Fara í innihald

Hameln

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hameln
Skjaldarmerki Hameln
Staðsetning Hameln
SambandslandNeðra-Saxland
Flatarmál
 • Samtals102,3 km2
Hæð yfir sjávarmáli
68 m
Mannfjöldi
 • Samtals56.260 (31 desember 2.013)
 • Þéttleiki550/km2
Vefsíðawww.hameln.de

Hameln er borg í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi og er með 56 þúsund íbúa (31. desember 2013). Hún er þekkt fyrir að vera vettvangur í þjóðsögunni um rottufangarann.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Hameln liggur við ána Weser sunnarlega í Neðra-Saxlandi. Næstu borgir eru Hannover til norðausturs (40 km), Bielefeld til vesturs (50 km) og Detmold til suðvesturs (40 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Hameln sýnir klaustur og fyrir neðan myllustein með blárri festingu á rauðum grunni. Klaustrið er St. Bonifatius, sem var reist áður en bærinn var til. Myllan var reist 1209 og var í eigu klaustursins.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Borgin er nefnd eftir ánni Hamel sem rennur í Weser einmitt þar sem borgin er nú. Hamel mun merkja hæð eða klettahæð.[1]

Þjóðsaga[breyta | breyta frumkóða]

Sagan um rottufangarann í Hameln er meðal þekktustu þjóðsagna Þýskalands

Þjóðsagan um rottufangarann í Hameln er meðal þekktustu þjóðsagna í Þýskalandi. Á 13. öld plöguðu rottur í þúsundavís borgina, þrátt fyrir að borgarbúar höfðu reynt allt sem þeir gátu til að útrýma plágunni. Þá kom þar að maður sem sagðist geta losað borgina við rotturnar í einu vettfangi. Hann bað um ákveðin laun sem borgarstjórinn samþykkti. Þá tók rottufangarinn upp flautu og byrjaði að spila og seiða þannig rotturnar. Spilandi leiddi hann þær að ánni Weser og steypti þeim öllum í hana. Þær drukknuðu eða bárust burt með straumnum. Borgarbúar voru himinlifandi. En þegar kom að því að greiða manninum laun, neitaði borgarstjórinn og sagði verkið hafi verið of auðvelt fyrir há laun. Við svo búið fór rottufangarinn burt. En hann kom aftur að kvöldlagi og spilaði á flautuna sína. Að þessu sinni seiddi hann öll börnin í borginni, sem fylgdu honum og hurfu þau á braut með honum. Ekkert þeirra sást aftur. Næsta morgun voru borgarbúar í sorg eftir að hafa uppgötvað að börn þeirra voru horfin. Lítil heyrnarlaus stúlka varð þó vitni að atburðunum og sagði fólkinu frá hvað gerst hafði. Hún sjálf hafði ekki verið seidd, þar sem hún var heyrnarlaus, en hún sá bróður sinn vakna og ganga út á götu og hafði hún þá fylgt honum til að sjá hverju þetta sætti. Þjóðsaga þessi er enn lifandi í borginni, sem sjálf er oft kölluð Rottufangaraborgin Hameln (Rattenfängerstadt). Nær öll ferðamennska í borginni snýst um rottur. Myndir af rottum finnast alls staðar í miðborginni, greyptar í gangstéttarhellur, sem brauðform í verslunum og spýturottur eru út um allt í verslunargluggum.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Saxagreifinn Bernhard og kona hans Kristín reistu litla kirkju á landareign sinni árið 802 eða 812. Þau dóu bæði barnlaus 826, þannig að kirkjan og landið gekk í eigu klaustursins í Fulda. 851 var ákveðið að reisa nýtt klaustur sem hlaut nafnið Hamela eða Hameloa. Á 11. öld myndaðist þorp í kringum klaustrið og árið 1200 kemur fram í skjölum að Hameln sé með borgarréttindi. Þar með er hún með allra elstu borgum í Neðra-Saxlandi. 1259 selur klaustrið í Fulda bæinn til biskupssetursins í Minden. Borgarbúar voru mjög óhressir með þessa tilhögun og neituðu að greiða nýja lénsherranum, biskupnum í Minden, skatt. Það dró til orrustu ári seinna sem háð var við bæinn Sedemünde. Borgaraherinn í Hameln tapaði þar fyrir biskupsher, sem hertók borgina í kjölfarið. 1284 átti hið þekkta ævintýri um rottufangarann í Hameln að hafa átt sér stað samkvæmt söguminni. Staðreyndin er sú að nokkur hundruð börn hurfu í einu vettfangi á þessum tíma.

Uppgangur og stríð[breyta | breyta frumkóða]

Hameln 1642

1426 gengur Hameln í Hansasambandið og er meðlimur þess allt til 1572. 1540 fara siðaskiptin fram í borginni. Þessir tveir atburðir eru mikil lyftistöng fyrir atvinnuvegi í borginni. Frá þessum tíma eru flest gömlu pakkhúsin og aðrar fagrar byggingar. Uppgangurinn hlaut skjótan enda í 30 ára stríðinu. 1625 hernam Kristján IV Danakonungur borgina til að vernda hana fyrir kaþólskum her. En aðeins ári seinna nær Tilly herforingi kaþólska sambandsins að hertaka borgina og hrekja Dani á brott. Herseta kaþólskra stóð allt til 1633 en þá hóf hertoginn Georg frá Braunschweig-Lüneburg umsátur um borgina með aðstoð Svía. Borgin féll í júlí 1633. Hertoginn tók þá til við að víggirða borgina betur og lagfæra alla múra. Vinna þessi stóð langt fram yfir stríðslok. 1690 var húgenottum leyft að setjast að í borginni og komu þeir með alls konar nýja atvinnuvegi þangað. 1734 var fyrsti skipastiginn við borgina vígður. Fram að þessu hafði Hameln verið endastöð skipasiglinga við ána Weser og borgin því mikilvæg umskipunarhöfn. En með skipastiganum var hægt að sigla lengra upp með Weser. Umskipuninni var því hætt, en borgin fékk tolla og þjónustugjöld af skipastiganum í staðin. Á 18. öld var Hameln hluti af furstadæminu Hannover, sem til skamms tíma var í konungssambandi við England. Í 7 ára stríðinu (1756-63) var ákveðið að reisa enn betri varnir fyrir borgina og nokkur rammgerð virki. Hameln var þá álitin óvinnanleg og var kölluð Gíbraltar norðursins. En eftir sigur Napoleons við Jena 1806 gafst Hameln upp fyrir Frökkum bardagalaust. Frakkar hernámu borgina og rifu allar varnir niður. Þetta skapaði reyndar byggingarpláss og borgin hóf að þenjast út. Frakkar voru í borginni allt til 1814. 1866 hertaka prússar konungsríkið Hannover og verður Hameln þá prússnesk. Með tilkomu járnbrautarinnar 1872 hefst iðnbyltingin í borginni.

20. öldin[breyta | breyta frumkóða]

Í Hameln snýst allt um rottur

1897 var mikil herstöð reist í Hameln. Hermennirnar þar voru sendir til Frakklands í heimstyrjöldinni fyrri og féllu rúmlega 2.400 af þeim. 1907 voru miklar bílaverksmiðjur reistar í borginni. Bílarnir voru að mestu leyti flutti út víða til Evrópu, en einnig til annarra heimsálfa. Fyrirtækið lifði kreppuna miklu hins vegar ekki af. Nasistar endurreistu verksmiðjuna, en þegar til kom fannst þeim framleiðslan of dýr. Hún var því flutt til Wolfsburg, þar sem bílar voru smíðaðir á færibandi. Þetta var upphafið að Volkswagen-verksmiðjunum. Þar með slapp Hameln hins vegar við loftárásir í seinna stríðinu. Aðeins ein loftárás var gerð á borgina, 14. mars 1945. Við það eyðilagðist járnbrautarstöðin og nokkur önnur hús. 5. apríl birtist bandarískur her við borgardyrnar. Nasistar sprengdu þá brúna yfir Weser og vörðust af hörku, þrátt fyrir að hafa einungis yfir 500 manns að ráða. Þannig náðu þeir að tefja framrás Bandaríkjamanna um tvo daga. Þeir náðu borginni ekki fyrr en 7. apríl. Bandaríkjamenn skiluðu borginni til Breta, enda var hún á þeirra hernámssvæði. Nasistar höfðu í stríðinu breytt fangelsinu í Hameln í fangabúðir fyrir pólitíska andstæðinga, gyðinga, samkynhneigða og aðra. Mörg hundruð manns höfðu verið teknir af lífi og aðrir látnir þramma dauðagöngu til annarra staða. Bandaríkjamenn frelsuðu þá sem eftir voru og héldu Bretar stríðsréttarhöld yfir nasistum þar. Rúmlega 200 nasistar voru dæmdir í þeim, sumir til dauða. Réttarhöld þessi stóðu yfir með hléum allt til 1949. Í dag er Hameln mikil ferðamannaborg með fallegum byggingum.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Róðrarfélag borgarinnar heitir Ruderverein Weser, en það á sér einn heimsmeistara og hefur sent ótal meðlimi á Ólympíuleikana.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Leiksýning um rottufangarann
  • Rattenfänger Freilichtspiel er heiti á útileiksýningu þar sem þjóðsagan um rottufangarann frá Hameln er sýnd á göngugötunni í miðborginni. Sýningin er öllum opin og er ókeypis. Leikarar eru venjulegir borgarbúar sem taka þátt í leiksýningunni endurgjaldslaust, líka börnin. Borgarstjórinn í Hameln er einn leikaranna og leikur borgarstjórann sem neitaði að greiða rottufangaranum laun.
  • RATS Musical er tónlistarsýning þar sem þjóðsagan um rottufangarann er sett á svið, reyndar á sama svið og leiksýningin. Hér er hins vegar um atvinnufólk að ræða sem leikur og syngur. Báðar sýningar fara fram allt sumar.

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Myndasafn[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 124.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Hameln“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.