Ráðhúsið í Ágsborg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ráðhúsið í Ágsborg

Ráðhúsið í Ágsborg er meðal merkustu ráðhúsa í endurreisnarstíl norðan Alpa.

Saga ráðhússins[breyta | breyta frumkóða]

Ráðhúsið í borginni Ágsborg í Þýskalandi var reist 1615-1624 í endurreisnarstíl. Í upphafi átti að gera upp gamla ráðhúsið, sem reist var 1385. Það var orðið of lítið fyrir ríkisþingin sem konungarnir og keisararnir héldu iðulega í borginni. En eftir langar vangaveltur byggingameistara var ákveðið að rífa húsið og reisa nýtt ráðhús í staðinn. Við vígslu hússins 1624 var byggingin eina húsið í heimi með fleiri en sex hæðir. Í því voru þrír stórir salir. Á jarðhæð var Unterer Fletz, á 2. hæð var Oberer Fletz, og þar fyrir ofan var Gullni salurinn (Der Goldene Saal) sem var svo hár að hann náði yfir nokkrar hæðir. Auk þess voru á ýmsum hæðum svokölluð furstaherbergi, sem voru litlir fundarsalir fyrir heldri gesti. Í 30 ára stríðinu hnignaði Ágsborg hratt. Ráðhúsið var ekki síst reist fyrir ríkisþingin sem oft höfðu verið haldin í borginni. En ekki slíkt þing var haldið í Ágsborg eftir að ráðhúsið var fullklárað. Þau voru flutt til Regensburg í Bæjaralandi. Árið 1828 var mikil kauphöll (Börse) reist beint fyrir framan ráðhúsið. Við það missti það mikið af glæsileika sínum, þar sem nýja húsið skyggði svo mjög á það. Í loftárásum 1944 nær gjöreyðilagðist ráðhúsið. Húsið brann út og stóð í stríðslok aðeins múrverkið eftir. Kauphöllin sjálf gjöreyðilagðist. Viðgerðir hófust ekki fyrr en á 6. áratugnum. Þá var kauphöllin rifin og þannig myndaðist torgið fyrir framan ráðhúsið. Árið 1955 fluttu borgarskrifstofur aftur í ráðhúsið. Gullni salurinn var hins vegar ekki tilbúinn fyrr en 1985. Í ráðhúsinu er safn með sögu borgarinnar. Þar er einnig aðstaða fyrir farandsýningar.

Gullni salurinn[breyta | breyta frumkóða]

Hluti af hinum glæsilega Gullna sal

Gullni salurinn í ráðhúsinu þykir vera einn merkasti salur endurreisnartímabilsins í Þýskalandi. Hann er á þriðju hæð ráðhússins og nær yfir nokkrar hæðir. Gólfið er 552 m² að stærð. Veggir og loft voru skreytt með veggmyndum, gullskrauti, fögrum hurðum og ýmsu öðru. Loftið var gert úr hnetuviði. Salurinn var hin mesta gersemi og voru Ágsborgarar ákaflega hreyknir af honum í rúm 300 ár. Þar fóru fram ýmsir merkir atburðir. Árið 1653 fór fram keisarakjör salnum í salnum, er Ferdinand IV var kjörinn keisari þýska ríkisins. Árið 1690 hélt Jósef I mikla veislu í salnum eftir keisarakjör sitt. Frans II keisari heimsótti Ágsborg 1792 og skoðaði þá salinn. Árið 1891 var Otto von Bismarck gestur í salnum er hann var gerður að heiðursborgara í Ágsborg. Árið 1914 var haldin vegleg veisla til heiðurs Lúðvíks III, konungs Bæjaralands. En 1944 var ráðhúsið nær gjöreyðilagt og brann salurinn út. Eingöngu litlir hlutar með veggmyndum björguðust. Það var þó ekki fyrr en eftir 1980 að ákveðið var að endurgera Gullna salinn. Hann var vígður 1985 í tengslum við 2000 ára afmæli borgarinnar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]