Kirkjubæjarklaustur (klaustur)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kirkjubæjarklaustur var nunnuklaustur af Benediktsreglu í Kirkjubæ á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu, stofnað árið 1186 af Þorláki biskupi Þórhallssyni. Skyldu abbadísir þar hafa fullt vald í öllum málum, öfugt við það sem var í Reynistaðarklaustri seinna, en þar heyrði klaustrið undir Hólabiskup.

Fyrsta abbadísin var Halldóra Eyjólfsdóttir en eftir að hún dó 1210 er ekkert vitað um klausturlifnaðinn allt til ársins 1293, en hluta þess tíma voru feðgarnir Digur-Helgi Þorsteinsson og Ögmundur Helgason staðarhaldarar í Kirkjubæ.

Um miðja 14. öld, í tíð Jórunnar abbadísar, sannaðist það á eina nunnuna, Katrínu (eða Kristínu) að hún hefði gefið sig fjandanum með bréfi, farið óvirðulega með vígt brauð og lagst með mörgum mönnum og var hún brennd á báli. Aðrir segja að nunnurnar hafi verið tvær og hin hafi talað óvirðulega um páfann. Leiði þeirra er sagt vera á Systrastapa, skammt frá Kirkjubæjarklaustri, og samkvæmt þjóðsögum er annað leiðið jafnan grænt en hitt grænkar aldrei.

Halldóra abbadís í Kirkjubæ dó í Svartadauða 1402 ásamt helmingi systranna sem þar voru. Sagt er að Kirkjubæ hafi þrisvar eytt af mannfólki í pestinni og var á endanum svo komið að nunnurnar þurftu sjálfar að mjólka ærnar og kýrnar og kunnu flestar lítt til þeirra verka, enda flestar hefðarmeyjar eða dætur betri bænda.

Klaustrið var lagt af við siðaskiptin í Skálholtsbiskupsdæmi. Konungur hugðist stofna lestrarskóla í Kirkjubæ og gaf út bréf um það 1542 en það var síðar tekið aftur og klaustrið selt á leigu ásamt jörðunum 42 sem það átti, en konungur sá nunnunum fyrir uppeldi meðan þær lifðu. Árið 1544 voru 6 nunnur í klaustrinu auk Halldóru abbadísar: Guðríður, Oddný (systir Gissurar biskups), Arnleif, Ástríður, Margrét og Valgerður.

Abbadísir í Kirkjubæjarklaustri[breyta | breyta frumkóða]

  • Halldóra Eyjólfsdóttir var fyrsta abbadísin, vígð 1189 og dó 1210. Hún var á alþingi 1195 og bauð þá Guðmundi Arasyni, síðar biskupi, að ráðast til sín og hafa forystu fyrir klaustrinu með henni. En þegar sendimenn abbadísar komu að sækja Guðmund fengu Svarfdælir Brand Sæmundsson biskup til að taka aftur leyfi sem hann hafði gefið Guðmundi til að fara og hætti hann við og sat um kyrrt nyrðra.
  • Agatha Helgadóttir var vígð abbadís 1293. Hún var systir Árna Helgasonar biskups og var abbadís allt til 1343.
  • Jórunn Hauksdóttir var kjörin abbadís eftir lát Agöthu 1343 og dó 1361. Hún var dóttir Hauks Erlendssonar lögmanns.
  • Þorgerður hét næsta abbadís sem vitað er um. Mikael Skálholtsbiskup setti hana af árið 1387.
  • Halldóra Runólfsdóttir var vígð í stað Þorgerðar af Mikael biskupi en hann setti hana af nokkrum mánuðum síðar. Halldóra abbadís í Kirkjubæ dó í Svartadauða 1402 ásamt 6 nunnum, en 7 lifðu eftir. Líklegt er að þetta sé Halldóra Runólfsdóttir, sem hefur þá verið sett aftur í embætti af Vilchin biskupi.
  • Guðrún Halldórsdóttir var vígð abbadís 1403 og dó 1430.
  • Guðrún hét næsta abbadís en ekkert er um hana vitað.
  • Halldóra nokkur var abbadís í Kirkjubæjarklaustri 1442.
  • Oddný var abbadís 1488.
  • Halldóra Sigvaldadóttir var síðasta abbadís Kirkjubæjarklausturs og kann að hafa gegnt því embætti frá því fyrir 1500. Hún var dóttir Sigvalda Gunnarssonar langalífs, kirkjusmiðs á Síðu, og er sögð hafa verið kvenna hávöxnust, en auknefni föður hennar vísaði til hæðar hans en ekki aldurs. Gissur Einarsson biskup var bróðursonur hennar og styrkti hún hann til náms en vildi ekkert af honum vita þegar fréttist að hann hneigðist að kenningum Lúthers. Ekki er vitað hvenær hún dó.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Anna Sigurðardóttir: Allt hafði annan róm áður í páfadóm. Nunnuklaustrin tvö á Íslandi og brot úr kristnisögu. Kvennasögusafn Íslands, Rvík 1988, 412 bls. Úr veröld kvenna 3.
  • „Kirkjubæjarklaustur. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.