Blönduvirkjun
Blönduvirkjun er vatnsaflsvirkjun í jökulánni Blöndu sem tekin var í notkun árið 1991. Við Blönduvirkjun eru þrír 50 MW hverflar, samtals 150 MW. Við virkjunina varð til miðlunarlónið Blöndulón á húnvetnsku heiðunum og er það allt að 57 km² og hefur 400 gígalítra miðlunarrými. Heildarfallhæð er 287 m og meðalrennsli er 39 m³ á sekúndu.
Blöndustöð
[breyta | breyta frumkóða]Fyrstu hugmyndirnar um virkjun Blöndu komu fram um 1950 þegar byrjað var að gera markvissar áætlanir um virkjun vatnsafls á Íslandi. Fóru fram umfangsmiklar rannsóknir til að finna hagkvæmustu leiðina til að virkja Blöndu. Tillagan sem byggt var á kom fram 1980. Blönduvirkjun er fyrsta stórvirkjun Íslendinga sem segja má að sé að öllu leyti íslensk hönnun.
Bygging virkjunarinnar
[breyta | breyta frumkóða]Framkvæmdir hófust árið 1984, með jarðgangagerð og var þá stefnt að því að rekstur myndi hefjast haustið 1988. Vegna breyttra markaðsaðstæðna var stíflugerð og niðursetningu véla frestað og gangsetning ákveðin í byrjun október 1991. Vinnsla raforku í Blönduvirkjun hófst með formlegum hætti 5. október 1991 þegar Jóhannes Nordal stjórnarformaður Landsvirkjunar ræsti fyrsta hverfil af þremur í aflsstöðinni. Árið 1992 var virkjunin komin í fullan rekstur. Virkjunarkostnaðurinn varð í heild 672 milljónir króna en hann var upphaflega áætlaður 540 milljónir króna.
Við Blönduvirkjun unnu að jafnaðu rúmlega hundrað manns frá stórum fyrirtækjum, Landsvirkjun, Hagvirki, Krafttaki og Metalna. Viðamestu framkvæmdirnar voru við undirbúning stíflugerðar sem var í umsjá Hagvirkis, við það unnu fimmtíu manns. Aðalframkvæmdarhlutinn var við stíflugerðina í bergþéttingu meðfram stíflugarðinum. Boraðar eru holur niður á visst dýpi og sementseðju dælt ofan í þær til þéttingar.
Blanda var stífluð við Reftjarnarbungu, um miðja vegu á milli upptaka og árósa. Önnur stífla var reist við upptök Kolkukvíslar nokkru vestar en hún rennur til Vatnsdalsár. Með þessum tveim stíflum myndaðist miðlunarlónið.
Stöðvarhús Blönduvirkjunar er neðanjarðar og yfir því er stjórn- og tengivirkihús. Aðrar helstu byggingar kringum virkjunina eru starfsmannahús, verkstæði og íbúðarhús stöðvarstjóra. Þegar unnið var að jarðgangnagerðinni þá voru allir fletir gangnanna húðaðir með múr og stálflísum sem smjúga inn í bergið og styrkja það.
Áhrif Blönduvirkjunar á lífríki og umhverfi
[breyta | breyta frumkóða]Frá Kolkustíflu er vatni veitt um veituskurði og vötn, samtals um 25 km leið að inntakslóni virkjunarinnar. Gróður þakti stóran hluta landsvæðisins sem fór undir miðlunarlón og inntakslón Blöndustöðvar. Samið var við heimamenn um að virkjunaraðili bætti gróðrartapið með uppgræðslu örfoka lands á heiðum beggja vegna við Blöndu, Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði. Landsvirkjun hefur ræktað rúmlega 3000 hektara lands frá árinu 1981.
Í Blöndu renna fjölmargar vatnsmiklar lindár og dragár frá upptökum og til sjávar. Blanda hefur verið vinsæl laxveiðiá alla tíð. Eftir virkjun er áin tærari og því er laxinn veiðanlegri á flugu en áður.
Rannsóknir benda til að líffræðilegt ástand Blöndu eftir að hún var virkjuð hafi breyst þannig að fiskmagn varð fljótlega mikið í Blöndulóni en fimm árum eftir myndun þess fór vaxtarhraði bleikju og stærð við kynþroska að minnka.