Búðarhálsvirkjun
64°14′6″N 19°22′5″V / 64.23500°N 19.36806°V
Búðarhálsvirkjun | |
![]() | |
Stöðvarhúsið við Búðarhálsvirkjun 29. maí 2012 | |
Byggingarár | 2010-2014 |
---|---|
Afl | 95 MW |
Virkjað vatnsfall | Þjórsá |
Fallhæð | ~40 m |
Framleiðslugeta | 600 gígavattsstundir/ári |
Meðalrennsli | 189 m³/sek |
Vatnasvið | 7 km² |
Fjöldi hverfla | 2 vélasamstæður |
Tegund hverfla | Kaplan á lóðréttum ási |
Aðrennslisgöng | 4 km löng |
Frárennslisskurður | 330 m út í Sultartangalón |
Eigandi | Landsvirkjun |
Búðarhálsvirkjun er vatnsaflsvirkjun í eigu Landsvirkjunar, staðsett vestan við Búðarháls, milli Sultartangastöðar og Hrauneyjafossstöðvar. Hún nýtir vatnsafl úr Köldukvísl, Sporðöldukvísl og Tungnaá. Virkjunin nýtir 40 m fallhæð með rennsli upp á 280 m³/sek, uppsett afl er 95 MW og orkuframleiðsla 600 Gwst/ári.
Framkvæmdir
[breyta | breyta frumkóða]Framkvæmdir á virkjuninni hófust seint á árinu 2010, en hún var síðan gangsett þann 7. mars 2014.
Framkvæmdum við virkjunina var skipt á marga verkþætti og þeir boðnir út. Stærsti verktakinn var Ístak sem sá um alla uppsteypu, gangnagröft og jarðvinnu. Þýska fyrirtækið Voith Hydro smíðaði vélbúnaðinn og ÍAV sá um lokubúnað og þrýstipípur. Hnit verkfræðistofa hafði eftirlit með framkvæmdunum ásamt starfsfólki Landsvirkjunnar. Hönnun virkjunarinnar var í höndum verkfræðistofanna Verkís, Mannvits og Eflu.
Uppsett afl virkjunarinnar átti samkvæmt útboðsgögnum Landsvirkjunar að vera 80 MW en samið var við Voith Hydro að stækka vélarnar svo afl þeirra yrði 95 MW.
Upphaflega var samið við slóvenska fyrirtækið Montavar um að hanna og smíða lokubúnað og þrýstipípur. Þegar hönnun var að mestu leyti lokið varð fyrirtækið gjaldþrota og í stað þeirra var samið við ÍAV um þann verkþátt.
Umhverfisáhrif
[breyta | breyta frumkóða]Stíflað var í Köldukvísl, Sporðöldukvísl og Tungnaá til að mynda nýtt lón, Sporðöldulón. Flatarmál lónsins er samtals 7 km² og rými þess 50 Gl við venjulegar rekstaraðstæður. Eftir að hafa farið í gegnum hverfla Búðarhálsstöðvar rennur vatnið út í Sultartangalón.
17 kílómetra háspennulína liggur frá Búðarhálsstöð að tengivirki við Sultartangastöð.
Hækka þarf brúnna yfir Sporðöldukvísl og veginn við hana á þjóðvegi 26 um 3 metra.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Búðarhálsstöð á vef Landsvirkjunar, sótt 30. desember 2024
- Contruction of Búðarháls Power Station[óvirkur tengill], sótt 30. maí 2012
- Búðarhálsvirkjun allt að 120 MW og 220 kV Búðarhálslína 1 - Úrskurður Skipulagsstofnunnar um mat á umhverfisáhrifum, sótt 30. maí 2012
- Fagfundur Samorku 2013, sótt 27. nóv 2013