Þorleifs þáttur jarlsskálds

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorleifs þáttur jarlsskálds er stutt frásögn eða smásaga, sem telst til Íslendingaþátta. Þar segir frá Þofleifi Ásgeirssyni frá Brekku í Svarfaðardal og viðskiptum hans við Hákon Sigurðarson Hlaðajarl. Þorleifur hafði siglt frá Íslandi til Noregs í verslunarferð. Þar hitti hann fyrir Hákon jarl sem rændi hann öllum varningi, brenndi skip hans og lét drepa förunauta hans alla. Þorleifur komst undan og fór til Danmerkur þar sem hann gerðist hirðskáld Sveins konungs tjúguskeggs. Seinna kom hann fram greypilegum hefndum á Hákoni Hlaðajarli er hann náði að þylja yfir honum magnað níðkvæði sem hann hafði ort. Það hrein á jarli svo að hann missti heilsuna og varð aldrei samur maður eftir. Af þessu fékk hann viðurnefni og var kallaður Þorleifur jarlsskáld. Þorleifur kemur fyrir í fleiri fornritum, svo sem í Svarfdæla sögu, en hann og Ólafur völubrjótur bróðir hans voru banamenn berserksins Klaufa Hafþórssonar. Systir hans var Yngveldur fagurkinn, lykilpersóna í Svarfdælu. Lítið er til af kveðskap Þorleifs, þó eru nokkrar vísur eftir hann tilfærðar í Svarfdælu, Þorleifs þætti, Landnámabók og víðar. Þorleifs þáttur jarlsskálds er talinn ritaður um 1300. [1]

Þátturinn er stundum kallaður Þorleifs þáttur jarlaskálds, en það er órökrétt, því að Þorleifur orti aðeins um einn jarl að því er best er vitað.

Skáldsaga Þórarins Eldjárns, Hér liggur skáld (Rvík 2012), er um Þorleif. Grímur Thomsen orti einnig um Þorleif jarlsskáld. Kvæðið heitir Jarlsníð og þar í eru hin fleygu vísuorð "Enginn skyldi skáldin styggja, skæð er þeirra hefnd."

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Jónas Kristjánsson 1956. Formáli að Þorleifs þætti jarlsskálds. Íslensk fornrit IX, Hið íslenska fornritafélag