Fara í innihald

Hreiðarsstaðir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hreiðarsstaðir í Svarfaðardal eru bújörð í dalnum vestanverðum um 12 km frá Dalvík. Þar hefur verið stundaður hefðbundinn búskapur frá alda öðli. Upp af bænum rís Hreiðarstaðafjall, bratt en vel gróið neðantil. Handan Svarfaðardalsár rís Stóllinn til himins og aðgreinir Svarfaðardal fram og Skíðadal. Bærinn er sagður nefndur eftir Hreiðari heimska en um hann er stuttur þáttur í fornsögunum, Hreiðars þáttur, en sagan gerist á árunum 1046-47. Hálfkirkja eða bænahús var á bænum á fyrri öldum sem stóð enn er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var rituð en var þá löngu fallið úr notkun sem slíkt. Gottskálk biskup grimmi átti Hreiðarsstaði í byrjun 16. aldar en ekki er vitað hvort hann hafi nokkru sinni komið þar í hlað.

  • Stefán Aðalsteinsson (1978). Svarfdælingar. Iðunn, Reykjavík.