Great Sand Dunes-þjóðgarðurinn og verndarsvæði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brattar sandöldur.
Úr lofti.
Skógarhjörtur (vapítihjörtur).

Great Sand Dunes-þjóðgarðurinn og verndarsvæði (enska: Great Sand Dunes National Park and Preserve) er þjóðgarður í Colorado í Bandaríkjunum, 125 km suðvestur af Colorado Springs. Upphaflega var hann gerður national monument árið 1932 en árið 2004 var svæðið endurskilgreint og stækkað sem þjóðgarður og verndarsvæði. Það er um 343 ferkílómetrar að stærð.

Þjóðgarðurinn er staðsettur í San Luis-dal og eru þar stærstu sandöldur sem fyrirfinnast í Bandaríkjunum eða um 230 metra háar. Sandöldurnar hófu að myndast sem set frá Rio Grande-fljóti og þverám þess fyrir um 440.000 árum. Vindur hefur flutt sandinn á sínum tíma og breytist yfirborð aldanna oft og títt þó þær færist ekki mikið úr stað nú til dags. Hiti á svæði sandaldanna getur náð 35 gráðum á sumrin og -18 á veturna. Yfirborðhiti á sandinum getur þó náð 60 gráðum. Rigning er þar 250 mm árlega. Vinsælt er að renna sér niður sandöldurnar.

Þjóðgarðurinn hefur einnig að geyma svæði þar sem er votlendi, túndra, barrskógur og fjalllendi. Tindar hátt í 4000 metra eru þar. Veiði er heimil í verndarsvæði (preserve) þjóðgarðsins.

Sandöldurnar.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Great Sand Dunes National Park and Preserve“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 17.des. 2016.