Fara í innihald

Öxará

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Öxará árið 2015.
Hómarnir í Öxará;ekki er vitað hví Jakobshólmi heitir svo

Öxará er ein af þekktustu ám á Íslandi og birtist fólki í fornum sögum, kvæðum og söngvum, skáldsögum og á málverkum. Öxará er dragá með öll einkenni sem slíkum ám fylgja, sem eru miklar sveiflur í rennsli, vatnshita og framburðarmagni. Í mestu þurrkum hefur hún þorrið gersamlega en í úrkomutíð og leysingum verður hún foraðsmikil. Áætlað meðalrennsli hennar er 2,5 m3/s.

Í Landnámabók er sagt að áin hafi fengið nafn af því að þegar Ketilbjörn gamli landnámsmaður á Mosfelli fór ásamt mönnum sínum í landkönnunarferð hafi þeir gert skála í Skálabrekku við Þingvallavatn. Þar skammt frá komu þeir að ísilagðri á en hjuggu vök á ísinn, misstu öxi í ána og nefndu hana Öxará.

Áin kemur upp í Myrkavatni, litlu fjallauvatni milli Leggjabrjóts og Botnssúlna. Vatnið er í rúmlega 410 m hæð yfir sjó. Úr því fellur áin um Öxarárdal, milli Búrfells og Leggjabrjóts, og niður á Biskupsbrekkuhraun innan við Brúsastaði. Hún mun áður hafa runnið suður um Kárastaðahraun og í Þingvallavatn rétt hjá Skálabrekku en í Sturlungu segir að henni hafi verið veitt í Almannagjá til að þingmenn þyrftu styttra að fara til að sækja sér neysluvatn. Eftir það fellur hún ofan í gjána í fallegum fossi, Öxarárfossi.

Áin rennur nokkurn spöl eftir gjánni en síðan úr henni aftur undir brúnni við Drekkingarhyl. Í Drekkingarhyl var konum áður drekkt fyrir ýmsar sakir og var þeim þá stungið í poka og varpað í hylinn.

Talið er að brú hafi verið gerð yfir Öxará þegar á 10. öld. Minnst er á þessa brú í Hrafnkels sögu Freysgoða. Lengst af mun áin þó hafa verið óbrúuð eða allt fram til 1897. Þá var gerð brú yfir ána við Drekkingarhyl, sem enn stendur nokkuð breytt. Nokkrir hólmar eru í ánni og kallast einn þeirra Einvígishólmi eða Öxarárhólmi. Þar voru hólmgöngur háðar áður fyrr.

Árni Hjartarson og Snorri Zóphóníasson 2020: Öxará. Náttúrufræðingurinn 90 árg. bls.5-15.

„Rannsókn á hinum forna alþingisstað Íslendinga. Árbók Fornleifafélagsins 1880“.