Fara í innihald

Skriðuklaustur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gunnarshús á Skriðuklaustri

Skriðuklaustur er menningar- og fræðasetur og fornfrægt stórbýli í Fljótsdalshreppi á Austurlandi. Þar var samnefnt munkaklaustur af Ágústínusarreglu frá 1493 til 1552 og var Skriðuklaustur síðasta klaustrið sem stofnað var á Íslandi í kaþólskum sið.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fornleifauppgröftur á Skriðuklaustri. Gunnarshús í baksýn.

Hjónin Hallsteinn Þorsteinsson og Sesselja Þorsteinsdóttir á Víðivöllum gáfu klaustrinu jörðina Skriðu í Fljótsdal árið 1500 en þá hafði það starfað þar um hríð. Fyrsti príorinn þar hét Narfi og var hann vígður árið 1497 en ári síðar var aðeins einn munkur í klaustrinu. Raunar er talið að munkarnir hafi aldrei orðið fleiri en sex talsins. Við siðaskiptin í Skálholtsbiskupsdæmi 1542 voru fjórir munkar í klaustrinu auk príorsins.

Konungur gaf út bréf um að haldinn skyldi lestrarskóli í klaustrinu en það bréf var síðan tekið aftur og árið 1552 runnu eignir klaustursins til Danakonungs en klaustrið átti þá um 40 jarðir víða um Austurland. Jarðeignirnar voru síðan leigðar umboðsmönnum sem oft sátu á Skriðuklaustri og höfðu gjarna sýsluvöld í Múlaþingi. Einn þeirra var Hans Wium sýslumaður, sem þekktastur hefur orðið fyrir tengsl sín við Sunnefumál. Sunnefa dó í varðhaldi á Skriðklaustri árið 1767.

Kirkja var á Skriðuklaustri frá 1496 og stóð klausturkirkjan fram á 18. öld en eftir það var byggð önnur og minni kirkja sem var svo lögð af árið 1792.

Gunnar Gunnarsson[breyta | breyta frumkóða]

Gunnar Gunnarsson rithöfundur settist að á Skriðuklaustri árið 1939 og bjó þar til 1948. Sumarið og haustið 1939 lét hann reisa sér íbúðarhús á bænum sem jafnan er kennt við hann og kallað Gunnarshús. Það er teiknað af þýska arkitektinum Fritz Höger, sem var góðvinur Gunnars, og er í bæheimskum stíl. Húsið er 315 grunnfleti, tvær hæðir og ris, alls yfir 30 herbergi. Árið 1967 var annað íbúðarhús byggt á jörðinni og hlaut nafnið Skriða.

Gunnar ánafnaði ríkissjóði jörðina með gjafabréfi, með því skilyrði m.a., að nýting hennar yrði til menningarauka („Jarðeign þessi skal vera ævarandi eign íslenzka ríkisins. Hún skal hagnýtt á þann hátt, að til menningarauka horfi, t.d. að rekin sé þar tilraunastarfsemi í landbúnaði, byggðasafn, bókasafn, skjalasafn, listasafn, skóli, sjúkrahús, hressingarhæli, barnahæli eða elliheimili.“). Tilraunabú í sauðfjár- og jarðrækt á vegum RALA var rekið þar frá 1949 til 1990.

Stofnun Gunnars Gunnarssonar eða Gunnarsstofnun var sett á laggirnar árið 1997 og hefur Gunnarshús og Skriðu til umráða, ásamt lóð í kringum húsin. Þar er menningar- og fræðasetur sem rekið er árið um kring. Skúli Björn Gunnarsson hefur verið forstöðumaður frá árinu 1999.

Fornleifarannsóknir[breyta | breyta frumkóða]

Fornleifauppgröftur á Skriðuklaustri, klausturrústir.

Rannsóknir og uppgröftur hófust þar vorið 2000 og stóðu til vors 2012 undir stjórn dr. Steinunnar Kristjánsdóttur fornleifafræðings. Þann rúma áratug sem rannsóknin stóð yfir unnu 131 starfsmaður með Steinunni. Yfir 13000 gripir og bein fundust á rannsóknarsvæðinu sem var um 1500 m2 að stærð.

Sagan af klaustrinu á Skriðu eftir dr. Steinunni Kristjánsdóttur kom út síðla árs 2012 og var hún tilnefnd til þriggja bókmenntaverðlkauna fyrir verk sitt, til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka, Viðurkenningar Hagþenkis og Fjöruverðlaunanna sem henni hlotnuðust.

Klaustrið og kirkjan[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknirnar benda til þess að byggingar klaustursins hafi verið vel úr garði gerðar og að skipulag húsa og kirkju hafi fylgt víðteknum venjum um skipulag klaustra sem kennt er við St. Gallen í Sviss. Þó hefur ekkert klaustur fylgt því skipulagi í þaula. Lágu kirkja og klaustrið saman og mynduðu afmarkaða þyrpingu. Klausturkirkjan var vígð 1512 (ísl. Fornbr.safn) og hefur innanmál hennar verið um 93 m2 . Mældist hún 15 m löng og 5.7 m breið utan eins útskots sem var norðanmegin. Skiptist hún í framkirkju, miðskip og kór, með hálfþili milli kórs og miðskips. Kirkjan var úr torfi og grjóti en timburklædd að innan í hólf og gólf. Margar koparleifar fundust í gólfi kirkjunnar sem benda til að þak og stafn hafi verið koparklætt. Tveir inngangar voru á kirkjunni, að vestanverðu fyrir almenning og að norðanverðu fyrir reglubræður enda styðst þaðan yfir í klausturbygginguna sjálfa.

Klausturhúsin[breyta | breyta frumkóða]

Skiptust í hin helgu rými vestanmegin og hin veraldlegu rými austanmegin. Hin helgu rými eða vesturhlutinn lá næst kirkjunni og skiptist í næturtröppu sem var gangur er tengdi kirkju og klausturhús. Hitunarhús sem var um 18.5m2 að stærð og var búið ofni (ekki þó hlóðum eða eldstæði). Slík herbergi voru í öllum klaustrum. Svefnskáli reglubræðra, en í því rými fundust rúmstæði, var um 30m2. Kapítulinn var á enda gangsins og hefur hann verið klæddur timbri í hólf og gólf vegna allra timburleifanna sem þar fundust. Kapítulinn var um 23m2 með bogadregnu útskoti. Eitt rými um 10m2 að stærð fannst einnig í þessum hluta. Það var eingöngu innangengt að utan og fundust í því leifar tveggja seyða og má leiða líkum að því að um hafi verið að ræða einhvers konar þvotta- eða baðhús. Hin veraldlegu rými eða austurhlutinn skiptist í matsal um 20m2, þar fundust eldsummerki og leifar skordýra, niðurstöður greininga Hrannar Konráðsdóttur skordýrafornleifafræðings á gólflögum sýna fram á það. Einnig fundust þar fræ villiepla (Malus sylvestris). Í suðausturhorni matsalarins voru tröppur upp á sjúkraloft sem lá fyrir ofan gestaskálann. Í því gólflagi fundust einnig koparleifar og talið er að þak þessa hluta klausturhúsanna hafi einnig verið koparklætt. Salirnir hafa hvor um sig verið um 64m2. Austan við matsalinn var eldhúsið sem mældist 32m2 að flatarmáli. Í gólflögum fundust dýrabein og matarleifar og eldstæðið var um 2 metrar í þvermál. Niðurgrafið herbergi var við hlið gestaskálans, talið er að það sé búr, en þar fundust leifar matar, myglu, skordýra sem fylgja mönnum og dýrabeina. Austasti hlutinn skiptist í opið vinnurými, geymslu sem var um 16m2 sem í fannst mikið af brenndum höfuðlúsaleifum. Suðaustasta rýmið hefur verið túlkað sem kjötskemma, þar sem gólflagið benti til eldunar og geymslu matvæla. Meðal gripa sem fundust við uppgröftinn má nefna:

 • Líkneski af heilagri Barböru
 • Leirkrúsir
 • Bíldur
 • Skæri
 • Bænaperlur
 • Lyfjaglas
 • Innsiglislakk
 • Hnífar
 • Hárprjónar
 • Örvaroddur
 • Nálar
 • Hnappar

Kirkjugarður[breyta | breyta frumkóða]

Kirkjugarðurinn hefur verið um 441m2 að stærð og innan hans var brunnur og ræsi. Í það minnsta 295 einstaklingar á öllum aldri voru jarðsettir þar, þann stutta tíma sem klaustrið starfaði. Garðurinn var svæðisskiptur, norðanmegin og austan voru sjúklingar jarðaðir og reglubræður einnig austanmegin. Leikmenn (vinnufólk) sunnan og vestanmegin og velgjörðarmenn og –konur klaustursins innan kirkju. Ekki er vitað hverjir voru jarðaðir þarna eða hvaðan fólkið kom, en margir voru jarðaðir í líkkistum, hvort sem um var að ræða velgjörðafólk, reglubræður, sjúklinga eða leikmenn. Beinagrindur sjúklinganna vöktu mikla athygli rannsakenda. Fornmeinafræðingar fundu út að margvíslegir kvillar hrjáðu þetta fólk. Sjúklingarnir hafa verið frá börnum til gamalmenna og engum hefur verið úthýst. Reynt hefur verið að lina þjáningar allra þeirra sem leituðu ásjár í klaustrið og að bæta mein þeirra. Meðal sjúkdóma og annarra kvilla sem greindust í beinum voru sullaveiki, berklar, liðagigt, lungnabólga, Downs-heilkenni, klofinn gómur og sárasótt. Mörg tilfelli sárasóttar benda til þess að sjúkdómurinn hafi verið orðinn landlægur hér á sama tíma og annars staðar í Evrópu. Einnig fundust tvær beinagrindur með dularfulla áverka sem benda annað hvort til slyss eða morðs. Ungur maður fannst með bæði herðablöð illa brotin og höfuðkúpa konu var með augljósan skurð eftir einhvers konar eggvopn.

Niðurstöður[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknanna hefur Skriðuklaustur verið starfrækt sem sjúkrastofnun utan hins reglubundna klaustur- og trúarlífs, auk þess sem hún sinnti því hlutverki að mennta prestlærlinga. Grænmeti og lækningajurtir hafa verið ræktuð á staðnum og nóg hefur verið að bíta og brenna í klaustrinu meðan það starfaði. Enginn hefur liðið skort sem þar dvaldi og vann, enda var það ríkt af jörðum og fjármunum. Byggingar hafa verið stórar, reisulegar og vel úr garði gerðar. Skordýragreiningar benda til þess að húsakynni hafi verið hlý og þurr. Deildar meiningar hafa verið um tilvist leikmanna (vinnufólk) í íslenskum klaustrum, en suðurhluti kirkjugarðs bendir til annars þar sem kirkjugarðurinn var svæðisskiptur og eingöngu klausturkirkjugarður en ekki sóknarkirkjugarður. Það magn matar- og dýrabeinaleifa sem fundust renna líka stoðum undir þá kenningu að leikmenn hafi verið til staðar á klausturtíma. Segja má að öll sú starfsemi sem fór fram innan klausturveggjanna hafi þarfnast leikmanna, því erfitt hefur verið fyrir fimm reglubræður að kenna prestlærlingum, elda, þrífa, sinna skjalagerð og hjúkra öllum þeim sjúklingum sem þar dvöldust, utan þess að sinna sínu trúarlega starfi. Varpar þessi rannsókn nýju ljósi á klausturlíf á Íslandi á kaþólskum tíma.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • „Skriðuklaustur - Gunnarsstofnun“. Sótt 6. júlí 2006.
 • „Skriðuklaustur Fljótsdalur“. Sótt 6. júlí 2006.
 • „Skriðuklaustur - Híbýli helgra manna“. Sótt 22. febrúar 2007.
 • Steinunn Kristjánsdóttir. (2012). Sagan af klaustrinu á Skriðu. Reykjavík: Sögufélag.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]