Fara í innihald

Túrkmenistan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Turkmenistan)
Türkmenistan
Fáni Túrkmenistans Skjaldarmerki Túrkmenistans
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Türkmenistan Bitaraplygyň watanydyr (túrkmenska)
Túrkmenistan er móðurland hlutleysis
Þjóðsöngur:
Garaşsyz Bitarap Türkmenistanyň Döwlet Gimni
Staðsetning Túrkmenistans
Höfuðborg Asgabat
Opinbert tungumál Túrkmenska
Stjórnarfar Flokksræði

Forseti Serdar Berdimuhamedow
Sjálfstæði
 • frá Sovétríkjunum 27. október 1991 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
52. sæti
491.210 km²
4,9
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
113. sæti
6.031.187
10,5/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 112,659 millj. dala (98. sæti)
 • Á mann 19.526 dalir (105. sæti)
VÞL (2019) 0.715 (111. sæti)
Gjaldmiðill Túrkmenskur manat
Tímabelti UTC+5
Þjóðarlén .tm
Landsnúmer +993

Túrkmenistan er land í Mið-Asíu með landamæri að Afganistan, Íran, Kasakstan og Úsbekistan og strandlengju við Kaspíahaf. Túrkmenistan var áður Sovétlýðveldi og er aðili að Samveldi sjálfstæðra ríkja.

Á 8. öld fluttust Ogur-Tyrkir frá Mongólíu til Mið-Asíu og mynduðu þar öflugt ættbálkabandalag. Nafnið Túrkmenar var notað yfir þá sem tóku upp Íslam á 10. öld. Á 11. öld varð landið hluti af Seljúkveldinu en sagði sig úr því á 12. öld. Mongólar lögðu landið undir sig og á 16. öld var landið að nafninu til undir stjórn tveggja úsbekskra kanata; Kivakanatsins og Búkarakanatsins. Rússar hófu að leggja Mið-Asíu undir sig á 19. öld og stofnuðu bækistöðina Krasnovodsk (nú Türkmenbaşy) við strönd Kaspíahafs. Árið 1881 varð landið hluti af Rússneska keisaradæminu eftir ósigur Túrkmena í orrustunni um Geok Tepe. Túrkmenska sovétlýðveldið var stofnað árið 1924. Lífsháttum hirðingja var útrýmt og samyrkjubúskapur tók við. Yfir 110 þúsund létust í Asgabatjarðskjálftanum árið 1948. Árið 1991 lýsti landið yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum eftir þjóðaratkvæðagreiðslu og kommúnistaleiðtoginn Saparmyrat Nyýazow varð forseti. Hann kom á einræði sem byggðist á persónudýrkun forsetans. Eftir skyndilegt lát hans árið 2006 tók Gurbanguly Berdimuhamedow, varaforsætisráðherra landsins, við völdum og sigraði í sérstökum forsetakosningum árið 2007. Hann var endurkjörinn 2012 með 97% atkvæða. Hann steig til hliðar árið 2022 og lét son sinn, Serdar, taka við forsetaembættinu.

Íbúar Túrkmenistans eru um fimm milljónir. Um 85% eru Túrkmenar og um 89% aðhyllast íslam. Túrkmenska er opinbert mál landsins en margir íbúar tala rússnesku að auki. Efnahagslíf Túrkmenistans hefur vaxið hratt síðustu ár. Auður landsins byggist fyrst og fremst á miklum jarðgaslindum sem eru taldar vera þær fjórðu mestu í heimi. Landið er auk þess 9. stærsti bómullarframleiðandi heims.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Túrkmenistan er 488.100 km2 að stærð. Það er eilítið minna en Spánn og aðeins stærra en Kalifornía. Landið liggur milli 35. og 43. breiddargráðu norður og 52. og 67. lengdargráðu austur.

Yfir 80% landsins eru í Karakum-eyðimörkinni. Turan-dældin nær yfir miðhluta landsins. Landið afmarkast landfræðilega af Ustyurt-hásléttunni í norðri, Kopet Dag-fjallgarðinum í suðri, Paropamyz-hásléttunni og Köýtendag-fjallgarðinum í austri, og Amu Darya-dalnum og Kaspíahafi í vestri.[1] Í landinu eru nokkur misgengi þar sem jarðskjálftar eru algengir. Sterkir jarðskjálftar riðu yfir Kopet Dag-fjallgarðinn 1869, 1893, 1895, 1929, 1948 og 1994. Borgin Ashgabat og nágrannabæir hrundu nánast til grunna eftir Asgabatjarðskjálftann 1948.[1]

Kopet Dag-fjallgarðurinn meðfram suðvesturlandamærum Túrkmenistans, nær 2.912 metra hæð á fjallinu Kuh-e Rizeh.[2]

Balkhan-fjöll (Balkanhéraði) í vesturhlutanum og Köýtendat-fjöll (Lebaphéraði) við suðausturlandamærin að Úsbekistan eru aðrir helstu fjallgarðar landsins. Balkhan-fjöll ná 1.880 metra hæð á Arlanfjalli[3] og hæsti tindur Túrkmenistans er Ayrybaba í Kugitangtau-fjöllum, 3.137 metrar á hæð.[4] Kopet Dag-fjallgarðurinn myndar meginhluta landamæra Túrkmenistans og Írans.

Helstu vatnsföll eru Amu Darya, Murghab-á, the Tejen-á og Atrek-á. Meðal þveráa Atrek-ár eru Sumbar-á og Chandyr-á.

Strönd Túrkmenistans við Kaspíahaf er 1.748 km að lengd. Kaspíahaf er landlukt innhaf án tenginga við úthöfin, en Volgu-Don-skipaskurðurinn gerir skipaflutninga mögulega milli þess og Svartahafs.

Helstu borgir Túrkmenistans eru Asgabat, Türkmenbaşy (áður Krasnovodsk), Balkanabat, Daşoguz, Türkmenabat og Mary.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]
Kort yfir héruð TúrkmenistanBalkan-héraðDasoguz-héraðAhal-héraðLebap-héraðMary-hérað
Kort yfir héruð Túrkmenistan

Túrkmenistan skiptist í fimm héruð (welyatlar) og eitt höfuðborgarumdæmi. Héruðin skiptast síðan í umdæmi (etraplar) sem eru ýmist sýslur eða borgir. Samkvæmt stjórnarskrá Túrkmenistan frá 2008 geta borgir líka verið héruð.

Hérað ISO 3166-2 Höfuðstaður Flatarmál Íbúar (2005) Númer
Asgabatborg Asgabat 470 km² 871.500
Ahal-hérað TM-A Anau 97.160 km² 939.700 1
Balkan-hérað TM-B Balkanabat  139.270 km² 553.500 2
Daşoguz-hérað TM-D Daşoguz 73.430 km² 1.370.400 3
Lebap-hérað TM-L Türkmenabat 93.730 km² 1.334.500 4
Mary-hérað TM-M Mary 87.150 km² 1.480.400 5

Efnahagslíf

[breyta | breyta frumkóða]
Graf sem sýnir helstu útflutningsvörur Túrkmenistans.

Túrkmenistan býr yfir fjórðu mestu jarðgaslindum heims og miklum olíulindum að auki.[5]

Landið hefur stigið varlega til jarðar í efnahagsumbótum og notað sölu á bómull og gasi til að afla tekna. Árið 2014 var atvinnuleysi talið vera 11%.[6]

Milli 1998 og 2002 átti Túrkmenistan í vandræðum vegna skorts á útflutningsleiðum fyrir jarðgas og vegna afborgana af dýrum erlendum skammtímaskuldum. Á sama tíma varð mikil verðhækkun á gasi vegna alþjóðlegra verðhækkana. Skömmu síðar, árið 2014, varð svo hrun í verði bæði jarðefnaeldsneytis og bómullar sem dró verulega úr útflutningstekjum og olli viðskiptahalla frá 2015 til 2017.[7] Efnahagshorfur í nálægri framtíð eru slæmar vegna útbreiddrar fátæktar og byrði vegna erlendra skulda,[8] ásamt áframhaldandi lágu verði á jarðefnaeldsneyti og minni útflutnings á jarðgasi til Kína.[9][10] Álagið endurspeglast meðal annars í svartamarkaðsverði túrkmenska manatsins sem hefur opinbera gengið 3,5 á móti dollar, en var talið seljast á mörkuðum á genginu 32 á móti dollar.[11]

Saparmyrat Nyýazow forseti eyddi miklu af tekjum landsins í að endurnýja borgirnar, sérstaklega Ashgabat. Samtök sem fylgjast með spillingu töldu ástæðu til að hafa áhyggjur af gjaldeyrisforða Túrkmenistans, sem var geymdur í erlendum sjóðum, eins og hjá Deutsche Bank í Frankfurt, samkvæmt skýrslu frá samtökunum Global Witness árið 2006.

Samkvæmt yfirlýsingu Þjóðarráðsins frá 14. ágúst 2003[12] átti að niðurgreiða rafmagn, jarðgast, vatn og salt til landsmanna til 2030. Í reglugerðum fékk hver íbúi landsins 35 kílóvattstundir af rafmagni og 50 rúmmetra af gasi á mánuði. Ríkið sá íbúum líka fyrir 250 lítrum af vatni á dag.[13] Frá 1. janúar 2019 hafa allar slíkar niðurgreiðslur verið afnumdar og komið var á greiðslum fyrir veituþjónustu.[14][15][16][17]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Çaryýew, B.; Ilamanow, Ýa. (2010). Türkmenistanyň Geografiýasy (túrkmenska). Ashgabat: Bilim Ministrligi.
  2. Kuh-e Rizeh on Peakbagger.com
  3. „Mount Arlan“. Peakbagger.com. 1. nóvember 2004. Sótt 30. janúar 2012.
  4. „Ayrybaba“. Peakbagger.com. 1. nóvember 2004. Sótt 25. nóvember 2013.
  5. „BP Statistical Review of World Energy 2019“ (PDF).
  6. „Turkmenistan“. The World Factbook. United States Central Intelligence Agency. Sótt 25. nóvember 2013.
  7. Türkmenistanyň Ýyllyk Statistik Neşiri 2019 Ýyl (Turkmen, Russian, og English). Ashgabat: State Committee of Statistics of Turkmenistan. 2020.
  8. „Country risk of Turkmenistan: Economy“. Societe Generale. Export Enterprises SA. Sótt 27. janúar 2021.[óvirkur tengill]
  9. Hess, Maximilian (16. júní 2020). „Central Asian Gas Exports to China: Beijing's Latest Bargaining Chip?“. Foreign Policy Research Institute.
  10. Rickleton, Chris (22. janúar 2021). „Turkmenistan: Big on gas, short on options“. Eurasianet.
  11. „Turkmen Buy Foreign Currency On Black Market As Manat Falls Sharply“. RFE/RL. 29. janúar 2021.
  12. Resolution of Halk Maslahaty (Peoples' Council of Turkmenistan) N 35 (14. ágúst 2003)
  13. „Turkmenistan leader wants to end free power, gas, and water“. 6. júlí 2017. Sótt 22. nóvember 2017.
  14. Putz, Catherine (27. september 2018). „Turkmenistan Set to Rollback Subsidies for Good“. The Diplomat.
  15. „Turkmenistan Cuts Last Vestiges Of Program For Free Utilities“. RFE/RL. 26. september 2018.
  16. Bugayev, Toymyrat; Najibullah, Farangis. „The Gas Man Cometh: In Turkmenistan, Free Energy No More“. RFE/RL.
  17. „Pay for Electricity on Time or Face Court, Public Warned in East Turkmenistan“. Turkmen.news. 26. júlí 2019.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.