Fara í innihald

Brekka í Svarfaðardal

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Brekka í Svarfaðardal er bær í dalnum að vestanverðu, um 6 km frá Dalvík og næsti bær utan við Grund. Grundarlækur, mikill skriðulækur, kemur úr Grundargili milli bæjanna en upptök hans eru í Nykurtjörn, hátt til fjalls. Ljósgil er annað lækjargil utan við Grundargilið. Þar upp af eru Hrafnabjörg. Brekka er allgóð bújörð og þar hefur verið búið allt frá landnámstíð. Þar bjuggu fyrst, samkvæmt Svarfdælu, Ásgeir rauðfeldur Herjólfsson og Iðunn Arnardóttir kona hans. Börn þeirra voru Yngveldur fagurkinn, Þorleifur jarlsskáld og Ólafur völubrjótur. Þessi fjölskylda kemur mjög við sögu í Svarfdælu og af Þorleifi er til sérstakur þáttur, Þorleifs þáttur jarlsskálds.

Snorri Sigfússon námsstjóri á Akureyri var ættaður frá Brekku eins og nafn ævisögu hans Ferðin frá Brekku gefur til kynna.

Landið þitt Ísland - Bindi A-G bls. 115 - Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson