Fara í innihald

Ágsborg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Augsburg)
Ágsborgar
Skjaldarmerki Ágsborgar
Staðsetning Ágsborgar
SambandslandBæjaraland
Flatarmál
 • Samtals146,93 km2
Hæð yfir sjávarmáli
494 m
Mannfjöldi
 • Samtals297.000 (2.019)
 • Þéttleiki1.882/km2
Vefsíðawww.augsburg.de

Ágsborg (þýska Augsburg) er þriðja stærsta borgin í sambandslandinu Bæjaraland í Þýskalandi með tæpa 300 þúsund íbúa (2019 . Borgin er helst þekkt fyrir að vera heimaborg Fugger-ættarinnar, sem starfrækti banka- og viðskipti víða um Evrópu. Borgin var stofnuð af Rómverjum og er meðal elstu borga Þýskalands.

Augsburg liggur við ána Lech sunnarlega í Bæjaralandi og um 70 km fyrir norðan austurrísku landamærin. Næstu borgir eru München fyrir suðaustan (50 km), Ulm fyrir vestan (60 km) og Ingolstadt fyrir norðaustan (50 km).

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Ágsborgar er grænn köngull efst á grænni súlu. Þetta merki kemur fyrst fram 1260, en Rómverjar höfðu notað svipað merki fyrir borgina. Borgarlitirnir eru rauður, hvítur og grænn. Þeir koma fyrst fyrir 1372.

Augsburg var stofnuð af Rómverjunum Drusus og Tíberíus, tveimur tökusonum Ágústusar keisara. Því var borgin kölluð Augustus Vindelicorum honum til heiðurs. Vindelicorum er dregið af keltneska ættbálknum vindelika sem bjó milli ána Wertach (Vinda) og Lech (Licus). Við brotthvarf Rómverja var eingöngu notað heitið Augustus, sem með tímanum breyttist í Augsburg. Merkingin er því Keisaraborg.

Saga Ágsborgar

[breyta | breyta frumkóða]
Ágsborg 1493

Ágsborg var stofnuð af Rómverjum árið 15 f.Kr. sem rómverskar herbúðir. Það voru Drusus og Tíberíus (sem seinna varð keisari) sem þar voru að verki en báðir voru þeir tökusynir Ágústusar keisara. Ágsborg er þar með næstelsta borg Þýskalands, á eftir Trier. Árið 95 e.Kr. varð borgin höfuðborg skattlandsins Raetíu, sem náði suður fyrir Alpana. Eftir fall Rómaveldis á 5. öld varð borgin nær mannlaus, þannig að hún varð bara þorp.

Gústaf Adolf fyrir framan Ágsborg

Árið 955 átti sér stað stórbardagi á Lechvöllum við Augsburg, er Otto I, keisari þýska ríkisins, vann lokasigur á Ungverjum og stöðvaði þar með útbreiðslu þeirra til vesturs. Árið 1156 voru íbúar aftur orðnir það margir að Friðrik Barbarossa keisari veitti Ágsborg borgaréttindi á ný, sem upp úr þessu verður mikil verslunarborg og fríborg í ríkinu. Keisararnir notuðu Ágsborg gjarnan sem þingstað, en þar voru 27 ríkisþing haldin á árunum 952-1582. Þar var aðalsetur Fugger-ættarinnar, helsta verslunar- og bankafólk Suður-Þýskalands á 15. og 16. öld.

Nýrri tímar

[breyta | breyta frumkóða]

Á ríkisþinginu í Speyer 1529 ákvað borgin að gerast lútersk, sem er óvenjulegt fyrir borg svona langt suður í Þýskalandi. Hún var aðalsetur Philipps Melanchton, eftirmanns Lúters. Kaþólikkar fengu þó að vera áfram í borginni, en kirkjum þeirra var fækkað. Á ríkisþinginu í Ágsborg 1555 var saminn friður milli stóru kirknanna sem gilda áttu fyrir allt ríkið (Augsburger Religionsfrieden). 1632 hertók sænskur her (Gústaf Adolf II) Ágsborg í 30 ára stríðinu. 1806 verður Augsburg hertekin af bæverskum her (vinveittum Napoleon) og verður hluti Bayerns upp frá þessu. Napoleon sjálfur hafðist við í borginni þetta ár. Borgin skemmdist verulega í loftárásum seinna stríðsins og varð loks hertekin bardagalaust af Bandaríkjamönnum, sem yfirgáfu hana ekki fyrr en 1998. Það tók langan tíma að endurreisa ýmsar byggingar. T.d. var gullni salurinn í ráðhúsinu ekki opnaður fyrr en 1985, á 2000 ára afmæli borgarinnar.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]

Augsburger Plärrer er þriðja stærsta alþýðuhátíð Bæjaralands, en hér er um skemmti- eða leiktækjagarð að ræða. Hátíðin stendur yfir í tvær vikur að vori og svo aftur að hausti. Um 1,2 milljón manns sækja hátíðina heim.

Augsburger Dult er árlegur útimarkaður í borginni, en þá mynda sölubásar nær eins kílómetra langa röð í miðborginni. Útimarkaður þessi á sér langa sögu, en hann hófst þegar á 13. öld.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Helsta knattspyrnulið borgarinnar er FC Augsburg, en félagið komst í fyrsta sinn í 1. Bundeslíguna vorið 2011. Af þekktum leikmönnum félagsins má nefna Helmut Haller, Bernd Schuster og Karl-Heinz Riedle. Alfreð Finnbogason spilar nú sem framherji með félaginu.

Íshokkíliðið Augsburger Panther leikur í efstu deild. Besti árangur félagsins er 2. sætið árið 2010.

Augsburger Stadtlauf er árlegt víðavangshlaup innanbæjar. Þátttakendur eru um 5.000 og er hlaupið því mesti íþróttaviðburður borgarinnar.

RT.1 Skate Night Augsburg er árleg línuskautakeppni í borginni. Skautað er í miðborginni og eru allar götur lokaðar á meðan. Þátttakendur eru 4.000.

Heimskeppnin í róðraríþróttum er árlega haldin í Ágsborg. Hún fer fram í manngerðri vatnabraut, sem er ein hin besta í heimi. Þar í borg eru einnig aðalskrifstofur róðraríþrótta Þýskalands.

Snjóbrettakeppni fer fram árlega í desember í miðborginni, en brautin er manngerð.

Ein skrýtnasta íþróttagrein í borginni er afturábakhlaup, en það hefur verið haldið þar síðan árið 2000.

Ágsborg viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi bæi:

Röð Vinabær Land Síðan
1 Inverness Skotlandi 1956
2 Nagahama Japan 1959
3 Amagasaki Japan 1959
4 Dayton Ohio, BNA 1964
5 Bourges Frakklandi 1967
6 Liberec Tékklandi 2001
7 Jinan Kína 2004

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]
Jakob Fugger banka- og viðskiptajöfur

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
  • Frúarkirkjan í Ágsborg er dómkirkja í lúterskum sið og er ákaflega óvenjuleg í laginu.
  • Kirkja heilags Ulrich og Afra er kaþólsk kirkja í miðborginni. Hún er pílagrímskirkja og þar hvíla heilagur Ulrich, heilög Afra og heilagur Simpertus.
  • Fuggerei er lítið íbúðahverfi sem Jakob Fugger hinn ríki stofnaði 1516. Húsin eru elstu félagsíbúðir heims sem enn standa.
  • Ráðhúsið í Ágsborg er meðal merkustu ráðhúsa í endurreisnarstíl norðan Alpa.
  • Perlachturninn er 70 metra hár varðturn í miðborginni og er eitt mesta kennileiti borgarinnar. Hann er hluti af Perlachkirkjunni í dag.