Rauðrefur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Rauðrefur
Vulpes vulpes sitting.jpg
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríkið (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Rándýr (Carnivora)
Bowdich (1821)
Ætt: Hundaætt (Canidae)
G. Fischer de Waldheim (1817)
Ættkvísl: Vulpes
Tegund: V. vulpes
Tvínefni
Vulpes vulpes
Linnaeus (1758)

Rauðrefurinn (Vulpes vulpes eða Vulpes fulva) er sennilega þekktasta refategundin og er útbreiddasta rándýrið á landi. Rauðrefir lifa nær alls staðar í Norður-Ameríku og Evrasíu en einnig víða í Norður-Afríku. Rauðrefir eru stærstu dýrin í ættkvíslinni Vulpes.

Rauðrefir eru bæði litnir jákvæðum og neikvæðum augum af mönnum. Þeir geta borið sjúkdóma í búfé og sitja gjarnan um alifugla en eru einnig mikilvægir í loðdýrarækt og hafa verið ræktaðir fyrir feld sinn. Í febrúar árið 2005 voru refaveiðar bannaðar í Bretlandi en höfðu þá tíðkast lengi.

Japanski rauðrefurinn (Vulpes vulpes japonica), sem er undirtegund af rauðref, breiddist út frá Indlandi til Kína og þaðan til Japan. Hann er einnig þekktur undir japönsku heiti sínu kitsune (狐).

Útlitslýsing[breyta | breyta frumkóða]

Vulpes vulpes- Skull

Rauðrefir eru oftast, eins og nafnið gefur til kynna, með rauðan feld en hvítir á kviðnum, með svört eyru og svarta fætur og með þykkt loðið skott sem er hvítt á endanum. „Rauði“ tóninn á feldinum er breytilegur og getur verið dökkrauður eða ljósgylltur og allt þar á milli. Raunar geta hárin verið marglituð við nánari skoðun, rauð, brún, hvít og svört að hluta. Í náttúrunni þekkjast einnig tvö önnur litaafbrigði: silfurgrár eða svartur feldur (silfurrefir eru um 10% villtra rauðrefa og meirihluti þeirra refa sem eru ræktaðir af loðdýrabændum), og hinn svokallaði „kross-refur“, sem er öllu algengari, nefndur eftir svörtum rákum á baki hans sem ná yfir herðarnar og niður eftir bakinu og mynda „kross“ á annars rauðum feldinum. „Tamdir“ eða ræktaðir refir geta verið nánast hvernig sem er á litinn, þ.á m. doppóttir.

Augu þeirra eru gyllt eða gull og augnsteinar þeirra eru sporöskjulaga og lóðréttir eins og í köttum. Þeir sjá líka jafn vel og kettir. Rauðrefir eru afar liðugir og hefur þeim verið líkt við ketti. Löng, loðin skottin með hvítum endanum veita þeim jafnvægi í hvers kyns hoppum og stökkum.

Fullorðnir rauðrefir geta náð 4.1–5.4 kg þyngd (9–12 pund). Stærð þeirra er afar margbreytileg en yfirleitt eru rauðrefir í Evrópu stærri en rauðrefir í Norður-Ameríku.

Um haust og vetur þykknar feldur rauðrefa. Hinn svonefndi ‚vetrarfeldur‘ heldur þeim heitum í kaldara umhverfi. Refirnir missa vetrarfeldinn á vorin og fá þá aftur styttri feld sem þeir hafa út sumarið.

Heimkynni og mataræði[breyta | breyta frumkóða]

Rauðrefir finnast víða, allt frá sléttum og graslendi til skóga. Þeim hentar best að vera sunnarlega en fara þó oft á norðlægari slóðir og keppa við heimskautarefinn um fæði. Rauðrefir hafa einnig oft sést í úthverfum borga og jafnvel innan borgarmarka og vitað er til þess að þeir hafi haldið sig á sama svæði og þvottabirnir.

Rauðrefir éta nagdýr, t.d. mýs, skordýr, ávexti, orma, egg, og önnur smá dýr. Þeir hafa 42 öflugar tennur sem þeir nota til að hremma bráð sína. Refirnir neyta að jafnaði um 0.5–1 kg (1–2 pund) af fæðu dag hvern.

Undanfarna áratugi hafa refir komið sér fyrir innan borgarmarka víða í Bretlandi. Þessir borgarrefir lifa sennilega á afgöngum sem ´þeir finna í sorpi þótt þeir veiði einnig nagdýr og fugla í görðum.

Hegðun[breyta | breyta frumkóða]

Rauðrefur sefur í snjónum.

Rauðrefir sýna margbreytilega hegðun vegna þess hve margbreytileg heimkynni þeirra eru. Í Biology and Conservation of Wild Canids, fullyrða MacDonald og Sillero-Zubiri að tveir hópar rauðrefa geti hegðað sér jafn ólíkt og tvær ólíkar tegundir dýra.

Rauðrefir hafast mest við í ljósaskitunum en hafa tilhneigingu til að fara helst á kreik um nætur þegar þeir eru í návígi við mannabyggð (og þar sem næturlýsing er mikil). Oftast veiða þeir einir en ekki í hópum. Ef refur veiðir stærri bráð en hann getur borðað mun hann oftast grafa hana eða geyma þar til síðar.

Venjulega gerir hver refur tilkall til eigin svæðis. Refirnir para sig einkum saman á veturnar en á sumrin fara þeir um einir. hvert svæði getur verið allt að 50 km² (19 fermílur). Þar sem nóg er af fæðu eru svæðin aftur á móti oftast mun minni (<12 km² (4.6 fermílur)). Oft finnast nokkur greni á svo stóru svæði. Grenin geta verið fengin frá fyrrverandi íbúum þeirra, svo sem múrmeldýrum, eða grafin ný. Refirnir búa í stærri grenjum á veturna og þegar þeir annast afkvæmi sín. Smærri greni eru dreifð út um svæðið allt til vara og til að geyma fæðu. Stundum eru þau tengd aðalgreininu með göngum.

Rauðrefir stofna venjulega til „einkvænis“-sambanda á hverjum vetri, sem hjálpar þeim að ala 4-6 hvolpa ár hvert. Stundum halda þeir sig hins vegar ekki við einn maka en orsakir þess eru ekki kunnar. Þá fer eitt karldýr ýmist milli margra kvendýra eða þar sem mörg skyld kvendýr „deila“ einu karldýri; eða einhver blanda af þessu tvennu. Stundum halda ungir refir að heiman um leið og þeir hafa náð þroska (u.þ.b. 8-10 mánaða gamlir); stundum verða þeir eftir og hjálpa til við að ala upp ungviði næsta vors.

Félagslega eiga refir samskipti sín á milli með líkamstjáningu og ýmsum hljóðum sem þeir gefa frá sér. Hljóðin sem þeir mynda eru gríðarlega margvísleg. Þeir tjá sig einnig með líkamslykt og merkja bæði fæðu sína og svæði sitt með þvagi og saur.

Æxlun[breyta | breyta frumkóða]

Refur situr á steini.

Vegna mikillar útbreiðslu er fengitími rauðrefa afar misjafn. Rauðrefir sem búa suðlægari slóðum makast venjulega frá desember til janúar, þeir sem búa norðar frá janúar til febrúar og þeir sem búa hvað nyrst frá febrúar til apríl. Mökin eru hávær en stutt og vara sjaldnast lengur en í 20 sekúndur. Enda þótt kvendýr maki sig ef til vill með mörgum karldýrum (sem berjast innbyrðis um hana) mun hún þó á endanum velja aðeins eitt þeirra.