Fara í innihald

Sprengisandur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Staðsetning svæðisins.
Sprengisandur.
Sprengisandsleið, vegur F26.

Sprengisandur (í sumum fornritum aðeins nefndur Sandur) er gróðursnauð og örfoka háslétta á miðhálendi Íslands. Suðurmörk Sprengisands miðast venjulega við Þjórsárver og norðanmörkin við Kiðagil, að austan teygir hann sig að rótum Tungnafellsjökuls og að Skjálfandafljóti, en að vestan að Þjórsá og þaðan norður með austurjaðri Hofsjökuls. Sprengisandur er ekki samfellt sandflæmi eða sandauðn þótt nafn hans gæti bent til þess. Grýttur jökulruðningur þekur stór flæmi en áreyrar og sandar eru meðfram ám. Þar eru einnig hraun, Tunguhraun, sem þekur allstórt svæði norðan Tungnafellsjökuls. Fjórðungsalda er móbergsfell á miðjum Sprengisandi og vestan undir því er Fjórðungsvatn, stærsta stöðuvatnið á svæðinu. Um Sprengisand liggur Sprengisandsleið, forn fjallvegur sem tengir Norðurland og Suðurland. Allmikil umferð er um Sprengisand, einkum að sumarlagi. Ferðafélag Íslands reisti hús í Nýjadal við rætur Tungnafellsjökuls árið 1967 og þar er ágæt gistiaðstaða og tjaldstæði.

Hinir þjóðkunnu söngtextar Á Sprengisandi eftir Grím Thomsen og Yfir kaldan eyðisand eftir Kristján Jónsson fjallaskáld gerast á Sprengisandi.

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.