Þorvaldur víðförli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Minnisvarði um Þorvald víðförla, Friðrik biskup og kristniboðsstarf þeirra.

Þorvaldur Koðránsson víðförli var íslenskur maður sem tók kristna trú á ferðum sínum um Evrópu. Hann var aðstoðarmaður og túlkur Friðriks trúboðsbiskups frá Þýskalandi, þegar hann reyndi að boða kristni Íslandi í kringum 981. Þetta trúboð var jafnframt hið fyrsta sem fór fram á Íslandi.

Þeir félagar bjuggu í fjóra vetur á Lækjamóti í Víðidal og fóru um landið og boðuðu trú við misjafnar undirtektir. Ort voru um þá níðkvæði og þeir sagðir samkynhneigðir. Það þoldi Þorvaldur illa og drap þá sem þannig höfðu ort. Að lokum héldu þeir til Noregs og þar sagði biskup skilið við Þorvald „því að þú vilt seint láta af manndrápum“.

Þorvaldur var frá Stóru-Giljá í Austur-Húnavatnssýslu og er þar minnisvarði um þá félaga alveg við þjóðveginn beint á móti bænum. Í Þorvaldar þætti víðförla segir að Þorvaldur hafi farið í pílagrímsferð til Jerúsalem og víðar og endað ævina í klaustri í Býsansríki.

Árni Bergmann samdi skáldsögu um Þorvald.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]