Þjórsá

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þjórsá
Þjórsá við Þverá í Gnúpverjahreppi
Þjórsá við Þverá í Gnúpverjahreppi
Uppspretta Hofsjökull
Árós Ströndin nálægt Þykkvabæ
Lengd 230 km
Meðalrennsli 310-360 m³/s
Vatnasvið 7.578 km²
Map
Hnit 63°47′00″N 20°48′00″V / 63.7833°N 20.8°V / 63.7833; -20.8
Þjórsá með Búrfell í bakgrunni.
Þjórsárferja nærri Stórinúpi um 1900.

Þjórsá er lengsta á Íslands, alls 230 km löng. Hún er jökulá að uppruna sem á meginupptök sín í Hofsjökli og rennur í suður til sjávar vestan Þykkvabæjar. Í hana falla fjölmargar dragár og lindár. Þjórsá er sýslumörk Rangárvallasýslu og Árnessýslu og er sóttvarnarlína hvað varðar búfjárveikivarnir. Ennfremur er Þjórsá næstvatnsmesta á landsins með 363 rúmmetra á sekúntu eftir einungis Ölfusá sem hefur um 400.

Merking[breyta | breyta frumkóða]

Orðið þjór merkir naut og er Þjórsá því Nautsá. Orðið þjór kemur nokkrum sinnum fyrir í fornritum, en lifir nú einungis í örnefnum. Í nágrannamálunum eru til samsvarandi orð: danska - tyr, sænska - tjur, latína - taurus, írska - tarbh. Íslendingar tóku upp úr írsku orðið „tarfur“, og hefur það ef til vill rutt orðinu „þjór“ úr málinu.

Samgöngur[breyta | breyta frumkóða]

Tvær brýr eru á ánni, önnur á þjóðvegi nr. 1 neðan við Þjórsártún og hin við Sandafell rétt neðan Sultartangavirkjunar. Gamla brúin við Þjótanda var tekin í notkun árið 1895 og endurgerð nokkru neðar árið 1949. Nýja brúin, sem leysti þá gömlu af hólmi, var tekin í notkun árið 2003 og er tæpur kílómetri á milli þeirra.

Nokkur vöð eru á ánni, þau helstu eru Nautavað við Þjórsárholt og Hagavað við bæinn Haga.

Gamla Sprengisandsleiðin lá inn Gnúpverjaafrétt og yfir Þjórsá á vaði á móts við Sóleyjarhöfða, sem er austan árinnar. Þarna vestan ár er fjallkofi fyrir fjallmenn Gnúpverja, sem kallast Bólstaður.

Fossar[breyta | breyta frumkóða]

Í Þjórsá eru margir fagrir fossar. Sé talið ofan frá er röðin eftirfarandi: Hvanngiljafoss (Kjálkaversfoss), Dynkur, Gljúfurleitarfoss, Tröllkonuhlaup, Þjófafoss, Minna-Núps flúðir, Búðafoss og Hestfoss sitt hvoru megin við Árnes og að lokum Urriðafoss.

Eyjar[breyta | breyta frumkóða]

Árnes og Hagaey eru meðal stærstu eyja í ánni. Eyjan Viðey (gengur einnig undir heitinu Minnanúpshólmi) hefur nýlega verið friðuð og er sérstök vegna gróskumikils birkiskógar.[1] Traustholtshólmi er skammt upp frá ósum árinnar þar var samnefndur bær sem nú er kominn í eyði.

Fiskigengd[breyta | breyta frumkóða]

Miklar nytjar eru af veiði í Þjórsá en þar er einkum stunduð netaveiði. Í ánni lifa þær fisktegundir sem algengar eru í ám og vötnum landsins, lax, urriði, bleikja, hornsíli og áll. Flundra hefur einnig veiðst í Þjórsárósi. Í Þjórsá og þverám hennar er að finna einn af stærri laxastofnum landsins og góður stofn sjóbirtings gengur á vatnasvæðið. Þar eru einnig staðbundin bleikja og urriði. Mestur hluti villtra laxa sem ganga á vatnasvæðið er alinn upp í Þjórsá sjálfri. Selir ganga upp í Þjórsá, allt upp að Urriðafossi, til lax- og silungsveiða.

Virkjanir[breyta | breyta frumkóða]

Í Þjórsá og þverám hennar Tungnaá og Köldukvísl eru sjö vatnsaflsvirkjanir í eigu Landsvirkjunar: tvær Búrfellsstöðvar, Sultartangastöð, Hrauneyjafossstöð, Sigöldustöð, Vatnsfellsstöð og Búðarhálsvirkjun. Á teikniborðinu eru þrjár til viðbótar; Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. http://visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVF761A4BE-A7B4-4A6F-9EB8-FDC3042ECE97
  2. „Nýjar virkjanir í Þjórsá“. 22. nóvember 2007. Sótt 1. desember 2007.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tengill[breyta | breyta frumkóða]