Heljardalsheiði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Hnjótafjall fyrir miðju, Heljardalsheiði t.v, Skallárdalur og Unadalsjökull t.h..

Heljardalsheiði er fjallvegur milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar, nánar tiltekið milli Svarfaðardals og Heljardals, sem er afdalur út frá Kolbeinsdal í Skagafirði. Heiðin er 865 m há, allgrýtt, illa gróin og lífseigar fannir á háheiðinni. Þar er Stóravarða á vatnaskilum. Há fjöll eru á báðar hendur, Heljarfjall (1.090 m) að sunnan en Hákambar (1.162 m) að norðan. Um fjögurra tíma ferð var talin vera á milli innstu bæja í Svarfaðardal og Kolbeinsdal. Heiðin hefur alla tíð verið fjölfarin, fyrrum var hún í þjóðbraut enda skemmsta leið til Hóla fyrir alla þá sem áttu þangað erindi af Norðaustur- og Austurlandi. Símalínan sem lögð var frá Seyðisfirði til Reykjavíkur í upphafi 20. aldar var lögð yfir Heljardalsheiði. Bílvegur hefur hins vegar aldrei verið lagður um hana, þó er hún enn allfjölfarin bæði af gangandi fólki og ríðandi. Í aldanna rás hafa margir endað ævi sína á þessum fjallvegi. Veturinn 1195 hugðist Guðmundur góði Arason, sem þá var prestur á Völlum í Svarfaðardal, fara vestur yfir Heljardalsheiði ásamt með 15 förunautum sínum, körlum konum og börnum. Þá brast á stórhríð svo margir urðu úti en aðrir komust við illan leik til byggða ýmist í Kolbeinsdal eða Svarfaðardal. Guðmundur sjálfur lá úti um nóttina en slapp lífs ásamt með stúlkubarni sem honum fylgdi.

Heljuskáli heitir nýreist sæluhús á háheiðinni.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]