Fara í innihald

Kjalhraun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort af Kjalhrauni.

Kjalhraun er dyngjuhraun sem komið er upp í gíg við Strýtur um 5 km í hásuður frá Hveravöllum. Hraunið myndar flatvaxna dyngju sem ber sama nafn og hraunið allt. Kjalhraun er meðal stærstu dyngja landsins. Hraunið er dæmigert helluhraun og hefur verið þunnfljótandi er það rann. Hraunjaðrar eru alstaðar lágir, víðast 1-2 m. Hellar eru í hrauninu og er Grettishellir þeirra þekktastur. Annar þekktur staður er í hrauninu en það er Beinahóll. Þar urðu Reynistaðabræður úti ásamt fylginautum sínum árið 1780. Strýtur eru klettadrangar miklir á gígsvæði dyngjunnar. Þar eru vatnaskil milli Hvítár og Blöndu en ljóst er að áður en dyngjan hlóðst upp hafa vatnaskilin legið nokkru norðar og undirlag hennar hallast í stórum dráttum til suðurs enda náðu hraunstraumar frá gígunum 20 km í þá áttina en einungis 6 km til norðurs þar sem nyrstu totur hraunsins teygjast niður í Tjarnadali norðvestur af Hveravöllum. Lægsti staður vatnaskila á Kili (varpið) er nú í 655 m hæð við hraunjaðarinn hjá Fjórðungsöldu. Guðmundur Kjartansson telur að gömlu vatnaskilin hafi verið um 25 m lægri eða í um 630 m y.s. einhvers staðar undir hrauninu. Þorvaldur Thoroddsen kom í gíginn við Strýtur á ferð sinni um Kjöl 1888 og lýsir honum ágætlega. Guðmundur Kjartansson rannsakaði Kjalhraun og kortlagði. Hann telur m.a. að hraunið hafi runnið allt suður í Hvítárvatn. Síðar hefur Fúlakvísl hlaðið fram óseyri í vatnið svo nú er nokkur spölur frá hrauni út í vatn. Flatarmálið hraunsins er 180 km2. Heildarrúmmálið er talið vera um 6 km3. Aldurinn er rúmlega 10.000 ár.

  • Arnór Karlsson 2001: Kjölur og kjalverðir. Árbók Ferðafélags Íslands 2001,. (Ritstj. Hjalti Kristgeirsson), Reykjavík, 7–183.
  • Árni Hjartarson og Magnús Ólafsson 2005. Hveravellir. Könnun og kortlagning háhitasvæðis. ÍSOR-2005/014, 44 bls. + kort
  • Guðmundur Kjartansson 1964: Ísaldarlok og eldfjöll á Kili. Náttúrufræðingurinn 34, 9-38.
  • Þorvaldur Thoroddsen 1958–1960: Ferðabók, skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882–1898. Snæbjörn Jónsson, Reykjavík.