Allsherjargoði
Allsherjargoði var virðingarheiti sem borið var á þjóðveldisöld af þeim sem hverju sinni fór með goðorð afkomenda Ingólfs Arnarsonar og var hlutverk allsherjargoðans fyrst og fremst að helga alþingi þegar það var sett.
Þorsteinn Ingólfsson Arnarsonar var goði þegar Alþingi var stofnað 930 og varð hann fyrsti allsherjargoðinn. Sonur hans, Þorkell máni Þorsteinsson, tók við um 945 og var jafnframt lögsögumaður. Þormóður Þorkelsson tók við af honum 984 og var til 1020. Hamall sonur hans var svo allsherjargoði til 1055. Ekki er víst hver þriggja sona hans tók við eða hverjir voru allsherjargoðar næstu 100 árin en á síðari hluta 12. aldar varð Guðmundur gríss Ámundason allsherjargoði og hefur hann vafalaust verið afkomandi Hamals. Hann hafði allsherjargoðorðið til dauðadags 1210 og síðan Magnús góði sonur hans til 1234. Magnús var barnlaus og sumir telja að Árni óreiða Magnússon, bróðursonur Guðmundar gríss og tengdasonur Snorra Sturlusonar, hafi erft goðorðið og verið síðasti allsherjargoðinn (hann dó 1250) en það er þó alveg óvíst.
Ásatrúarfélagið hefur endurvakið titilinn og kallast æðsti leiðtogi þess allsherjargoði. Núverandi allsherjargoði er Hilmar Örn Hilmarsson.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Gunnar Karlsson (2008). Goðamenning. Heimskringla.