Krosshóll

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Krosshóll í Skíðadal, bæjartóftir. Kóngsstaðafjall ofan bæjar

Krosshóll er eyðijörð í Skíðadal og tilheyrir sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð. Bærinn stóð á háum hól vestan Skíðadalsár. Nú sjást þar aðeins gróin tóftarbrot. Nokkru sunnan bæjarins voru gömul stekkjarhús frá Krosshóli á öðrum hól. Nú er þar gangnamannahús Svarfdæla og kallast Stekkjarhús. Hluti jarðarinnar tilheyrir Sveinsstaðaafrétt. Búskapur á Krosshóli hefur verið stopull í aldanna rás. Vallakirkja átti jörðina þegar hún kemur fyrst fram í heimildum árið 1394. Þá var jörðin nefnd Hóll í Skíðadal. Nafnið Krosshóll sést fyrst í jarðaskrá frá 1525. Kirkjan seldi jörðina árið 1910 þáverandi ábúanda Sigurði Ólafssyni. Eftir það var hún í bændaeign uns hún fór í eyði 1935. Síðustu ábúendur voru Eiður Sigurðsson og Valgerður S. Júlíusdóttir sem fluttu sig þaðan í Ingvarir. Næsti bær utan við Krosshól var Hverhóll en næsti bær innan við hét Sveinsstaðir.