Robert F. Kennedy

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Robert F. Kennedy

Robert Francis Kennedy eða Bobby Kennedy, einnig þekktur sem RFK (20. nóvember 19256. júní 1968) var bandarískur stjórnmálamaður, dómsmálaráðherra og forsetaframbjóðandi. Hann var yngri bróðir Johns F. Kennedy Bandaríkjaforseta og gegndi embætti dómsmálaráðherra í ríkisstjórn hans á árunum 1961 til 1964. Hann var einn af nánustu samstarfsmönnum forsetans og einn helsti ráðgjafi hans í Kúbudeilunni. Hans er minnst fyrir framlag sitt til réttindabaráttu afrískættaðra Bandaríkjamanna á 6. og 7. áratug 20. aldar.

Kennedy gegndi embætti dómsmálaráðherra undir forsæti Lyndons B. Johnson í níu mánuðu eftir morðið á bróður hans, John F. Kennedy. Hann lét af starfi í september 1964 og varð fulltrúi New York-fylkis á öldungadeild Bandaríkjaþings í nóvember sama ár. Hann var ósammála Johnson um Víetnamstríðið og ýmislegt annað.

Árið 1968 tilkynnti Kennedy að hann sæktist eftir tilnefningu Demókrataflokksins til framboðs í forsetakosningum sama ár. Kennedy var skotinn í eldhúsi Ambassador-hótelsins í Los Angeles, skömmu eftir að hann hafði tilkynnt sigur sinn í undankosningunum í Kaliforníu þann 5. júní 1968 og lést hann daginn eftir.