Fara í innihald

Svarfaðardalur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Svarfaðardalur-Skíðadalur, Árgerðisbrú fremst, Gljúfurárjökull innst í dal.

Svarfaðardalur er stór og þéttbýll dalur sem liggur milli hárra fjalla inn frá Dalvík við Eyjafjörð að vestan. Hann tilheyrir sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð.

Um 10 km frá sjó klofnar hann. Eystri dalurinn nefnist Skíðadalur og hann heldur meginstefnu dalsins til suðvesturs en hinn dalurinn heldur Svarfaðardalsnafninu, hann sveigir mjög til vesturs og er oft kallaður Svarfaðardalur fram. Fjölmargir afdalir ganga út frá aðaldölunum. Smájöklar eru víða í þessum dölum. Stærsti jökullinn er Gljúfurárjökull sem er fyrir botni Skíðadals og blasir við úr byggð.

Fjöllin eru mikil og brött og margir tindar á bilinu 1000-1400 m á hæð. Hæstu fjöllin eru upp af Skíðadal, hæstur er Dýjafjallshnjúkur 1456 m. Svarfaðardalsá rennur eftir dalnum. Hún á innstu upptök sín á Heljardalsheiði en safnar að sér vatni úr fjölda þveráa og lækja. Stærst þessara áa er Skíðadalsá.

Fjölmargar gönguleiðir og fornir fjallvegir liggja úr Svarfaðardal og Skíðadal til næstu byggðarlaga. Þekktasti fjallvegurinn er Heljardalsheiði. Um hana lá hin forn þjóðleið til Hóla í Hjaltadal. Í Svarfaðardal voru fjórir kirkjustaðir, Vellir, Tjörn, Urðir og Upsir. Barna- og unglingaskóli var á Húsabakka 1956-2004. Þar er nú samkomuhús sveitarinnar en það heitir Rimar. Sundskáli Svarfdæla er upp undir fjallshlíðinni ofan við Húsabakka. Hann var reistur 1929 og er talinn ein elsta yfirbyggða sundlaug landsins.

Volgar lindir eru í Laugahlíð ofan við Sundskálann og úr einni þeirra fékk hann vatn. Seinna var borað eftir vatni og vatn leitt þaðan til skálans. Hitaveita er í neðanverðum dalnum en heitt vatn fæst úr borholum á Hamri í Svarfaðardal og á Árskógsströnd. Friðland Svarfdæla nær frá sjó við Dalvík og spannar flatann dalbotninn inn fyrir Húsabakka. Þar eru göngustígar og reiðstígar og mikið og fjölskrúðugt fuglalíf.

Vegna þess hve fjöllin eru há sér ekki til sólar í svartasta skammdeginu. Talsverður munur er á milli bæja hversu lengi það er sem sól kemur ekki upp að vetri. Á sumrin skín hins vegar miðnætursól.


Menning[breyta | breyta frumkóða]

Norðurslóð er héraðsfréttablað Svarfdæla. Hún hóf göngu sína í október 1977 og er eitt elsta héraðsfréttablað landsins sem kemur út að staðaldri.

Héraðshátíðin nefnist Svarfdælskur mars og er haldin í mars ár hvert. Þetta er menningarhátíð þar sem ýmislegt er til gamans gert, svo sem að keppa að heimsmeistaratitli í brús og dansa Svarfdælskan mars. Brús er sérstætt spil sem hefur lengi verið spilað í dalnum og er raunar þekkt víðar en hvergi hefur það lifað jafn góðu lífi og þar.

Héraðssöngur Svarfdæla er kvæðið Svarfaðardalur eftir Hugrúnu skáldkonu sem alþekkt er í flutningi Karlakórs Dalvíkur við lag Pálma Eyjólfssonar. Síðasta erindið hljóðar svo:

Svarfaðardalur fram, þ.e. innri hluti Svarfaðardals, Hnjótafjall fyrir miðju.
Haus héraðsfréttablaðsins Norðurslóðar.
Hann er töfrandi höll,
hann á tignarleg fjöll
þar í laufbrekkum lækirnir hjala.
Mér er kliður sá kær,
eg vil koma honum nær.
Hann er öndvegi íslenskra dala.

Annar þekktur Svarfaðardalssöngur er Svarfaðardalur kæri eftir Hjalta Haraldsson frá Ytragarðshorni við lag Guðmundar Óla Gunnarssonar sem Karlakór Dalvíkur hefur sungið og gefið út á hljómdiski.

Málarar hafa fundið sér myndefni í dalnum. Ásgrímur Jónsson málaði allmörg velþekkt olíuverk í Svarfaðardal og Skíðadal. Einnig eru til stór Svarfaðardalsmálverk eftir Freymóð Jóhannsson. Einn þekktasti málari byggðarlagsins er Brimar Sigurjónsson (1928-1980). Fjölmargar mynda hans eru frá Dalvík og Svarfaðardal.

Sagan[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt Landnámu er dalurinn kenndur við Þorstein svörfuð sem bjó á Grund. Hann var þó ekki sá fyrsti sem settist að í dalnum því Ljótólfur goði á Hofi og menn hans voru komnir á undan honum. Svarfaðardalur er víða nefndur í fornum sögum og þar gerðust Svarfdæla saga og Valla-Ljóts saga. Þorleifs þáttur jarlaskálds og Hreiðars þáttur heimska fjalla einnig um Svarfdælinga. Í Svarfaðardal hafa fundist all mörg kuml frá heiðnum sið þar á meðal tveir kumlateigar með mörgum kumlum. Annar í Láginni á Dalvík og hinn á Arnarholti í landi Ytragarðshorns. Guðmundur Arason hinn góði var prestur bæði að Völlum og Upsum áður en hann var kjörinn Hólabiskup og Svarfaðardalur kemur víða fyrir í sögu hans. Á Urðum bjuggu landskunnir höfðingjar, Þorsteinn Eyjólfsson (d. 1402) lögmaður og hirðstjóri og síðan Arnfinnur Þorsteinsson sonur hans, riddari og hirðstjóri. Svarfaðardalur varð snemma þéttbýll eins og máltækið gamla "hér er setinn Svarfaðardalur" ber vitni um. Á miðöldum voru 68 lögbýli í dalnum og fjölmörg smærri býli (hjáleigur og kot).

Svarfaðardalur var allur einn hreppur fram í ársbyrjun 1946 en þá var honum skipt í Svarfaðardalshrepp og Dalvíkurhrepp. Dalvík fékk kaupstaðarréttindi 22. apríl 1974. Hrepparnir voru svo sameinaðir á ný ásamt með Árskógshreppi þann 7. júní 1998 og mynda nú Dalvíkurbyggð.

Fjöllin[breyta | breyta frumkóða]

Fjallahringurinn kring um Svarfaðardal og Skíðadal er allstórbrotinn. Hann spannar yfir 100 km og ef miðað er við vatnaskilin, sem teygja sig frá Hálshorni umhverfis dalina og enda yst út í Ólafsfjarðarmúla, þá eru þau 115 km löng. Samkvæmt bók Bjarna E. Guðleifssonar um Svarfaðardalsfjöll eru 75 tindar á þeirri leið sem allir hafa nöfn. Fjórir af þeirra eru yfir 1400 m háir og á lista Ferðafélagsins yfir 100 hæstu fjallstinda á Íslandi. Þetta eru:

Jarðfræði Svarfaðardals[breyta | breyta frumkóða]

Berggrunnur byggðarlagsins er að mestu gerður úr fornum blágrýtishraunum sem mynda gríðarþykkan lagskiptan jarðlagastafla. Milli hraunlaganna eru víða þunn rauðleit setlög sem gerð eru úr gömlum jarðvegi sem safnast hefur á hraunin milli gosa, einnig má sums staðar finna sand- og malarkennd setlög sem ættuð eru frá ám og vötnum. Líðið sem ekkert er af súru og ísuru bergi (líparíti eða andesíti). Jarðlagastaflanum hallar lítillega til suðurs. Hann er 10 – 12 milljón ára gamall, frá miðhluta Míósen. Elsta bergið er yst í Ólafsfjarðarmúla en yngsta bergið er efst í háfjöllum Skíðadals. Víða standa berggangar nær hornrétt á jarðlögin en þeir eru aðfærsluæðar fornra eldstöðva. Þykkur og mikill berggangur sker sig upp í gegn um Stólinn á mótum Svarfaðardals og Skíðadals, Hálfdanarhurð í Ólafsfjarðarmúla er einnig berggangur. Eftir að eldvirkni lauk á svæðinu fyrir um 10 milljónum ára grófst Eyjafjörður og þverdalir hans ofan í jarðlagastaflann fyrir atbeina vatns og vinda og þegar ísöldin skall á fullkomnuðu jöklar landslagsmótunina. Jökulgarðar frá lokum síðasta kuldaskeiðs, fyrir um 11.500 árum, setja víða svip sinn á landið. Hólsrípillinn er eitt fallegasta dæmið um slíka garða en hann er ruddur upp af jökli sem eitt sinn gekk í sjó úr Karlsárdal. Berghlaupsurðir eru einnig áberandi víða í fjallahlíðum og má þar nefna Upsann ofan Dalvíkur, hólana neðan við Hofsskál í Svarfaðardal og Hvarfið í mynni Skíðadals. Sveitarfélagið er á virku jarðskjálftasvæði og árlega verða menn varir við jarðskjálfta sem flestir eiga upptök sín á Grímseyjarsundi og fyrir mynni Eyjafjarðar. Dalvíkurskjálftinn 1934 er öflugasti skjálftinn sem vitað er um að hafi átt upptök á svæðinu en hann var um 6,2 stig á Richter. Upptök hans voru milli Dalvíkur og Hríseyjar.

Bæir í Svarfaðardal og Skíðadal[breyta | breyta frumkóða]

Bæjum er raðað í stafrófsröð. Nokkur eyðibýli eru talin með en sú upptalning er ekki tæmandi.

Íbúar í Svarfaðardalshreppi í því manntalinu 1703 voru alls 669, þ.m.t. 102 ómagar og 12 flakkarar (9 konur og 3 karlar). (Þess ber þó að geta að hreppurinn náði yfir Árskógsströnd).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Árni Daníel Júlíusson 2016. Miðaldir í Skuggsjá Svarfaðardals. JPV útgáfa og Þjóðminjasafn Íslands.
  • Bjarni E. Guðleifsson 2011. Svarfaðardalsfjöll. Genginn fjallahringurinn umhverfis Svarfaðardal. Bókaútgáfan Hólar, 191 bls.
  • Hjörtur Eldjárn Þórarinsson. „Svarfaðardalur og gönguleiðir um fjöllin“. Árbók Ferðafélags Íslands. () (1973): 9-119.
  • Kristmundur Bjarnason. Saga Dalvíkur 1-4. Dalvíkurbær 1978-1985