Klaufabrekkur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Klaufabrekkur í Svarfaðardal, Gimbrarhnjúkur fyrir miðju

Klaufabrekkur er bær í Svarfaðardal fram, 17 km frá Dalvík, nokkru innan við kirkjustaðinn á Urðum. Upp frá bænum ber Auðnasýlingu við himinn. Innar skerst Klaufabrekknadalur inn á milli fjallanna. Um hann rennur Lambá og fellur til Svarfaðardalsár á merkjum Klaufabrekkna og Göngustaðakots. Um Klaufabrekknadal er gamalkunn gönguleið sem oft var, og er enn, farin til Ólafsfjarðar eða Fljóta. Það er kallað að fara Klaufabrekkur. Innst í dalnum er Klaufabrekknaskarð sem liggur niður í lítinn fjalladal sem einnig heitir Klaufabrekknadalur og endar niðri á Lágheiði.

Fornbýlið Klaufanes er í landi Klaufabrekkna en þar bjó berserkurinn og skáldið Klaufi Hafþórsson samkvæmt Svarfdælu ásamt konu sinni Yngveldi fagurkinn. Síðar var bærinn færður upp undir fjallið og kallaður að Klaufabrekkum. Í Valla-Ljóts sögu segir að Hallur Sigmundarson hafi búið á Klaufabrekkum. Hann tróð illsakir við Valla-Ljót og féll fyrir honum að lokum. Urðamenn áttu Klaufabrekkur lengi fyrr á öldum en síðan Jón Sigmundsson, lögmaður. Gottskálk grimmi náði jörðinni af honum upp í sakfellisskuld og var hún í eigu Hólastóls lengi eftir það. [1]

Í dag er rekinn hefðbundinn búskapur á Klaufabrekkum.

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Stefán Aðalsteinsson (1976). Svarfdælingar. Iðunn, Reykjavík. bls. 127.