Margæs

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Margæs
Margæs
Margæs
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki Animalia
Fylking: Seildýr Chordata
Flokkur: Fuglar Aves
Ættbálkur: Gásfuglar Anseriformes
Ætt: Andaætt Anatidae
Ættkvísl: Branta
Tegund:
B. bernicla

Tvínefni
Branta bernicla
(Linnaeus, 1758)
Branta bernicla

Margæs (fræðiheiti: Branta bernicla) er smávaxin gæsategund, um 60 sm löng. Stélið er svart og mjög stutt. Margæsir skiptast í þessar þrjár undirtegundir:

Austræn margæs verpir við strendur á heimskautasvæðum í mið- og vestur-Síberíu og hefur vetursetu í vestur-Evrópu.

Margæsin sem er ljós á kvið verpir á Franz Josef Land, Svalbarða, Grænlandi og norðaustur-Kanada og hefur vetursetu í Danmörku, norðaustur-Englandi, Írlandi og Atlantshafsströnd Bandaríkjanna frá Maine til Georgíu.

Vestræn margæs verpir í Norðvestur-Kanada, Alaska og Austur-Síberíu og hefur vetursetu aðallega á vesturströnd Norður Ameríku frá suður Alaska til Kaliforníu en einnig í austur Asíu, aðallega í Japan.

Búsvæði[breyta | breyta frumkóða]

Að vetrarlagi voru margæsir til skamms tíma einvörðungu strandfuglar og héldu til við sjó þar sem þær lifðu á marhálmi og þangi en átu einnig þörunga og smádýr. Kjörsvæði margæsa eru grunnir og skjólgóðir firðir og vogar þar sem eru lífríkar leirufjörur. Síðustu áratugi hafa margæsir einnig sótt í nýræktuð tún og ræktarland skammt frá sjó þar sem þær lifa á grasi og vetrarsánu korni. Þetta er hugsanlega hegðun sem margæsir hafa lært af öðrum gæsategundum.

Farleið margæsa við Ísland[breyta | breyta frumkóða]

Margæsir eru alfriðaðar á Íslandi. Þær eru fargestir á Íslandi og hafa hér viðkomu á leið til og frá varpstöðvum sínum í heimsskautahéruðum NA-Kanada. Fyrstu fuglarnir koma frá Írlandi í byrjun apríl og þeim fjölgar jafnt og þétt til 10. maí en þá er hámarki náð. Gæsirnar eru við strendur Faxaflóa og við sunnanverðan Breiðafjörð þangað til þær fljúga á brott síðustu daga maímánaðar. Þær fara héðan um 3000 km leið á varpstöðvar og er algengt að þær fljúgi þá leið í einni lotu á þremur sólarhringum. Leið þeirra liggur yfir Grænlandsjökul í allt að 2400 metra hæð yfir sjó. Þetta flug er mjög erfitt fyrir margæsirnar, þær eru spikfeitar, þær hafa safnað orkuforða og eiga því í erfiðleikum með að ná nógu mikilli flughæð til að komast yfir jökulinn.

Margæsir flytja með sér orkuforða af farstöð sinni á Íslandi til varpstöðva. Sú orka nýtist þeim við varp skömmu eftir komu á varpstöðvar. Staðsetning Íslands og milt loftslag gerir skilyrði til forðasöfnunar fyrir áframhaldandi flug mjög hagstæð og ráða miklu um viðgang stofnsins.

Árið 2018 fannst varp hjá margæs á Bessastaðanesi. Er að í fyrsta sinn sem vitað er um slíikt á Íslandi. [1]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist
  1. Gæti leitt til íslensks stofns margæsa Rúv, skoðað 14. júní 2018.