Gröf í Svarfaðardal

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gröf í Svarfaðardal

Gröf er bær í Svarfaðardal austan Svarfaðardalsár um 7 km frá Dalvík og skammt sunnan við kirkjustaðinn á Völlum. Margt er óljóst um fyrstu byggð í Gröf. Býlisins er getið í Guðmundar sögu Arasonar. Þar er sagt frá Helgu sem bjó í Gröf. Hún slóst í för með Guðmundi góða sem þá var prestur á Völlum, en hann og hópur fólks með honum hugðist ganga yfir Heljardalsheiði og til Skagafjarðar. Þetta var í janúar 1194. Þau hrepptu vonskuveður, lentu í villum og hrakningum svo margir urðu úti. Helga í Gröf og sonur hennar voru meðal þeirra sem létust. Engum sögum fer síðan af Gröf í margar aldir og hún er ekki nefnd á nafn í Jarðabókinni frá 1712. Það er ekki fyrr en í lok 18. aldar að nafn bæjarins sést á ný. Þá er talað um Grafargerði sem síðar var kallað Gröf. Svo er að sjá sem hluti af landi Brautarhóls hafi verið lagt undir Gröf. Vallakirkja var þá eigandi jarðarinnar. [1]

Eigendur jarðarinnar eru Helgi Þröstur Valdimarsson (d. 2018) og Guðrún Agnarsdóttir. Móðir Helga var Hugrún skáldkona (Filippía Kristjánsdóttir) fædd í Skriðu og uppalin á Brautarhóli. Hún orti meðal annars kvæðið Svarfaðardalur sem er héraðssöngur Svarfdælinga.


tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Stefán Aðalsteinsson (1976). Svarfdælingar. Iðunn, Reykjavík. bls. 127.