurinn (1730 m), Broddgölturinn (1730 m), Nálapúðinn (1713 m), Píramídinn (1701 m), Ísjómfrúin (1636 m), Sfinxinn (1268 m) og Gaflinn (1150 m).[1] Þar eru stór fuglabjörg og ein mikilvægasta varpstöð haftyrðils á alþjóðavísu. Árið 1985 voru taldir þar tíu milljón haftyrðlar.[2]

Ströndin fékk þetta nafn árið 1933 til að minnast þess þegar danska hvalveiðimanninn Volquart Boon rak inn í Scoresby-sund á skipi sínu árið 1761. Nokkur af fjöllum Volquart Boon-strandar voru fyrst klifin af hópi ítalskra fjallaklifrara undir forystu Leonardo Bonzi árið 1934. Þeir hugðust reyna við Watkins-fjöll, en urðu frá að hverfa vegna íss við ströndina og klifu því fjöllin í Scoresby-sundi í staðinn. Sum örnefni sem þeir gáfu fjöllum og jöklum þar eru enn í notkun. Meðal þeirra eru Mílanójökull, Rómarjökull og Savojaskagi.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Higgins, A. K. (2010). „Exploration history and place names of northern East Greenland“. GEUS Bulletin. 21.
  2. Kampp, K., Meltofte, H. A. N. S., & Mortensen, C. E. (1987). „Population size of the little auk Alle alle in East Greenland“. Dansk Ornithologisk Forenings Tidsskrift. 81: 129–136.