Háls í Svarfaðardal
Háls í Svarfaðardal er bær sem stendur skammt frá sjó utan við Hámundarstaðaháls og er ysti bær í dalnum austan Svarfaðardalsár. Suður af bænum skerst Hálsdalur inn á milli Krossafjalls og Rima. Úr honum fellur Hálsá sem rennur niður með túninu á Hálsi og í Svarfaðardalsá nálægt ósi hennar. Næstu bæir eru Hrísar og Hamar. Háls er góð bújörð og vel í sveit sett. Þar hefur verið búið frá alda öðli. Bæjarins er fyrst getið í Prestssögu Guðmundar góða, þar var hálfkirkja til forna.
Á Hámundarstaðahálsi í landi Háls eru minjar um nokkrar hjáleigur. Þar er býlið Lykkja (um 800 m norðan við Hálsbæ) þar sem sjást leifar um sporöskjulaga vallargarð og tóftir húsa, býlið Þrælagerði og býlið Fjallgerði (í hálsinum um 600 m SSA við Hálsbæinn). Á Fjallgerði eru tóftir og mikil garðlög í grennd.
Sr. Friðrik Friðriksson æskulýðsleiðtogi er fæddur á Hálsi. Minnismerki um hann er við þjóðveginn ofan bæjar.