Vífilsstaðir
Vífilsstaðir (áður Vífilsstaðaspítali) var berklahæli og hjúkrunarheimili í Garðabæ sem tók formlega til starfa 5. september 1910. Starfsemi Vífilsstaða snerist um þjónustu við berklasjúklinga þar til hælinu var breytt í spítala fyrir sjúklinga með öndunarfærasjúkdóma á vegum LSH árið 1973. Árið 1976 tók til starfa meðferðarstofnun fyrir áfengissjúklinga á vegum Kleppsspítala í sérhúsnæði á Vífilsstöðum.
Öll starfsemi hins opinbera lagðist af árið 2002 en þá tók Hrafnista við húsnæðinu og rak þar öldrunarheimili fyrir um 50 manns til 20. ágústs 2010. Vífilsstaðir eru í eigu ríkisins og eru í umsjá fasteignaumsýslu þess.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Upprunalega byggði Vífill bæinn Vífilsstaði eftir að Ingólfur Arnarson, landnámsmaður Íslands, hafði veitt honum frelsi fyrir fund á öndvegissúlum sínum tveim sem hann hafði varpað frá borði og hugðist byggja sér bæ þar sem þær ráku á land. Vífilsfell er einnig kennt við hann.
Þann 1. september 1910 var spítali fyrir berklasjúklinga byggður á Vífilsstöðum sem Rögnvaldur Ólafsson teiknaði. Eftir að berklasjúklingum fór fækkandi árið 1973 var byrjað að taka á móti öllum öndunarfærasjúklingum. Þar var einnig stórt kúabú, sem lagt var niður árið 1974. Sérstök meðferðardeild fyrir áfengissjúklinga sem tilheyrði Kleppsspítala var stofnuð þar árið 1976. Þeirri deild var lokað 2002.
Rekstur hjúkrunarheimilis fyrir aldraða hófst í byrjun árs 2004 að endurinnréttingu á húsinu loknu. Telst aðstaðan með þvi nútímalegra sem gerist. Hrafnista annast rekstur Vífilsstaða og leigir húsið af ríkinu. Níu af hverjum tíu heimilismanna koma beint af öldrunardeildum LSH, en 10% heimilismanna eru teknir inn samkvæmt hefðbundnum inntökureglum.
Þar starfar prestur sem sinnir sálgæslu og trúarlegri þjónustu við heimilismenn, aðstandendur og starfsfólk.