Þrændalög
Þrændalög (norska: Trøndelag) er landshluti í Noregi sem var skipt í tvö fylki: Suður-Þrændalög og Norður-Þrændalög, en sameinuðust aftur í eitt fylki 1. janúar 2018. Þrændalög eru 41.262 ferkílómetrar að stærð (12,7 % af flatarmáli Noregs) og þar bjuggu um 455.000 árið 2017. Þéttleiki byggðar er tæplega 10 íbúar á ferkílómetra.
Að fornu var nafnið Þrándheimur einnig notað um byggðirnar umhverfis Þrándheimsfjörðinn. Fyrri liðurinn, „Þrándur“, getur verið mannsnafn, en vísar líklega frekar til fólksins sem bjó þar, sem var kallað Þrændir. Nafnið „Þrændalög“ er dregið af því að þetta varð snemma sameiginlegt stjórnsýslusvæði, með sameiginlega löggjöf. Danalög á Englandi er hliðstæð nafngift.
Stundum er talað um Þrændalög sem Mið-Noreg, því að landshlutinn er mitt á milli Norður-Noregs og Suður-Noregs. Suður-Noregur skiptist svo í Austurlandið, Suðurlandið og Vesturlandið. Vegna landfræðilegrar legu og að nokkru leyti sameiginlegrar stjórnsýslu eru landshlutarnir Norðmæri og Raumsdalur hluti af Mið-Noregi, en Sunnmæri telst hluti af Vesturlandinu og þar með Suður-Noregi.
Óopinber höfuðborg Þrændalaga er Þrándheimur í Suður-Þrændalögum, sem að fornu hét Niðarós. Í Þrændalögum og á Norðmæri tala menn sérstaka mállýsku af norsku.