Norska öldin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Saga Íslands

Eftir tímabilum

Miðaldir á Íslandi
Nýöld á Íslandi
Nútíminn á Íslandi

Eftir umfjöllunarefni

Norska öldin er heiti sem stundum er notað yfir 14. öldina í sögu Íslands. Heitið var fyrst notað af Birni Þorsteinssyni, sagnfræðingi. Nafngiftin kemur til af því að á öldinni voru tengsl Íslands við Noreg meiri en síðar varð.

Útflutningur á skreið til Björgvinjar sem fékk einkaleyfi á henni um miðja öldina, varð til þess að útgerð jókst gríðarlega um allt Ísland og sjávarþorp byggðust upp við helstu hafnir. Skreið tók við af vaðmáli sem helsta útflutningsvara landsins. Að hluta til stafaði þetta af aukinni eftispurn eftir skreið í Noregi, þar sem Hansakaupmenn höfðu lagt undir sig fiskverslunina um allan Norðursjó, frá Englandi til Björgvinjar og austur til Eystrasaltslandanna. Að hluta til stafaði þetta líka af hallærum á Íslandi beggja megin við aldamótin 1300 sem ollu mannfelli í sveitum. Á þessum tíma voru margir norskir valdsmenn áberandi á Íslandi svo sem Auðunn rauði á Hólum og Jón Halldórsson í Skálholti. 8. júlí 1362 drápu Íslendingar norskan hirðstjóra, Smið Andrésson í Grundarbardaga.

1349 barst Svarti dauði til Noregs sem varð til þess að siglingar þaðan til Íslands lögðust af um langt skeið. Veikin barst ekki til Íslands vegna þess að veikar áhafnir náðu ekki að sigla svo langt yfir hafið. Árið 1363 gekk Hákon 5. Noregskonungur að eiga Margréti, dóttur Valdimars atterdag, Danakonungs sem síðar leiddi til stofnunar Kalmarsambandsins, en við það fluttist þungamiðja konungsvalds í Noregi til Danmerkur og tengsl Íslendinga við Noreg minnkuðu mikið. Þegar Hansakaupmenn brenndu Björgvin 1428 eftir að Eiríkur af Pommern hafði bannað þeim verslun þar árið áður, rofnuðu svo þessi tengsl endanlega.

  Þessi sögugrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.