Lögrétta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lögrétta var á þjóðveldisöld æðsta stofnun Alþingis og sinnti ýmsum hlutverkum. Hún setti lög, skar úr lagadeilum og gegndi ýmsum öðrum hlutverkum.

Lögréttu var komið á fót um leið og Alþingi var stofnað 930. Í henni sátu 39 goðar og 9 uppbótargoðar á miðpalli en hver goði hafði tvo ráðgjafa með sér og sat annar fyrir framan hann og hinn fyrir aftan. Þegar biskupsstólarnir voru stofnaðir fengu Hóla- og Skálholtsbiskupar einnig sæti í lögréttu. Lögsögumaður stýrði fundum lögréttunnar. Hún kom saman báða sunnudagana sem þingið stóð yfir, svo og síðasta daginn, og oftar ef þurfa þótti. Lögrétta var háð undir beru lofti og hefur verið hlaðin í hring eða ferhyrning. Allir máttu fylgjast með störfum hennar en ekki fara inn fyrir vébönd sem voru umhverfis hana. Ekki er vitað með vissu hvar lögrétta var en af heimildum frá 13. öld má draga þá ályktun að hún hafi þá verið á völlunum fyrir neðan Lögberg.

Þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd breyttist hlutverk lögréttunnar, hún hafði áfram takmarkað löggjafarvald en var þó fyrst og fremst dómstóll. Goðarnir hurfu úr sögunni en í þeirra stað komu lögréttumenn. Í lögréttu sátu hverju sinni 36 menn, þrír úr hverju þingi, og voru þeir valdir úr hópi 84 nefndarmanna, bænda sem sýslumenn tilnefndu til þingreiðar. Í stað lögsögumannsins komu tveir lögmenn. Lögmenn nefndu svo 6, 12 eða 24 úr hópi lögréttumanna til að dæma um einstök mál. Í 4. kap. þingfararbálks Jónsbókar segir, að þeir menn sem í lögréttu séu nefndir skuli „dæma lög um þau mál öll, er þangað eru skotin og þar eru löglega fram borin“. Lögréttan var æðsti dómstóll hérlendis, uns yfirréttur var stofnaður árið 1593. Árið 1594 var reist lítið hús fyrir starfsemi lögréttunar fyrir vestan Öxará og þar var hún fram til 1798 en þá var húsið svo illa farið að ekki var hægt að notast við það og var þinghaldið þá flutt og þingið síðan lagt niður árið 1800.