Fara í innihald

Skjaldbreiður

Hnit: 64°24′36″N 20°45′44″V / 64.41°N 20.76222°V / 64.41; -20.76222
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldbreiður
Hæð1.060 metri
LandÍsland
SveitarfélagBláskógabyggð
Map
Hnit64°24′36″N 20°45′44″V / 64.41°N 20.76222°V / 64.41; -20.76222
breyta upplýsingum
Skjaldbreiður séð úr lofti

Skjaldbreiður er 1.060 m há dyngja á Íslandi. Skjaldbreiður myndaðist í eldgosi fyrir um 9000 árum síðan en í sama gosi myndaðist umgjörð Þingvallavatns. Gígurinn er um 300 m í þvermál.

Fjallið er fagurformaður hraunskjöldur norðaustur af Þingvallasveit og sést hann mjög vel frá útsýnispallinum hjá upplýsingamiðstöð Þjóðgarðsins á Þingvöllum.

Skjaldbreiður er önnur stærsta dyngja landsins. Uppi á háfjallinu er mikill og djúpur gígur, um 300 m að þvermáli og u.þ.b. 50 m djúpur.[1]

Vel þekkt er kvæði Jónasar Hallgrímssonar Fjallið Skjaldbreiður.

Jarðfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Fjallið myndaðist í langvinnu gosi fyrir rúmlega 9.000 árum.[1][2][3]

Stuttu eftir að síðustu ísöld lauk, runnu frá Skjaldbreið mikil hraun sem náð hafa suður til Þingvallavatns. Hraunin eru nú hulin yngri hraunum sem runnu frá eldstöðvum austan Hrafnabjarga.[1][4]Gríðarleg gosvirkni varð í kjölfar jöklahörfunar á Þingvallasvæðinu og mynduðust tvær umfangsmiklar dyngjur, Skjaldbreiður og Eldborgir, sunnan Hrafnabjarga. Hraunin fylltu upp í lægðina við norðanvert Þingvallavatnið og stífluðu aðkomu jökulvatnsins frá Langjökli. Upp frá því er það aðrennsli neðanjarðar.[2]

Skjaldbreiður er líka mjög formfagurt fjall. Hlíðar þess ná mest um 8° halla við toppinn en meira dreifist úr neðri lögunum. Eins og þekkt er núna, t.d. frá gosum í Kilauea eða Surtsey, er í dyngjugosum yfirleitt ekki mikið flæði frá toppgígnum, sem er að mestu fylltur af hrauntjörnum, heldur renna hraunin neðanjarðar og koma upp víðs vegar um hlíðar fjallsins. Þannig myndast margföld lög af hrauntungum sem liggja hver yfir aðra og hlaða upp fjallið.[2]

Tveir móbergshnjúkar, Karl og Kerling, eru sunnan í Skjaldbreið, nær kaffærðir í hraununum.[1]

Til forna var farinn Skessubásavegur, Hellisskarðsleið frá Haukadal norður á Hlöðuvelli, en þaðan fyrir norðan Skjaldbreið vestur á Kaldadal. Þessi leið er aflögð.

En línuvegur er til í dag milli Árnessýslu og Borgarfjarðar sem fylgir meira og minna sömu slóðum.[1]

Í dag er líka á góðum vetrardegi hægt að aka alveg upp á fjallið á snjósleða eða breyttum jeppa.[4]

Gígurinn

Leiðin á háfjallið er ekki erfið. Venjulega er farið frá stað þar sem línuvegurinn liggur sem hæst í Skjaldbreið við gíghólinn Hrauk (605m). Stutt ökuslóð liggur þaðan frá línuveginum.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 Íslandshandbókin. Náttúra, saga og sérkenni. Reykjavík, Örn og Örlygur, 1989
  2. 2,0 2,1 2,2 Snæbjörn Guðmundsson, Vegvísir um jarðfræði Íslands. Reykjavík, Mál og Menning, 2015
  3. Ari Trausti Guðmundsson: fyrir u.þ.b. 10.000 árum, í: Ari Trausti Guðmundsson, Petur Þórleifsson: Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind. Reykjavík, Mál og Menning, 2004
  4. 4,0 4,1 4,2 Ari Trausti Guðmundsson, Petur Thórleifsson: Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind. Reykjavík, Mál og Menning, 2004