Milne-land
Milne-land (grænlenska: Ilimananngip Nunaa) er stór eyja í Scoresby-sundi á Austur-Grænlandi. Eyjan er um 113 km að lengd frá Burknatanga (Bregne Pynt) í austri til Urðartanga (Moræne Pynt) í vestri, og um 45 km breið frá norðri til suðurs. Hún er rúmlega 3900 ferkílómetrar að stærð og þriðja stærsta eyja Grænlands á eftir meginlandinu og Diskóeyju. Hún er mjög fjalllend og hæsti punktur hennar er 2200 metrar. Jökull liggur yfir hálendi eyjarinnar. Enski landkönnuðurinn William Scoresby nefndi hana eftir skoska sjóliðsforingjanum David Milne.
Milne-land er hluti af eyjaklasa sem telur líka Stórey í norðvestri, Bjarnareyjar í norðaustri og Danmerkurey í suðri. Vestan við eyjuna eru smáeyjarnar Rauðey og Svartey. Mjó sund skilja eyjuna frá meginlandinu. Í norðri skilur Eyfjörður hana frá skaganum Hreinlandi, í vestri skilur Rauðifjörður hana frá meginlandi Grænlands, og í suðri skilur Fönfjörður hana frá tanganum Gæsalandi. Í austri liggur eyjan að Hall-vík.