Grund í Svarfaðardal

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Grund í Svarfaðardal. Grundargil er í hliðinni ofan bæjarins. Hnjúkarnir sem ber við himinn eru Brennihnjúkur, Litlihnjúkur og Digrihnjúkur. Nykurtjörn er neðanundir Digrahnjúk.
Grund, Grundargil, Brennihnjúkur og Litlihnjúkur.

Grund í Svarfaðardal er ein af stærri bújörðunum í dalnum. Bærinn í miðri sveit, vestan Svarfaðardalsár, um 6 km frá strönd gegnt Hofi. Barnaskóli Svarfdælinga stóð lengi í túnfætinum á Grund innan og neðan við bæinn og þar var líka samkomuhús sveitarinnar. Utan við Grund er Grundarlækur. Hann kemur úr miklu skriðugili í fjallinu, Grundargili. Úr þessu gili hafa oft komið miklar aurskriður sem hafa valdið tjóni á túnum á Grund og næsta bæ, Brekku, og tekið sundur þjóðveginn um dalinn. Skriðurnar eiga upptök sín í vatnshlaupum sem koma úr Nykurtjörn, litlu vatni í um 700 m hæð í fjallinu ofan við Grund. Grund er landnámsjörð, að því er sagt er í Svarfdæla sögu, þar bjó Þorsteinn svörfuður. Grundar er víða getið í fornum heimildum. Í Sturlungu segir frá því að Tumi hinn yngri, sonur Sighvats Sturlusonar, og Halldóra móðir hans hafi fengið jörðina til ábúðar fyrst eftir ósigur Sturlunga í Örlygsstaðabardaga árið 1238. Þorsteinn Eyjólfsson lögmaður á Urðum átti Grund á seinni hluta 14. aldar og kallaði hana sína bestu jörð Norðanlands. Jón Arason biskup eignaðist jörðina og gaf Þórunni dóttur sinni hana 1541. Eftir aftöku biskups og sona hans í Skálholti 1550 kúguðu valdsmenn konungs jörðina af henni og eftir það taldist hún konungsjörð allt fram á 20. öld.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Hjörtur Eldjárn Þórarinsson. „Svarfaðardalur og gönguleiðir um fjöllin“. Árbók Ferðafélags Íslands. () (1973): 9-119.
  • Stefán Aðalsteinsson (1978). Svarfdælingar. Iðunn, Reykjavík.