Fara í innihald

Liverpool-land

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kæmpehøjen á Liverpool-landi.

Liverpool-land er fjalllendur og vogskorinn skagi á Austur-Grænlandi, norðan við mynni Scoresby-sunds. Í vestri markast það af Hurry-firði, en í austri liggur það að Grænlandshafi. Skaginn nær frá Greville-höfða í norðri að Tobin-höfða í suðri og er 125 km á lengd. Norðan við Hurry-fjörð tengist Liverpool-land við Jameson-land.

Enski landkönnuðurinn William Scoresby gaf skaganum nafn sitt eftir ensku borginni Liverpool þaðan sem skip hans var gert út. Hann taldi að hann gæti verið eyja, og að Carlsberg-fjörður í norðri tengdist við Hurry-fjörð, en Carl Ryder staðfesti löngu síðar að svo var ekki. Syðst á Liverpool-landi eru þorpið Ittoqqortoormiit og sumarbyggðirnar á Tobin-höfða og Hope-höfða.

Á Liverpool-landi eru meðal annars Roscoe-fjöll, Sæfjöll, Didrik Pining-fjöll og Heywood-fjöll. Hæstu tindarnir eru Tvillingerne (1430 metrar) og Korsbjerget (1400 metrar) í Roscoe-fjöllum sunnarlega á Liverpool-landi. Stórifjörður liggur inn í landið úr austri um 25 km og sker það næstum í tvennt. Margir styttri firðir ganga inn í austurströndina, eins og Mariager-fjörður og Horsens-fjörður, og þar eru eyjar eins og Janusey og Hlýnunarey (sem var nýlega viðurkennd sem eyja).

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.