Öxará

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Öxará árið 2015.
Hómarnir í Öxará;ekki er vitað hví Jakobshólmi heitir svo

Öxará er bergvatnsá sem rennur um Öxarárdal og Þingvelli og í Þingvallavatn. Áin kemur mjög við sögu Þingvalla. Hún er yfirleitt ekki sérlega vatnsmikil en getur bólgnað mjög upp í flóðum.

Sagt er að áin hafi fengið nafn af því að þegar Ketilbjörn gamli landnámsmaður á Mosfelli fór ásamt mönnum sínum í landkönnunarferð hafi þeir gert skála við Skálabrekku. Þar skammt frá komu þeir að ísilagðri á en hjuggu vök á ísinn, misstu öxi í ána og nefndu hana Öxará.

Áin kemur upp í Myrkavatni og er 17 km löng. Hún fellur milli Búrfells og Leggjabrjóts og um Biskupsbrekkuhraun innan við Brúsastaði. Hún mun áður hafa runnið suður um Kárastaðahraun og í vatnið rétt hjá Skálabrekku en í Sturlungu segir að henni hafi verið veitt í Almannagjá til að þingmenn þyrftu styttra að fara til að sækja sér neysluvatn. Eftir það fellur hún ofan í gjána í fossi, Öxarárfossi.

Um gjána fellur áin nokkurn spöl en síðan úr henni aftur undir brúna við Drekkingarhyl, sem áður var mun dýpri en grynntist þegar núverandi brú var gerð fyrir Alþingishátíðina 1930. Þá var skarðið í gjárbarminn sem áin rennur um sprengt og lækkað til muna. Talið er að brú hafi verið gerð yfir ána þegar á 10. öld. Í Drekkingarhyl var konum áður drekkt fyrir ýmsar sakir og var þeim þá stungið í poka sem þyngdir voru með grjóti og varpað í hylinn.

Nokkrir hólmar eru í Öxará og kallast einn þeirra Einvígishólmi eða Öxarárhólmi. Þar voru hólmgöngur háðar áður fyrr.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

„Rannsókn á hinum forna alþingisstað Íslendinga. Árbók Fornleifafélagsins 1880“.